Fréttir

Tóm tunna – Morgunblaðið 26. ágúst 2011

27 ágú. 2011

Höfundur þessarar greinar sem birtist á bls. 24 í Morgunblaðinu föstudaginn 26. ágúst s.l. er Snorri Magnússon, formaður LL.

 

Ég var að hugsa um að skrifa opið bréf til forsætisráðherra, sem hefur í áraraðir látið sig málefni lögreglunnar varða og sýnt starfi lögreglumanna mikinn áhuga.  Hún hefur verið óþrjótandi í gegnum tíðina við að benda á ýmislegt sem betur mætti fara við að tryggja öryggi landsmanna eins og  lögreglu ber skv. lögreglulögum, margítrekað bent á hversu illa búið hefur að lögreglunni í landinu, vakið athygli á miklum skorti á lögreglumönnum og gríðarlegu álagi á þá sem verið hafa við störf hverju sinni, svo eitthvað sé nefnt.  Svo vaknaði ég upp við vondan draum!  Hún hefur ekki svarað opna bréfinu sem ég skrifaði henni þann 21. apríl 2009!  Síðan þá hefur lögreglumönnum fækkað um a.m.k. 50 á landsvísu og er það reyndar varlega áætlað.  Síðan þá hefur orðið gríðarlegur niðurskurður á fjárframlögum til lögreglu og stefnir í meiri niðurskurð á komandi ári.  Síðan þá hefur álag á þá lögreglumenn, sem enn eru að störfum, aukist til mikilla muna.

 

Þegar þetta er skrifað hafa kjarasamningar lögreglumanna verið lausir í rúma 260 daga!  Skemmst er að minnast þess er lögreglumenn fjölmenntu, þann 1. júní 2010, utan við Aþingi Íslendinga til að færa fjármálaráðherra afmælistertu í tilefni af því að honum hafði tekist að semja ekki við lögreglumenn um laun þeirra í heilt ár eða 365 daga!  Nú velti ég því fyrir mér hvort fjármálaráðherra sé farið að langa í aðra köku og býð honum því að hafa samband við mig símleiðis – hann veit númerið – og mun ég þá færa honum samskonar köku um hæl – jafnvel stærri og betri – ef það yrði til þess að liðka fyrir því að lögreglumönnum verði greidd mannsæmandi laun.  

 

Fundir hafa að sjálfsögðu verið haldnir í kjaradeilu LL við ríkisvaldið en þeir drógust náttúrulega á langinn vegna þeirra erfiðleika sem uppi voru í samningagerð ASÍ og SA þar sem ríkisvaldið vill ekki vera launaleiðandi á markaði eins og það heitir.  Gott og vel.  En svo fór að bera á töfum vegna þess að það þurfti að semja við STÓRA hópa ríkisstarfsmanna áður en rætt yrði við lögreglumenn.  Gott og vel – aftur.  Svo fór að bera á því að einstaka stéttir, sem hafa yfir að ráða verkfallsvopni fóru að láta vel í sér heyra og verkfallsvopnið var brýnt og brýnt.  Gott og vel – látum löggurnar bíða aftur þær geta hvort eð er ekkert gert greyin því þær hafa ekki verkfallsrétt.  Svo loksins fór eitthvað að gerast og fundir voru haldnir en, eins og við var að búast var ekkert í boði annað en það sem ASÍ og SA höfðu kokkað saman í sínum eldhúsum.  Ekki stóð til að leiðrétta augljósa mismunun sem t.d. fólst í því að fullmenntaður lögreglumaður, sem er að hefja störf í lögreglu er með um 10.000,- kr. lægri mánaðarlaun en afleysingamaður í einni af „viðmiðunarstéttum“ lögreglumanna.  Sem sagt menntun lögreglumanna er einskis metin.  Við slíkt er augljóslega ekki hægt að una.  Það er augljóslega ekki hægt að sætta sig við þá staðreynd að menntunarlaus til starfa hjá „viðmiðunarstéttinni“ skuli vera hægt að fá hærri grunnlaun en fullmenntaður til starfa í lögreglu.  Kannski finnst fjármálaráðherra það bara í fínu lagi – eða hvað?  Ef svo aftur eru borin saman störf afleysingamanna í lögreglu annarsvegar og hjá „viðmiðunarstéttinni“ hinsvegar verður munurinn enn meiri þar sem afleysingamaður í lögreglu fær um 50.000,- kr. lægri mánaðarlaun en afleysingamaðurinn í „viðmiðunarstéttinni“.  Við svo búið var einfaldlega ekki annað hægt en að vísa kjaradeilu lögreglumanna til gerðardóms til úrskurðar líkt og gert var á vormánuðum 2010. 

 

Það vekur sérstaka athygli, í því umróti sem er á vinnumarkaði um þessar mundir, að þær stéttir launþega sem enn hafa yfir að ráða verkfallsrétti njóta ákveðins forgangs við gerð kjarasamninga, eins og sést hefur í umræðu fjölmiðla liðinna daga, vikna og mánaða.  Lögreglumönnum, verkfallsréttarlausum ýtt út á hliðarlínuna á meðan.

 

Hvað vilja lögreglumenn?  Lögreglumenn biðja ekki um neitt annað en að störfum þeirra sé sýnd sú virðing sem þeim sæmir.  Lögreglumenn biðja ekki um neitt annað en mannsæmandi laun fyrir þá vinnu sem þeir inna af hendi.  Lögreglumenn biðja ekki um neitt annað en mannsæmandi kjör fyrir störf sín.  Ekki svo ýkja flóknar kröfur og að mati lögreglumanna, sem alla jafna eru afar seinþreyttir til vandræða – en eru orðnir ansi þungir á brún um þessar mundir, svo vægt sé til orða tekið – alls ekki óyfirstíganlegar fyrir ríkisvaldið, ef það á annað borð ætlar að tryggja öryggi landsmanna með sómasamlegum hætti.

 

En hver skyldu kjörin vera í dag?  Tökum eitt dæmi!  Varðstjóri í lögreglu, sem unnið hefur rúm 40 ár á sólarhringsvöktum hefur í grunnlaun 292.317,- kr!  Þessi sami einstaklingur hefur enga möguleika til að hækka í launum, umfram það sem hér er uppgefið, öðruvísi en að sækja um hærri stöðu en hann gegnir í dag!

 

Ræður á Alþingi, skrif sömu ræðumanna í blöð og gagnrýni þeirra, í áraráðir, á að hlutirnir séu ekki í lagi og loforð um að gera betur „þegar og ef“ eru augljóslega ekkert annað en tóm tunna, full af innihaldslausum loforðum!

Til baka