Fréttir

Virðingarleysi?

19 júl. 2011

Mótmælaganga lögreglumanna 2001

Þegar þessi pistill er skrifaður, þriðjudaginn 19. júlí 2011, hafa lögreglumenn verið með lausa kjarasamninga í samtals 230 daga.

Þetta er alls ekki ný staða í kjaraviðræðum LL við ríkisvaldið en skemmst er að minnast þess þegar lögreglumenn fjölmenntu við Alþingi til að færa fjármálaráðherra forláta köku á eins árs kjarasamningsleysi þeirra við ríkisvaldið þann 31. maí í fyrra en frétt um þann atburð má m.a. lesa á dv.is, mbl.isruv.is og stöð2.  Fréttir af mótmælunum, framan við Alþingishúsið voru reyndar fluttar í mun fleiri fjölmiðlum en hér hafa verið dregnir fram.  Þannig var einnig um fréttirnar af mótmælastöðu lögreglumanna utan við húsnæði ríkissáttasemjara þann 9. mars 2010, s.s. sjá má á visir.is.

Lögreglumenn hafa mótmælt kjaralegri stöðu sinni oft áður en, því miður, við lítinn hljómgrunn stjórnvalda hverju sinni.  Hér má t.d. nefna það þegar lögreglumenn gengu fylktu liði niður Laugaveg í Reykjavík þann 5. október árið 1984, á öðrum degi verkfalls opinberra starfsmanna á Íslandi.  Lesa má smá frétt um þetta í Morgunblaðinu þann 24. október árið 1984 á timarit.is.  Í kjölfar þessa verkfalls árið 1984, var verkfallsréttur lögreglumanna afnuminn, með lögum frá Alþingi árið 1986.

Þann 30. apríl árið 2001 gengu um þrjú hundruð (300) lögreglumenn fylktu liði niður Laugaveginn og að Alþingishúsinu, til að mótmæla seinagangi í kjaraviðræðum sínum við ríkisvaldið en kjarasamningar lögreglumanna höfðu þá verið lausir í um átta mánuði!  Frétt um þessa göngu lögreglumanna, sem birtist í Morgunblaðinu þann 1. maí 2001 má lesa á timarit.is.

Sá er þetta skrifar veltir því fyrir sér hvað það geti verið sem dvelji orminn langa í því að gengið verði frá kjarasamningum við lögreglumenn.  Gæti það verið sú ofureinfalda staðreynd að lögreglumenn búa ekki við þau sjálfsögðu mannréttindi, sem aðrir launþegar þessa lands njóta – þ.e. að hafa verkfallsrétt?  Gæti það verið að ríkisvaldinu finnist einfaldlega ekkert liggja á því að ganga frá kjarasamningum við lögreglumenn þar sem þeir hafa jú engin vopn í höndunum til að knýja á um mannsæmandi laun?

Það vita það allir Íslendingar að ástandið í ríkisfjármálunum er ekki upp á það besta um þessar mundir.  Um það hafa ótal mótmæli almennings, m.a. utan við Alþingi Íslendinga, vitnað.  Þetta vita lögreglumenn manna bestir því það voru jú þeir sem tóku við fúkyrðaflaumi, eggja-, grjót-, saur- og þvagkasti því sem beint var til ráðamanna þjóðarinnar, bæði nú- og fyrrverandi.  Þessar staðreyndir, sem öllum eru ljósar, réttlæta hinsvegar ekki það tómlæti sem lögreglumönnum hefur ítrekað og um áratugaskeið verið sýnt í kjaraviðræðum sínum við ríkisvaldið.

Krafa okkar er ekki flókin.  Við viljum mannsæmandi laun fyrir þá vinnu sem við innum af hendi.

Til baka