Fréttir

2012

24 apr. 2012

ÞESSI SÍÐA ER Í STÖÐUGRI VINNSLU OG MUN TAKA BREYTINGUM EFTIR ÞVÍ SEM UMRÆÐA UM SKIPULAGSBREYTINGAR Í LÖGREGLU ÞRÓAST HVERJU SINNI.
 
 
Miðvikudaginn 25. apríl 2012 mælti Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingar á lögreglulögum sem miða að því að fækka umdæmum lögreglu úr fimmtán (15) í átta (8).
 
Frumvarpið er nú (í byrjun ágúst 2012) í umsagnarferli hjá .  Þær umsagnir, sem berast um frumvarpið, er hægt að lesa hér.
 
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umdæmi lögreglustjóranna verði sem hér segir:
 1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
 2. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
 3. Lögreglustjórinn á Vesturlandi
 4. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum
 5. Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra
 6. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra
 7. Lögreglustjórinn á Austurlandi
 8. Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að umdæmaskipan lögreglustjóranna verði ákveðin í reglugerð til að koma til móts við þann breytileika sem hefur átt sér stað og mun að öllum líkindum eiga sér stað á skipan sveitarstjórnarmála á Íslandi.
 
Í frumvarpinu er einnig að finna ýmis önnur atriði er varða t.d. bakgrunnsskoðanir þeirra sem sækja um nám í lögregluskóla ríkisins sem og starfandi lögreglumanna án þess þó að gerð sé grein fyrir því hvernig slíkar skoðanir munu eiga sér stað og þá einnig hverjir eigi að framkvæma þær, gagnvart starfandi lögreglumönnum og hver eftirvinnsla slíkra bakgrunnsskoðana starfandi lögreglumanna yrði.
 
Annað sem vekur athygli í þessu lagafrumvarpi Ögmundar er sú afturför sem er að verða með aðgengi lögreglumanna, með viðeigandi viðbótarmenntun, að stöðum aðstoðarlögreglustjóra og er þessi framlagða breyting í algerri þversögn við það sem fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hafði lagt upp með árið 2008 þegar unnið var að endurskoðun lögreglulaga í hans ráðherratíð.  Þetta má m.a. sjá í glærum sem hann flutti á fyrirlestri á fundi félags sýslumanna, sem haldinn var á Hvolsvelli 25. september 2008.
 
Í tengslum við þetta frumvarp Ögmundar hefur verið komið á fót vinnuhópum, sem starfa undir sérstökum stýrihóp sem aftur er samansettur af fulltrúa LL, ríkislögreglustjóra, félags lögreglustjóra og félags yfirlögregluþjóna auk starfsmanna innanríkisráðuneytisins.  Þessir vinnuhópar munu fjalla um:
 1. Verkefnagreiningu m.t.t. aðskilnaðar(sýslumanna og lögreglu)
  • Fulltrúi LL í hópnum er Guðmundur Fylkisson
 2. Fjármál
  • Fulltrúi LL í hópnum er Frímann Birgir Baldursson
 3. Starfsmannamál
  • Fulltrúi LL í hópnum er Steinar Adolfsson

Þeir lögreglumenn sem vilja koma einhverju efni á framfæri við vinnuhópana eru hvattir til að setja sig í beint samband við fulltrúa LL í þeim.

 

Frumvarp Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, sem talað var fyrir á Alþingi þann 25. apríl 2012, fékk ekki afgreiðslu á 140. löggjafarþingi.  Ráðherra hefur nú í annað sinn á þessu ári, þann 27. september 2012, talað fyrir enn einu frumvarpinu um breytingar á lögreglulögum og er það frumvarp komið til allsherjar- og menntamálanefndar til afgreiðslu.  Í fljótu bragði er ekki að sjá neinar efnislegar breytingar á þessum tveimur frumvörpum sem innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi á þessu ári.  Þá er hvergi hægt að sjá þess merki að tekið hafi verið tillit til þeirra atriða sem rædd voru á fundum fulltrúa LL, innanríkis- og fjármálaráðuneyta í tengslum við útfærslu gerðardóms í kjaradeilu LL á haustmánuðum 2011.

 

Hægt er að lesa frumvarpið sjálf, sjá umræður um það og fylgjast með innsendum erindum til allsherjar- og menntamálanefndar vegna þess hér.

 

 

Önnur vinna í tengslum við skipulagsbreytingar í lögreglu (2011 – 2012):

 

Þann 7. apríl 2011 lagði utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fram tillögu til þingsályktunar sem er að finna á þskj. 1247 – 723 mál um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.  Í ályktuninni er lagt til að tíu (10) manna þingmannanefnd móti þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem byggist á þeirri staðreynd að Ísland er herlaus þjóð.  Nefndinni er m.a. ætlað, í störfum sínum, að horfa til „Áhættumatsskýrslu fyrir Ísland“ sem gefin var út árið 2009.  Athygli vekur, við lestur skýrslunnar, sem er upp á 152 bls. að í henni er talsvert fjallað um hin ýmsu hlutverk lögreglu auk ýmissa ábendinga um eflingu lögreglu á ýmsum sviðum.

Hægt er að fylgjast með ferli málsins hér.  Þingsályktunartillagan var samþykkt frá Alþingi þann 16. september 2011 og er lokaútgáfu hennar að finna hér.

Landssambandi lögreglumanna var ekki boðið að skila inn umsögn vegna málsins.

Þingsályktunartillaga Össurar fellur afar vel, að mati LL, að þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar o.fl. þingmanna um „Grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland“ sem lögð var fram á Alþingi sem þskj. 1576 – 862 mál þann 30. maí 2011 en í þeirri þingsályktunartillögu er lagt til að farið verði að hugmyndum LL um:

 1. Skilgreiningu á öryggisstigi á Íslandi,
 2. Skilgreiningu á þjónustustigi lögreglu,
 3. Skilgreiningu á mannaflaþörf lögreglu,
 4. Skilgreiningu á fjárveitingum til löggæslu.

Hægt er að fylgjast með ferli þessa máls hér.

Þingsályktunartillagan var samþykkt á Alþingi þann 19. júní 2012 – eins og lesa má í frétt hér á þessari síðu frá 20. júní 2012 – og í framhaldi af því send ríkisstjórn Íslands.

Umsögn LL vegna þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar o.fl. er hægt að lesa hér.

Til baka