Fréttir

Kjarabætur horfnar?

24 jún. 2011

Af fréttum fjölmiðla að dæma, undanfarna daga, er allt útlit fyrir að þær kjarabætur, sem samið hefur verið um á hinum almenna vinnumarkaði sem og hinum opinbera að undanförnu séu nú fyrir bí vegna þeirra verðhækkana sem hafa verið að birtast að upp á síðkastið.  Útlit er fyrir að fleiri hækkanir eigi eftir að fylgja í kjölfarið með tilheyrandi hækkun verðbólgu.

Það verður að segjast alveg eins og er að það er undarlegt að standa í kjaraviðræðum á sama tíma og þær „kjarabætur“, sem ríkisvaldið er að bjóða lögreglumönnum eru horfnar áður en þær ná launaumslögum lögreglumanna.  Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem launahækkanir hverfa í verðlags- og gjaldskrárhækkunum en það þarf þó, sennilega, að leita ansi langt aftur í tímann til að finna hliðstæðu þess að kjarabætur hverfi áður en samið er um þær!

Kaupmáttur launa, hvort sem miðað er við dagvinnu- eða heildarlaun hefur farið niður á við nokkur undanfarin ár (tölur um kaupmátt launa lögreglumanna verða birtar hér síðar) og útlit er fyrir m.v. það sem við blasir nú að sú verði enn raunin á því ári sem nú er að líða.  Hér skiptir nákvæmlega engu hversu rósrauðum bjarma núverandi valdhafar þessa lands vilja varpa á ástandið!

Til baka