Fréttir

Komið nóg!

30 jún. 2011

Á fundi samninganefnda LL og ríkisvaldsins í dag (30. júní) ákvað samninganefnd LL að skjóta kjaradeilu LL við ríkisvaldið til úrskurðar gerðardóms.

Ágætlega hefur gengið, undanfarna daga, að ganga frá ýmsum atriðum í texta væntanlegrar breytingar og framlengingar á kjarasamningi LL við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs en nokkuð verr er kemur að launaþættinum.

Þegar horft er til þeirrar staðreyndar að ómenntaður afleysingamaður í tollgæslu hefur í dag um 10.000,- kr. meira í grunnlaun á mánuði en fullmenntaður lögreglumaður sem er að hefja störf í lögreglu og „erfitt um vik vegna efnahagsástandsins“, „lítill skilningur“ eða „vilji“ (eða hvaðeina sem menn vilja tína til), til að tekið sé á svo augljósum „galla“ í launakjörum lögreglumanna var ljóst að samninganefnd LL gæti engan vegin forsvarað það, gagnvart sínum félagsmönnum, að skrifa undir kjarasamning til þriggja ára sem hefði slíkt misræmi í för með sér!

Ofangreind staðreynd hefur verið ríkisvaldinu ljós frá því í ágúst 2010 í kjölfar úrskurðar gerðardóms í kjaradeilu Tollvarðafélags Íslands við ríkisvaldið en sá úrskurður (þar sem tollverðir fengu launatöflu LL) var kveðinn upp eftir að gerðardómur hafði kveðið upp úrskurð sinn í kjaradeilu LL við ríkisvaldið í júní 2010.

Það var vissulega erfið ákvörðun að taka, að vísa deilunni til gerðardóms til úrskurðar, en í ljósi þeirrar staðreyndar sem að ofan greinir og þess að afar lítið eða ekkert útlit var fyrir að leiðrétting á þeim augljósa launamun, sem að ofan greinir, fengist næstu þrjú árin var það samdóma álit samninganefndar LL, m.a. eftir samráð við lögmann LL, að nauðugur væri sá kostur einn í stöðunni að vísa kjaradeilunni, í heild sinni, til úrskurðar gerðardóms.  Þetta er gert í samræmi við ákvæði fylgiskjals (á bls. 44) með kjarasamningi LL.  Fylgiskjalið er, eins og velflestum lögreglumönnum ætti að vera ljóst, tilkomið í kjölfar „viðmiðunarsamkomulagsins“ svokallaða sem kom inn í kjarasamning LL árið 1986 í kjölfar afnáms verkfallsréttar lögreglumanna og á að tryggja lögreglumönnum – án verkfallsréttar – nauðsynleg úrræði til að knýja á um réttmætar kjarabætur.

Til baka