Fréttir

Pólitísk rétthugsun!

5 okt. 2011

Sá er þetta skrifar, formaður Landssambands lögreglumanna (LL), hefur undanfarið verið sakaður um ýmsa hluti þ.á.m. að keyra „[Lands] sambandið endanlega niður í rotþró ómálefnalegrar hatursumræðu-hefðar“ og „haturskennda[n] þjóðernispopúlisma“.  Þessar ásakanir á hendur formanni LL eru ekki einu gagnrýnisraddirnar sem hafa heyrst, undanfarið, á hendur formanni og stjórn LL, né lögreglunnar í heild sinni.  Það sem hinsvegar vekur furðu þess er þetta skrifar er fullvissa þess pólitískt rétthugsandi sérfræðings, sem í bloggi sínu viðhafði þau orð sem er að finna hér að ofan innan gæsalappa, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft eitthvað með fréttatilkynningu LL, frá 1. október s.l. að gera.  Mikill er máttur Sjálfstæðisflokksins í augum blogskrifarans, svo ekki sé meira sagt!

Blogskrifaranum til upplýsinga er rétt að benda á þá staðreynd að stærstur hluti og inntak fréttatilkynningarinnar, sem hægt er að lesa á heimasíðu LL (hér) er innan gæsalappa, sem alla jafnan (líka í þessu ákveðna tilviki) eru notaðar til að afmarka beina ræðu eða tilvitnanir í einhvern ákveðinn, áður fluttan eða framsettan, texta.  Það vill einfaldlega segja að með sendingu þessarar fréttatilkynningar LL, á fjölmiðla landsins, var formaður LL einvörðungu að sinna hlutverki sínu, sem málsvari lögreglumanna á Íslandi, svo sem það er afmarkað í lögum LL.

Til frekari upplýsinga, blogskrifaranum – sem og þeim sem undir hafa tekið á athugasemdasvæði skrifarans – er rétt að geta þess að formaður LL hafði alls enga hugmynd um hver hafði samið gæsalappavarða textann þegar hann var sendur fjölmiðlum.  Nú hefur formaður LL hinsvegar komist að því hver samdi umræddan texta og því miður – fyrir blogskrifarann – hefur komið í ljós að þar var á ferð einhver ópólitískasti lögreglumaður landsins!  Flóknar persónulegar fjölskylduástæður (veikindi og andlát) réðu því að nafn formanns LL, í stað framkvæmdastjóra, var á umræddri fréttatilkynningu og veltir formaður LL því fyrir sér hvernig pistill tilvitnaðs blogskrifara hefði litið út ef það nafn, sem upprunalega átti að vera undir fréttatilkynningunni hefði verið þar í stað nafnsins Snorri Magnússon?

Formaður LL og stjórn vona þess heitt og innilega að þeim sé fyrirgefin sú grafalvarlega yfirsjón að hafa ekki fengið einhvern grjótharðan pólitískt rétthugsandi lögreglumann til að semja umræddan texta og vona þess jafnframt að þeim blessaða lögreglumanni, sem samdi umræddan texta – sem jafnframt stóð vaktina framan við Alþingi Íslendinga þennan örlagaríka dag – verði fyrirgefin sú grafalvarlega yfirsjón að hafa ekki fengið textann samþykktan af ráðandi öflum innan Sjálfstæðisflokksins áður en hann var sendur fjölmiðlum!

Þeim aðila til upplýsinga, sem fann hjá sér þörf til að gleðjast yfir því að LL sé „hætt að beita Snorra formanni fyrir sig. Kominn tími til.“ verður ekki kápan úr því klæðinu!

Lifið heil!

Til baka