Fréttir

Örlítið um verkfallsréttinn og vanvirðingu ríkisvaldsins!

27 ágú. 2011

Lögreglumönnum hefur, í gegnum tíðina, verið nokkuð tíðrætt um verkfallsrétt sinn en eins og kunnugt er hafa lögreglumenn, ólíkt flestum öðrum launþegum þessa lands ekki verkfallsrétt.  Verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum nr. 82/1986.

Þann 5. júlí árið 1986 undirritaði samninganefnd LL nýjan kjarasamning við fjármálaráðherra.  Samið var um nokkra leiðréttingu á launum lögreglumanna og í sérstakri bókun var um það samið að verkfallsréttur lögreglumanna yrði afnuminn en staða lögreglumanna fest með kauptryggingu (viðmiðunarsamningi) sem miðuð væri við kjör fjögurra tilgreindra starfshópa og var Hagstofunni var falið að reikna út þann samanburð á sex mánaða fresti.

Ný samningsréttarlög opinberra starfsmanna voru í deiglunni á þessum tíma en fram að þessum tíma hafði verkfallsréttur opinberra starfsmanna verið í höndum heildarsamtaka opinberra starfsmanna, BSRB.  Þarna lá fyrir að verkfallsrétturinn færðist úr höndum BSRB til hinna einstöku aðildarfélaga.  Einsýnt var að þau félög, sem höfðu óskoraðan verkfallsrétt, myndu styrkjast sem einingar.

Heilsugæslu- og öryggisstéttir höfðu, fram að þessum tímapunkti, búið við mjög takmarkaðan verkfallsrétt og ekki voru talin líkindi til að réttur þeirra yrði rýmkaður í væntanlegum samningsréttarlögum.  Flest benti þá til þess að verkfallsréttur lögreglumanna yrði afnuminn með öllu.  Verkfallsréttur lögreglumanna var á þann veg að heildarsamtökunum (BSRB) gæti reynst hann notadrjúgur ef til átaka kæmi.  Hins vegar var varla talið að óbreyttur réttur yrði öflugt baráttutæki þegar lögreglumenn væru orðnir einir á báti og því skynsamlegt að reyna að finna aðra leið sem tryggði stéttinni eðlileg kjör.  Kom þá til álita að skipta á verkfallsrétti og áðurnefndri kauptryggingu (viðmiðunarsamningi).  Hlaut sú hugmynd talsvert fylgi meðal lögreglumanna enda margir á þeirri skoðun að skyldur þeirra við ríkisstjórnina, og þá ekki síður við borgarana, væru svo miklar að ,,alvöruverkfall„ væri nánast óhugsandi.
Niðurstaðan varð því sú að skipt var á verkfallsrétti og kauptryggingu (viðmiðunarsamningi).  Samningurinn var staðfestur með naumum meiri hluta í allsherjaratkvæðagreiðslu innan stéttarinnar.

Þessi niðurstaða lögreglumanna, að afsala sér verkfallsrétti sínum, hlaut mikla gagnrýni á sínum tíma m.a. frá hagfræðingi BSRB.

Þann 27. febrúar 1987 var gengið frá viðbótarsamkomulagi um samningsréttarmálin milli fjármálaráðuneytisins og LL.  Í því samkomulagi fólust aðallega skýrari vinnureglur varðandi framkvæmd samningsins frá því í júlí 1986.  Lögreglumenn kröfðust þess þá að réttum aðila, þ.e. Hagstofunni, yrði tafarlaust falið að reikna út upphæð kauptryggingarinnar (viðmiðunarsamningsins).  Slíkur útreikningur hafði ekki verið gerður þrátt fyrir skýr ákvæði þar um í bókun frá í júlí 1986.  Báru ráðuneytismenn (fjármálaráðuneytisins) ýmsum vandkvæðum við og var nú undirritað í annað sinn að útreikningur um upphæð kauptryggingar (viðmiðunarsamningsins) skyldi falinn Hagstofu Íslands tvisvar á ári.  Lögreglumenn skyldu 1. janúar og 1. júlí ár hvert fá launahækkun samkvæmt meðalhækkun viðmiðunarhópanna.

Opinberir starfsmenn gerðu nýja kjarasamninga á vordögum 1987.  Samningur við LL var undirritaður 22. maí 1987.  Í þeim samningaviðræðum kvörtuðu lögreglumenn undan vanefndum á ýmsum atriðum fyrri samnings.  Bar þar einna hæst að útreikningur kauptryggingar hefði ekki enn farið fram.  Fjármálaráðuneytið lagði þá fram ,,upplýsingar„ um kauptryggingu.  Þar kom fram að lögreglumenn ættu inni 1,25% kauphækkun.  Lögreglumenn kröfðust þess að Hagstofa Íslands annaðist útreikningana eins og um hefði verið samið.  Var enn gert samkomulag um framkvæmd samningsins og undirritað í þriðja sinn að Hagstofa Íslands skyldi annast útreikninga.

Næsta hálfa árið gekk hvorki né rak í framkvæmd samningsins þrátt fyrir bréfaskriftir og fundahöld.  Var þá lögmanni LL falið að leita til dómstóla.  Í nóvember 1987 kærði hann vanefndir kauptryggingarákvæðins til Félagsdóms og var málið þingfest 15. desember 1987.  Ríkislögmaður óskaði eftir dómsátt og féllst lögmaður LL á það.  Sáttin var frágengin 17. desember 1987 og ríkið fékk frest til gagnaöflunar til 20. janúar 1988.  Með bréfi til Hagstofunnar, dags. 19. janúar 1988, fór fjármálaráðuneytið loks fram á að umræddir útreikningar færu fram.  Engin gögn voru send með því bréfi.

Dómsmálaráðherra hlutaðist til um málið með bréfi til Hagstofunnar þann 14. febrúar 1988.  Hagstofan bað fjármálaráðuneytið þá um gögn og upplýsingar málinu viðkomandi með bréfi, dags. 12. febrúar 1988.  Hinn 25. febrúar 1988 lágu útreikningar kauptryggingar fyrir í fyrsta sinn, tæpum tveimur árum eftir undirskrift samnings.  Jafnframt lýsti Hagstofan því yfir að samningar um að hún annaðist slíka útreikninga hefðu farið fram án samráðs við hana og ekki væri æskilegt að henni væri falið slíkt hlutverk.

Í samningum LL við fjármálaráðherra frá 1986 voru skýr ákvæði um ótvíræða möguleika til endurskoðunar LL á kauptryggingarútreikningum.  Tæpum tveimur árum eftir undirritun samnings höfðu LL ekki borist nein gögn til endurskoðunar.

Landssamband lögreglumanna taldi, á þessum tíma, að öll samningsréttarákvæði í kjarasamningunum frá 1986 væru brostin og óskaði LL eftir að samningum yrði rift, ákvæðin um kauptryggingu verði úr gildi felld og að lögreglumenn fengju aftur verkfallsrétt sinn.  Þessum kröfum, sem og mörgum öðrum, var í engu sinnt af háfu ríkisvaldsins.

Er allt ofangreint átti sér stað voru: forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson (B), dómsmálaráðherra Jón Helgason (B) og fjármálaráðherra Þorsteinn Pálsson (D).

Til baka