Skrílslæti!
1 okt. 2011
Það var virkilega dapurlegt að horfa á í sjónvarpi þau mótmæli sem boðuð höfðu verið á Austurvelli í dag! Sá er þetta skrifar, formaður Landssambands lögreglumanna, hafði margítrekað undanfarna daga í hinum ýmsu fjölmiðlum reynt að höfða til þeirra sem ætluðu að mæta til mótmælanna í dag um að mótmælin færu fram ÁN OFBELDIS!!!
Í dag kom hinsvegar í ljós að einhver hluti þjóðarinnar kýs að beita fyrir sig ofbeldi – og þá væntanlega einnig telur þá leið vænlega til árangurs – til að koma skilaboðum sínum áleiðis! Staðreynd málsins er hinsvegar sú að ofbeldi leysir engan vanda – ofbeldi aftur á móti skapar margfalt meiri vanda og er þeim, sem því beita, bæði til vansa og mikillar minnkunnar!!
Lögreglumenn hafa staðið í ströngu allt frá haustdögum 2008 þegar í ljós kom með hörmulegum afleiðingum að hrunadans sá er hin íslenska þjóð sumpart með forystumenn hennar í fararbroddi hafði linnulaust dansað í kringum gullkálfinn var ekkert annað en blekkingarvefur. Blekkingarvefur sem spunninn hafði verið af fjárglæframönnum.
Lögreglumenn hafa, líkt og aðrir þegnar þessa lands, þurft að súpa hið beiska seyði eftirmála hrunadansins!
Lögreglumenn hafa, ólíkt öðrum þegnum þessa lands, þurft að standa frammi fyrir trylltum skrílnum sem óð uppi til að mótmæla „Vanhæfri ríkisstjórn“, sem að mati þegna landsins var ekki að standa sig í stykkinu!
Lögreglumenn hafa, ólíkt öðrum þegnum þessa lands, einnig þurft að standa frammi fyrir trylltum skrílnum sem vaðið hefur uppi til að mótmæla aftur – í kjölfar „Viðreisnarinnar“ – því aðgerðarleysi stjórnvalda sem sagt er hafa orðið til þess að heimilum landsins blæði smátt og smátt út.
Lögreglumenn hafa, líkt og aðrir þegnar þessa lands, þurft að horfast í augu við afleiðingar hrunsins.
Lögregumenn hafa, ólíkt öðrum þegnum þessa lands, þurft að horfast í augu við örvæntingu fólksins í landinu, bæði í kjölfar hrunsins og viðreisnarinnar. Viðreisnar sem stór hluti þjóðarinnar álítur, að því er virðist, hafa mistekist!
Lögreglumenn hafa, ólíkt öðrum þegnum þessa lands, þurft að taka við „flugskeytum“ þjóðarinnar. Reiðrar þjóðar sem telur að á rétti sínum hafi verið brotið.
Það að mótmæla er gott og gilt! Það að mótmæla með ofbeldi, líkt og sást á Austurvelli í dag, er hverjum þeim sem tók þátt í því til mikillar minnkunnar!