Fréttir

Skipulögð glæpastarfsemi

23 mar. 2012

Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum, undanfarna daga, um skipulagða glæpastarfsemi.  Þar hafa hæst borið á góma svökölluð vélhjólagengi sem á engilsaxneska tungu útleggst „Outlaw Motorcycle Gangs (OMG´s)“.  Lögreglan, í heild sinni, hefur varað við þeirri þróun, sem nú er að sjást í íslensku samfélagi, í áraraðir.  Þannig birti ég grein í Lögreglumanninum, málgagni lögreglumanna árið 1999, um vélhjólagengi.  Greinin var endurbirt – óbreytt utan örlitlar dagsetningabreytingar – árið 2009!!  Ekkert hafði gerst, af hálfu stjórnvalda, til að sporna við þeirri þróun sem nú hefur orðið og sjá hefur mátt á hinum Norðurlöndunum. 

Þegar almennt er rætt um vélhjólagengi (OMG´s) á meðal sérfræðinga í þessum efnum er fyrst og fremst verið að horfa til þeirra stóru fjögurra gengja sem starfa á alheimsvísu þ.e.a.s. Hells Angels, Banditos, Outlaws og Pagans.  Nú hefur eitt þessara gengja náð ákveðinni fótfestu hér á landi svo sem sést hefur í fjölmiðlaumræðu undanfarinna mánaða og ára og önnur feta fast í þeirra fótspor.  Koma hefði mátt í veg fyrir þessa þróun með öllu ef stjórnvöld þess tíma hefðu hlustað á varnaðarorð lögreglu!  Þó þetta sé sagt og skrifað með þessum hætti er ekki verið að segja – og alls ekki – að lögreglu hafi ekki orðið ágengt í því að berjast gegn þessari þróun því það hefur henni svo sannarlega tekist þrátt fyrir þá staðreynd að stjórnvöld hafi ekki haft dug í sér til að taka af skarið og hreinlega banna þessa starfsemi með lögum og allar birtingamyndir merkja þessara gengja á íslenskri grund!  Þannig er það t.a.m. fáheyrður atburður að Hells Angels ráðleggi félagsmönnum sínum frá því að ferðast til ákveðins lands þar sem talsverðar líkur séu á því að viðkomandi verði vísað frá landinu svo sem sést hefur í umfjöllum fjölmiðla.  Þetta eitt og sér er stór og ákveðinn árangur fyrir lögreglu sem falið er það hlutverk að stemma stigu við afbrotum.  Það er hinsvegar erfitt það hlutverk að vera verktaki að byggingu húsa án teikninga, hráefnis og verkfæra en þannig er hlutverk lögreglu oft á tíðum í baráttu hennar við óþjóðalýð sem herjar á samborgara sína!
Nú nýverið lagði innanríkisráðherra fram frumvarp, sem að hans mati átti að færa lögreglu ákveðnar heimildir til að auðvelda henni baráttuna – fyrir hönd heiðviðra borgara þessa lands – gegn glæpum hvers konar.  Lagafrumvarpið er hinsvegar þannig úr garði gert að það gerir afar lítið til að bæta við þær heimildir sem lögregla hefur þegar í dag.  Það verður að segjast alveg hreint eins og það er að það er all undarlegt að lögreglan skuli þurfa að benda stjórnvöldum á þá staðreynd að mikið skorti upp á heimildir hennar til aðgerða á borð við það sem lögregla á hinum Norðurlöndunum hefur yfir að ráða.  Einhver hefði talið – í einfeldni sinni – að stjórnvöld þessa lands væru í meira og betra sambandi við stjórnvöld hinna Norðurlandanna í gegnum endalaust norrænt samstarf þ.a. ekki hefði þurft til að koma aðvaranir lögreglu um að eitt og annað væri yfirvofandi og á leið til landsins.
Lögreglan getur ekki ein og sér staðið í því að halda uppi lögum og reglu í okkar annars afar góða samfélagi.  Hún verður að geta treyst á heiðarleika almennings.  Hún verður að geta treyst á almenna skynsemi.  Hún verður að geta treyst því að Íslendingar séu þannig úr garði gerðir að þeir aðhyllist ekki glæpi.  Hún verður að geta treyst því að náunginn hafi ekkert illt í huga gagnvart nágranna sínum.  Hún verður að geta treyst því að þjóðin standi með henni gegn skipulagðri brotastarfsemi.  Hún verður að geta treyst því að Íslendingar hafi til að bera þá almennu skynsemi að eyðileggja ekki líf hver annars!
Það er afar erfitt það hlutskipti að vera spámaður í eigin landi!

Til baka