Fréttir

Leikritinu lokið!

21 jún. 2011

Þá er flutningi leikritsins „Kjarasamningar í uppnámi“ lokið en leikritið var, eins og flestir vita, þríleikur ASÍ, SA og ríkisstjórnarinnar!

Þjóðin hefur beðið með öndina í hálsinum undanfarna daga yfir þeirri magnþrungnu spennu sem birst hefur á fjölum leikhúss þjóðarinnar á lokadögum leikritisins.

Halda samningar til þriggja ára eða ekki, hefur verið yfirskrift endakafla leikritsins, en flutningi þess lauk endanlega í Kastljósi RÚV í kvöld þar sem framkvæmdastjóri SA og forseti ASÍ „tókust á“.  Samningar halda, a.m.k. fyrst um sinn, til þriggja ára.  Öndin er farin úr hálsinum og allir geta nú andað miklu léttar.

Nú er bara að bíða spenntur eftir hinum ýmsu gjaldskrárhækkunum, vöruverðshækkunum o.s.frv. sem er augljóst að munu verða næstu vikur og mánuði.  Umsamdar kauphækkanir verða, að sjálfsögðu og skv. venju, fljótlega teknar til baka!

Til baka