Öryggismörk!
18 nóv. 2011
Um langa hríð hefur verið rætt um svokölluð öryggismörk í umræðu um löggæslumál. Þannig fór t.d. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, mikinn á Alþingi og í fjölmiðlum árið 2001 og fullyrti að fjöldi lögreglumanna í Reykjavík þess tíma væri kominn undir öryggismörk. Hægt er að lesa hluta þessarar umræðu hér, hér, hér og hér. Rétt er að halda því til haga, lesi einhverjir á annað borð það sem Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði árið 2001 að þar var verið að ræða um það að lögreglumenn í Reykjavík (að undaskyldum sveitarfélögunum Álftanesi, Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði) þyrftu að vera, að lágmarki, þrjú hundruð og þrír (303) sem var skv. mati þáverandi lögreglustjóra Böðvars Bragasonar. Í dag – skv. upplýsingum úr ársskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2010 (m.v. tölur í lok janúar 2011 (bls. 54)) – eru starfandi á öllu höfuðborgarsvæðinu þrjú hundruð (300) lögreglumenn.
Í umræðum á Alþingi Íslendinga þann 6. október s.l. undir fyrirsögninni „Staða lögreglunnar og löggæslumála“ var enn og aftur rætt um öryggismörk en þá umræðu hóf Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í fyrirspurn þingmannsins kom m.a. fram fullyrðing þess efnis að niðurskurður á fjárframlögum til löggæslu á Íslandi hafi numið allt að 20 – 30% frá árinu 2008. Þá sagði þingmaðurinn einnig m.a: „[…] það er raunveruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því að við séum komin að einhverju sem við getum kallað öryggismörk í þessum efnum.“
Fyrir svörum var Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og þingmaður Vinstri-grænna. Í svörum innanríkisráðherra, við fyrirspurn þingmannsins, kom þetta m.a. fram „[…] en hv. þingmaður er nákvæmur í orðalagi sínu, hann talaði um öryggismörk. Það er kannski það sem skiptir máli hér. Ég tel að við séum ekki komin að þeim landamærum. Ef við færum yfir þau væri ekki forsvaranlegt að grípa til þeirra ráðstafana sem við erum enn að gera.“
Þessa umræðu, sem og þá umræðu sem átti sér stað árið 2001 er athyglisvert að skoða í ljósi fréttar sem birtist á mbl.is í dag, föstudaginn 18. nóvember þar sem fjallað var um þá staðreynd að lögreglan á Vestfjörðum hefði skilað, til embættis Ríkislögreglustjóra, fíkniefnaleitarhundi þeim sem notast hefur verið við, til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu fíkniefna á Vestfjörðum, vegna fjárskorts. Í viðtali mbl.is við Önund Jónsson, yfirlögregluþjón á Ísafirði kom m.a. fram að það væri einfaldlega of dýrt að halda hundinn!
Ég held að ég geti leyft mér að fullyrða að það að halda úti fíkniefnaleitarhundum hjá lögreglu, um allt land, hljóti að teljast hluti af þeim öryggisviðmiðum sem lögregla á að miða við til að framfylgja hlutverkum sínum eins og þau er t.d. skilgreind í liðum a, b og c í 2. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Það getur ekki annað verið en velflestir landsmenn séu því sammála að sé það raunin að einstaka lögreglulið geti ekki haldið úti einum fíkniefnaleitarhundi þá er staðan orðin sú að löggæsla er komin undir það sem hægt væri að kalla öryggismörk!
Hvað getur verið mikilvægara en það að tryggja það að lögregla geti, með öllum tiltækum ráðum, stemmt stigu við útbreiðslu fíkniefna, sem haldið er að ungmennum þessa lands?