Fréttir

Lögreglumenn í skugga leikskólakennara – Morgunblaðið 22. ágúst 2011

25 ágú. 2011

Greinin hér að neðan, eftir Guðmund Fylkisson, birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 22. ágúst 2011 (bls. 17).

 

Mikil umræða er nú í þjóðfélaginu vegna kjaradeilu leikskólakennara við viðsemjendur þeirra. Leikskólakennarar hafa boðað verkfall og er ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif. Leikskólakennarar hafa verkfallsrétt en það hafa lögreglumenn ekki.

Lögreglumenn voru með verkfallsrétt til ársins 1986 en þá voru sett lög sem bönnuðu lögreglumönnum að fara í verkfall. Í staðinn fengu lögreglumenn svokallaðan viðmiðunarsamning sem átti að tryggja það að þeir myndu fylgja ákveðnum stéttum í launum. Þetta reyndist flókið og breytingar í þjóðfélaginu urðu til þess að ríkið kveinkaði sér undan þessum samningi. Árið 2003 var síðan samið um að þessi viðmiðunarsamingur yrði ekki lengur til staðar og fengu lögreglumenn ágætis ,,bætur“ í staðinn. Eins og svo oft áður þá ,,fjarar“ slíkur ágætissamningur hratt út og þær bætur sem stéttin fékk urðu fljótlega að engu. Eftir stóð bókun með kjarasamningum um að hvor aðili fyrir sig gæti óskað eftir úttekt á kjaralegri stöðu, í upphafi kjaraviðræðna. Þegar þessi grein er skrifuð eru liðnir 260 dagar síðan kjarasamningurinn rann út, það er lengra síðan samninganefnd lögreglumanna bað um að þessi kjaralega úttekt færi fram. Ekkert gerðist í nokkra mánuði, enda ekki við því að búast því lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt eða önnur þvingunarúrræði eins og flestar aðrar vinnandi stéttir. Sagan hefur í langan tíma verið sú að við lögreglumenn er ekki rætt fyrr en búið er að semja við flesta aðra, í það minnsta stóru stéttarfélögin. Þegar loksins var farið að ræða við lögreglumenn þá kom í ljós að samninganefnd ríkisins taldi að ekki ætti að skoða kjaralega stöðu lögreglumanna miðað við ártalið 2003, eins og samninganefnd lögreglumanna vildi. Eftir nokkra samningafundi þar sem lítið gekk og fátt annað var í boði en aðrar stéttir höfuð verið að semja um, ákvað samninganefnd LL að leggja málið í gerðadóm, við litla hrifningu samninganefndar ríkisins. Slíkur gerðadómur er skipaður þremur aðilum, einum frá hvorum samningsaðila og einum skipuðum af ríkissáttasemjara og á að skila af sér innan 30 daga frá því hann er skipaður. Samninganefnd LL tilnefndi strax sinn aðila í gerðadóminn en núna, rúmum einum og hálfum mánuði síðar hefur samninganefnd ríkisins ekki tilnefnt sinn fulltrúa. Til að gæta sanngirnis þá mátti kannski búast við einhverri töf vegna sumarleyfa en þetta er orðin vanvirðing við stétt lögreglumanna og eru lögreglumenn margir hverjir orðnir pirraðir.   Þessir pirruðu lögreglumenn eiga margir hverjir börn á leikskólaaldri og yfirvofandi er verkfall leikskólakennara og mun það raska daglegu lífi þeirra ef af verður. Lögreglumenn hafa horft upp á hamaganginn sem verður þegar ýmsar stéttir hóta eða boða til verkfalls og þá fer allt á flug í viðræðum. Lögreglumenn höfðu verkfallsrétt, hann var tekinn af þeim með lögum. Í staðinn fengu þeir viðmiðunarsamning því það var ljóst að þeir yrðu að hafa einhver úrræði, það var samkomulag milli samninganefndar ríkisins og landssambands lögreglumanna og það varð einnig að samkomulagi milli þessara samninganefnda þegar viðmiðunarsamningurinn var erfiður úrlausnar að sett yrði inn þessi bókun og heimild beggja til að krefjast úttektar á kjaralegri stöðu. Það er síðan skoðun samninganefndar ríkisins að þetta eigi ekki við nema að hluta. Þetta minnir um margt á umræðuna sem nú fer fram um hvernig sveitarfélögin geti smokrað sér framhjá verkfallsaðgerðum leikskólakennara.     Í kjaraviðræðum er það svo að launþeginn bendir á að hann hafi svo og svo mikið í grunnlaun, eða réttara er kannski að segja svo og svo lítið. Launagreiðandinn kemur þá á móti með upplýsingar um að launþeginn hafi svo og svo mikið í heildarlaun. Vissulega er það svo að grunnlaun lögreglumanna segja ekki allt en það á ekki við um alla lögreglumenn. Þeir sem vinna vaktavinnu ná margir hverjir að tvöfalda grunnlaunin en það er líka vegna álagsgreiðslna fyrir kvöld, nætur og helgidagavaktir og fyrir aukavinnu sem þeir hafa enga stjórn á. Lögreglumenn hafa nefnilega nánast ótakmarkaða aukavinnuskyldu. Þessir sömu lögreglumenn, sem hafa ágætis heildarlaun í dag, geta aftur á móti staðið frammi fyrir því að gerð er breyting á þeirra vinnu þannig að þeir standi eftir nánast á strípuðum grunnlaunum. Aðeins þarf 30 daga fyrirvara á slíkri breytingu. Þessir sömu aðilar hafa kannski verið hjá fjármálastofnun nokkru áður, með sína launaseðla, til að gera áætlanir um einhverja fjárfestingu. Slík áætlun verður að engu. Fyrir rúmu ári var gerð breyting hjá 10 manna deild þar sem þetta var raunin.

            Ég er ekki gott dæmi um lögreglumann sem er illa launaður, ef litið er á heildarlaun. Ég er með 303.000 kr. í grunnlaun, með 26 ára starfsaldur og í millistjórnandastöðu. Óbreyttur menntaður lögreglumaður með 5 ára starfsaldur er með rétt um 230.000 kr. í grunnlaun, sem er lægra en afleysingamaður hjá Tollgæslunni.

            Við erum ekkert að biðja um meira en aðrir, við viljum bara halda okkar stöðu, miðað við aðra.

 

Guðmundur Fylkisson.

Til baka