Fréttir

Déjà vu

20 jún. 2011

„Kjarasamningar í uppnámi“, „Vanefndir ríkisstjórnarinnar“ o.fl. frasar á borð við þessa heyrast þessa dagana.  Ástæða þessa virðist vera sú, skv. fréttaflutningi flestallra fjölmiðla landsins, að þau loforð sem ríkisstjórnin mun hafa haft í frammi, við gerð nýlegra kjarasamninga ASÍ og SA, hafa ekki gengið eftir sem skyldi.  Þessi sömu frasar voru hafðir uppi í kjölfar gerð „Stöðugleikasáttmálans“ á árinu 2009.

Af fréttum að dæma virðist dagurinn í dag (mánudagur 20. júní) og morgundagurinn (þriðjudagur 21. júní) vera þeir dagar sem skera úr um það hvort kjarasamningar gildi í þrjú ár eða renni sitt skeið á enda í janúar 2012.

Lögreglumenn eiga fund með samninganefnd ríkisins, í húsnæði Ríkissáttasemjara í Borgartúni 21, n.k. miðvikudag, þar sem kjarasamningar verða ræddir.  Sú staða hefur verið uppi að samningar verði gerðir til þriggja ára, líkt og á hinum almenna vinnumarkaði sem og þeir samningar, sem gerðir hafa verið við stéttarfélög opinberra starfsmanna til þessa.

Þessi staða hefur komið upp áður og ekki bara einu sinni.  Þannig hefur LL þurft að standa í gerð kjarasamninga í þrígang frá hausti 2008.  Fyrst um og í kringum hrun bankakerfisins á Íslandi á haustmánuðum 2008, síðan við gerð „Stöðugleikasáttmálans“ margfræga á árinu 2009, sá samningur var reyndar felldur í atkvæðagreiðslu félagsmanna LL, sem gerði það að verkum að vinnan færðist inn á borð Ríkissáttasemjara og í kjölfar hennar inn í gerðardóm, sem kvað upp úrskurð sinn í byrjun júní 2010.  Nú, í fjórða sinn frá 2008, er verið að vinna að gerð kjarasamninga fyrir lögreglumenn, á sama tíma er verið að hræra í skipulagi lögreglu, líkt og verið var að á árunum 2008, 2009 og 2010.

Déjà vu………………..

Til baka