Fréttir

Verkfallsréttur telst til mannréttinda, hjá sumum. Morgunblaðið 10. september 2011, bls. 33

12 sep. 2011

Höfundur þessarar greinar, sem birtist á bls. 33 í Morgunblaðinu þann 10. september s.l. er Guðmundur Fylkisson, stjórnarmaður í LL.

 

Hjá flestum vinnandi stéttum telst það til sjálfsagðra mannréttinda að hafa verkfallsrétt. Verkfallsrétturinn er þvingunarúrræði hins vinnandi manns til að knýja á um mannsæmandi laun fyrir sína vinnu. Sumum tekst betur upp en öðrum því hinn vinnandi maður er misjafnlega áríðandi. Það er t.d. þannig með flugumferðarstjóra, sem hafa verkfallsrétt, að þeim virðist hafa tekist ágætlega upp með að tryggja sinni stétt mannsæmandi laun. Það er nefnilega svo að ef þeir fara í verkfall þá hefur það gríðarleg áhrif á svo margt hér á landi. Svo eru það tollverðir, sem hafa ekki verkfallsrétt. En ef þeir hefðu hann þá hefði það svipuð áhrif og hjá flugumferðarstjórum. Munurinn á launum þeirra er hins vegar umtalsverður og við tollverði er ekki rætt fyrr en seint og um síðir, annað en með flugumferðarstjórana.

 

Þá eru það flugmenn. Þeir eru með verkfallsrétt og ef þeir færu í verkfall þá hefði það svipuð áhrif og með flugumferðarstjórana. Þeir eru með ágætis laun og við þá er rætt um kjarasamninga, fljótt og örugglega. Svo eru það stýrimenn hjá Landhelgisgæslunni. Þeir eru hluti af löggæslunni og viðbragðsaðilum þegar eitthvað bjátar á, hafa ekki verkfallsrétt og þeir hafa verið með lausan kjarasamning í rúm 2 ár. Stýrimenn hjá Landhelgisgæslunni eru stétt manna sem eru mjög mikilvægir. Þeir tilheyra áhöfnum skipa og flugflota gæslunnar, það er lífsspursmál að þeir séu til staðar og eiga þeir rétt á því að komið sé fram við þá af sanngirni og virðingu.

 

Það er því nokkuð ljóst að verkfallsrétturinn er öflugt tæki fyrir þá sem hafa hann. Verkfallsrétturinn virðist tryggja stéttum ákveðinn forgang að samningaborði og oftar en ekki betri kjör. Ég er lögreglumaður og við höfum ekki verkfallsrétt, við höfum verið með lausan kjarasamning á níunda mánuð og eigum nú mál fyrir gerðardómi eftir að hafa staðið í árangurslausum viðræðum við samninganefnd ríkisins. Síðast þegar við vorum með lausan samning þá færðum við fjármálaráðherra »afmælistertu« þegar árið var liðið, án þess að við næðum samningum.

 

Skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur skulu samningsaðilar gera viðræðuáætlun í síðasta lagi 10 vikum áður en gildandi kjarasamingur er laus. Slík viðræðuáætlun er lögbundin en er ekki fyrirhafnarinnar virði, fyrir stéttir sem ekki hafa verkfallsrétt. Slík áætlun er samkomulag milli aðila um hvernig skuli staðið að samningaviðræðum. Það er yfirleitt það fyrsta sem ekki er staðið við, þá oftast af hendi samninganefndar launagreiðandans, eins og í okkar tilfelli, samninganefndar ríkisins. Það eru engin viðurlög við því að standa ekki við slíka samninga og í raun er það stór sparnaður fyrir ríkið að ekkert gerist, eins lengi og hægt er. Og ekki er pressan fyrir hendi, engin þvingunarúrræði, ekki verkfallsréttur. Þegar loksins er samið þá er ekki nein afturvirkni, ríkið hefur nefnilega ákveðið að samningar gildi aðeins frá síðustu mánaðamótum frá undirritun kjarasamninga.

Nokkrar stéttir búa við það að í heild sinni mega þeirra félagsmenn ekki fara í verkfall. Síðan eru til aðilar, bæði hjá ríki og bæ, innan stéttarfélaga með verkfallsrétt, sem lenda á lista yfir starfsmenn sem ekki mega fara í verkfall. Sá listi er um margt forvitnilegur og var síðast gefin út af fjármálaráðuneytinu 15. janúar 2010.

 

Varðandi þær stéttir sem í heild sinni mega ekki fara í verkfall þá veltir maður því fyrir sér hvort það sé ósanngjörn krafa að það sé hreinlega bundið í lög að þeirra kjarasamningar verði afturvirkir, að þeim tíma þegar eldri samningur rann út. Að þær fái einhvers konar áfangahækkanir frá þeim tíma þegar farið er að semja við þær stéttir sem beita verkfallsboðun. Það verði því ekki hluti af sparnaðaraðgerðum ríkisins að ræða ekki við þær stéttir fyrr en seint og um síðir.

 

Rétt er að vekja athygli á skrifum Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, á vef LL, www.logreglumenn.is, þar sem hann skrifar um verkfallsréttinn og vanvirðingu ríkisvaldsins.

Til baka