Fréttir

Vilja norskir lögreglumenn vopnast?

16 sep. 2011

Í kjölfar hryðjuverkanna í Noregi hefur skotið upp kollinum, á ný, alvarleg umræða meðal norskra lögreglumanna um það að lögreglan í Noregi verði útbúin skotvopnum daglega.  Fyrir þá sem ekki þekkja til er staðreyndin sú að Ísland og Noregur eru ein Norðurlandanna þar sem lögreglumenn sinna vinnu sinni dags daglega án skopvopna.  Norskir lögreglumenn eru þó alla jafna með skotvopn í þeim bifreiðum sem þeir aka um á.  Í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku eru allir lögreglumenn útbúnir skotvopnum alla daga.  Fyrir þá sem ekki þekkja til hafa lögreglumenn á öllum Norðurlöndunum, að Íslandi einu undanskyldu, látið lífið vegna árása vopnaðra glæpamanna!

 

Í frétt á mbl.is í dag er fjallað um þessa staðreynd.  Mbl.is er hér, væntanlega, að vitna til norskra fjölmiðla.  Frétt þessa efnis birtist á heimasíðu NRK í dag 16. september en þar er m.a. viðtal við Sigve Bolstad, formann svæðisdeildar Landssambands norskra lögreglumanna (Politiets Fællesforbund) í Osló.  Í fréttinni hjá NRK er einnig rætt við Jan Olav Frantsvold, lögmann hjá lögreglunni sem er ekki sama sinnis og Sigve Bolstad.  Það skal segjast, alveg hreint eins og það er, að það er afar auðvelt að sitja inni á skrifstofu alla daga og fjalla um verkefni lögreglu, sem lögmaður, og hafa á því sterkar skoðanir að lögreglumenn skuli ekki bera skotvopn, ef viðkomandi þarf ekki sjálfur að standa í framlínunni!

Í grein á heimasíðu Politiets Fællesforbund (PF) er fjallað um þetta mál þar sem segir m.a. að Sigve Bolstad hafi, á landsþingi PF árið 2010, verið valinn til að stýra nefnd sem fjalla á um þetta mál og skila skýrslu til landsþingsins sem haldið verður í nóvember á þessu ári.  Umræða um þetta málefni og fréttaumfjöllun er þ.a.l. alls ekki ný af nálinni og ekkert tengd hryðjuverkum Anders Behring Breivik þó svo að hún hafi skotið upp kollinum nú, í kjölfar hryðjuverkanna.

Í þessu sambandi er rétt að benda einnig á þá einföldu staðreynd að ÖLL Norðulöndin, utan Íslands, hafa orðið fyrir barðinu á vopnuðum hryðjuverkamönnum af einhverju tagi, sum jafnvel oftar en einu sinni.  Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á þá einföldu staðreynd að á Íslandi hafa verið handteknir meðlimir yfirlýstra hryðjuverkasamtaka á borð við írska lýðveldisherinn (IRA) svo dæmi séu tekin.  Þá má hér einnig benda á þá einföldu staðreynd að hér hafa skotið rótum samtök, sem víða um heim hafa verið flokkuð sem skipulögð glæpasamtök þ.e.a.s. „Vítisenglar“.  Fyrir ekki svo mörgum árum var höfundur þessarar greinar (formaður LL) talinn galinn þegar hann benti á þann raunveruleika að þessi samtök myndu, fyrr eða síðar skjóta hér rótum!

Til baka