Fréttir

Ró – Morgunblaðið 9. september 2011, bls. 22

12 sep. 2011

Höfundur þessarar greinar, sem birtist á bls. 22 í Morgunblaðinu föstudaginn 9. september s.l. er Snorri Magnússon, formaður LL.

 

Eitt af meginmarkmiðum skipulagsbreytinga hjá lögreglu liðinna ára hefur verið að efla sýnileika lögreglu. Markmiðið hefur, væntanlega, verið að Íslendingar ættu að sjá lögreglu meira og oftar en áður en skipulagsbreytingarnar áttu sér stað. Forvarnir. Lögreglan ætti, væntanlega, að vera oftar, meira og víðar á ferðinni eftir að ráðist var í skipulagsbreytingarnar. Göfug markmið og svo sannarlega vel til þess fallin að afla „skipulagsbreytingunum“ og „hagræðingunni“ sem af þeim átti að leiða, fylgis. Hver dóms- og innanríkismálaráðherrasnillingurinn á fætur öðrum, með hvern ráðuneytissérfræðingssnillinginn á fætur öðrum, hefur keppst við að leggja fram hvert frumvarpið á fætur öðru um breytingar á lögreglulögum sem allar hafa miðað að því að efla, bæta, styrkja, hagræða og ég veit ekki hvað, í rekstri lögreglu! Öll þessi frumvörp, studd óteljandi greinargerðum, skýrslum, sérfræðiálitum o.fl. hefur skort grundvallarskilgreiningar á eðli og inngangi lögreglustarfsins. Þannig hefur ríkisvaldið, sem stærir sig af því að vinna rammaáætlanir, samgönguáætlanir, fjarskiptaáætlanir, menntaáætlanir, velferðaráætlanir, heilsueflingaráætlanir, vímuvarnaáætlanir (fíkniefnalaust Ísland árið 2000!!) og áætlanir á áætlanir ofan, hreinlega steingleymt því að skilgreina eins sjálfsögð og greinileg markmið og „öryggisstefnu“ fyrir Ísland og ofan á það „þjónustustig“ lögreglu. Á þessum tveimur meginskilgreiningum grundvallast mannaflaþörf lögreglu annars vegar og fjárveitingar til lögreglu hins vegar og þar með er fyrst hægt að gera sér grein fyrir því hvað það kostar að halda úti löggæslu á Íslandi.

 

Frá árinu 2007 þegar einar veigamestu breytingar urðu á lögreglu á Íslandi fyrr og síðar, hefur lögreglumönnum fækkað um a.m.k. sextíu (60). Þessi fækkun lögreglumanna á Íslandi er um 8%! Það sér hver heilvita maður, sem það vill sjá á annað borð, að slík fækkun lögreglumanna getur ekki stuðlað að auknum sýnileika, eflingu eða styrkingu löggæslu.

 

Löggæsla snýst um fólk. Löggæsla snýst um mannleg samskipti. Löggæsla snýst um það, fyrst og fremst, að stemma stigu við og koma í veg fyrir afbrot hvers konar. Forvarnir. Löggæslu er ekki hægt meta út frá krónum og aurum. Löggæsla skilar ekki virðisauka. Löggæsla skilar ekki beinhörðum, fjárhagslega mælanlegum, arði í þjóðarbúið. Löggæslu er ekki hægt að reka út frá viðskiptafræðilegum forsendum. Hlutverk ríkisvaldsins er að halda úti löggæslu þannig að þegnar þjóðfélagsins geti verið óhultir með sjálfa sig og eigur sínar. Flóknari er löggæsla í raun ekki í eðli sínu!

 

Forstöðumönnum stofnana ríkisins er vorkunn að þurfa að glíma við það vandamál sem hrunið hefur skapað. Þeim er gert að halda úti sömu þjónustu við samborgara sína fyrir mun minni fjármuni en voru til skiptanna fyrir hrun. Það eru hinsvegar ákveðnir þættir í þjónustu hins opinbera, sem einfaldlega geta og mega ekki taka mið af efnahagslegum forsendum ríkisfjárhirslunnar. Tveir þessara þátta, að öllum öðrum ólöstuðum, eru heilsugæsla og löggæsla. Fólk heldur áfram að verða veikt og þurfa á aðstoð lækna að halda og fólk heldur áfram að þurfa á öryggi að halda – algerlega óháð efnahagsstöðu ríkissjóðs hverju sinni! Ef skorið er niður í þessum tveimur málaflokkum – enn og aftur að öllum öðrum málaflokkum ólöstuðum – blasa við gríðarleg vandamál sem munu kosta þjóðarbúið ómældar fjárhæðir, til framtíðar litið! Það eru skammtímalausnir, sem engu skila nema vandamálum, að skera niður í heilsugæslu- og öryggismálum!

 

Til að ná fram hagræðingu í rekstri lögreglu er ljóst að fyrir þurfa að liggja ákveðnar grunnskilgreiningar. Þessar grunnskilgreiningar varða öryggisstig það sem ríkisvaldið ákveður að viðhafa hverju sinni. Þessar grunnskilgreiningar varða það þjónustustig sem ríkisvaldið vill að lögregla viðhaldi hverju sinni. Þegar þessar tvær megingrunnskilgreiningar liggja fyrir getur ríkisvaldið loks – og ekki fyrr – ákveðið hversu miklum mannafla lögregla þarf á að halda hverju sinni til að viðhalda skilgreindum öryggis- og þjónustustigum. Þá loks er hægt að átta sig á því hvað löggæsla á Íslandi kostar og alls ekki fyrr! Ríkisvaldið getur einfaldlega ekki látið efnahagsstöðu sína hverju sinni ákvarða það hvaða öryggi Íslendingar búa við hverju sinni.

 

Á Norðurlöndum, að Íslandi undanskildu, heldur ríkisvaldið úti herafla. Herir Norðurlanda eru „varaskeifa“ ríkisvaldsins komi til þess að lögregla viðkomandi landa ráði ekki við það ástand sem kann að skapast hverju sinni. Þeir eru einnig hluti af sjálfstæði viðkomandi þjóða og styrking við utanríkispólitík þeirra. Á Íslandi er lögreglan ein um það að halda uppi öryggi þegna landsins. Engin „varaskeifa“ er til staðar til að taka við ef starfsemi lögreglu lamast einhverra hluta vegna. Meðal annars þess vegna er sú staða uppi, hér á landi, að lögregla hefur ekki verkfallsrétt! Einmitt þess vegna ætti stjórnvöldum hverju sinni að vera það kappsmál að halda kjörum lögreglumanna þannig að ró sé innan raða lögreglumanna!

Til baka