Fréttir

Ræða formanns við þingsetningu 31. þings LL 2012

24 apr. 2012

Kæru félagar.

 

Áður en lengra verður haldið vil ég biðja alla viðstadda að rísa úr sætum til að minnast látinna félaga okkar með einnar mínútu þögn!

 

Um þessar mundir eru liðin fjögur ár frá því að ég tók við formennsku Landssambands lögreglumanna.  Það er óhætt að segja það og FULLYRÐA að þessi fjögur ár hafa verið einhver róstusamasti tími í félagsmálum lögreglumanna – sennilega frá upphafi.

 

Allan þennan tíma hefur LL, nánast sleitulaust, staðið í kjarabaráttu.  Baráttu fyrir bættum launum og réttindum sinna félagsmanna á einhverjum vonlausasta tíma til slíks, þ.e.a.s. frá og með hruni íslenska fjármálakerfisins.

 

Á þessum sama tíma hefur stéttin verið undirseld linnulausum skipulagsbreytingum eða yfirvofandi skipulagsbreytingum.

 

Enn erum við í sömu sporum er varðar skipulagsmál innan lögreglunnar en kjaraviðræður eru komnar í ákveðið skjól a.m.k. fram til ársbyrjunar 2013 – en ef að líkum lætur sennilega fram á vormánuði 2014.  Það er því góður tími til stefnu til að marka veginn fram á við í þeim efnum en það er m.a. verkefni þessa þings!  Það er einlæg von mín að starfskjaranefnd þessa þings vinni vel og ötullega að stefnumörkun fyrir stjórn LL fyrir þær kjaraviðræður sem væntanlega verður farið í strax á vormánuðum 2014.  Til þeirra verka hefur hún það veganesti sem lagt var upp með árið 2008 og staðfest af þingi LL 2010, þ.e.a.s. KJARABÓK LL en sá sem hér stendur telur að kominn sé tími á að endurskoða innihald hennar og uppfæra þær kröfur sem þar koma fram.

 

Í ræðu minni við slit 29. þings LL, sem haldið var í Munaðarnesi í apríl 2008 hafði ég m.a. eftirfarandi að segja um þær kjaraviðræður sem fyrirsjáanlegar voru þá um haustið:

 

„Ég geri mér grein fyrir að þær viðræður verða ekki auðveldar.

 

Ég geri mér grein fyrir því að félagsmenn vænta mikils og sú ganga sem fyrir höndum er verður ekki auðveld.

 

Ég geri mér grein fyrir að ef á einhverri stundu er þörf á sameiningarkrafti lögreglumanna, um allt land, þá er það nú.

 

Ég geri mér grein fyrir því að augu allra lögreglumanna munu fylgja störfum nýrrar stjórnar Landssambands Lögreglumanna.

 

Að sama skapi geri ég mér einnig grein fyrir því að þessi vinna vinnst ekki auðveldlega nema með aðkomu sem flestra félagsmanna, hvort sem það er með beinni þátttöku í þágu Landssambandins, með framlagi hugmynda eða vinnu í nefndum á vegum sambandsins.

 

Landssamband Lögreglumanna er fyrir félaga þess en félagarnir ekki fyrir það.

 

Landssambandið verður aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess og bið ég alla lögreglumenn, hvar í sveit sem þeir eru settir að huga að því. Slagkraftur stjórnar Landssambandsins verður aldrei meiri og sterkari en það sem hinn almenni félagsmaður er tilbúinn að leggja á sig í baráttu fyrir bættum kjörum sínum og hærri launum. Þetta skyldi hver og einn íhuga með sjálfum sér og láta loks samvisku sína dæma.“

Það gerði sér örugglega enginn í hugarlund það sem átti eftir að verða þá um haustið!

 

Það er og verður enn á brattann að sækja þegar kemur að kjaraviðræðum og eins og fram kom hér áðan þá er það einlæg von mín að starfskjaranefnd þessa þings leggi nýkjörinni forystu landssambandsins til gott veganesti til þeirra viðræðna.

 

Á morgun mun Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ávarpa þingfulltrúa þar sem hann mun, væntanlega, koma inn á boðaðar skipulagsbreytingar í lögreglu en eins og allir lögreglumenn vita þá hefur lögreglan verði í nær samfelldu skipulagsbreytingaferli allt frá ársbyrjun 2007.  Það má reyndar með nokkrum sanni segja að það ferli hafi í raun hafist árið 1997 með niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins og stofnun embættis Ríkislögreglustjóra.

 

Skipulagsbreytingar taka sína tolla af orku þeirra starfsmanna sem starfa innan þeirrar skipulagsheildar sem verði er að breyta eða stendur til að breyta.  Fjölmargar rannsóknir, bæði innlendar sem erlendar, sýna þetta og staðfesta.  Þannig hafa t.d. erlendar rannsóknir sýnt að lögreglumenn eiga, í flestum tilvikum, ekki í miklum erfiðleikum með að vinna úr því álagi sem alla jafna fylgir vinnunni en að sama skapi erfitt með að vinna úr stjórnskipulegu álagi t.a.m. skipulagsbreytingum o.þ.u.l.  Í þessum rannsóknum kemur fram að lögreglumenn líta til þess að skipulagið í kringum vinnu þeirra eigi að vera kjölfestan í starfinu.

 

Allsherjarnefnd þessa þings mun hafa úr nógu að vinna enda liggur nú ljóst fyrir að frumvarp innanríkisráðherra, um skipulagsbreytingar í lögreglu, hefur verið lagt fram á Alþingi.  Nokkrar líkur verða að teljast til þess að það frumvarp fái afgreiðslu en fyrra frumvarp, Ögmundar Jónassonar, þessa efnist dagaði uppi í meðförum allsherjarnefndar Alþingis.  Þannig urðu einnig örlög frumvarps Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

 

Landssamband lögreglumanna var einn af þeim hyrningarsteinum sem stóðu að þeim skipulagsbreytingum sem farið var í á lögreglu í ársbyrjun 2007.  Síðan þá hefur LL ekki verið fylgjandi frekari skipulagsbreytingum í lögreglu, nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem gerð hafa verið stjórnvöldum heyrinkunnug.  Þar má t.d. nefna það að:

 

LL hefur lagt áherslu á það að líta þurfi yfir farinn veg og gera óháða úttekt á því hvernig til hafi tekist til dagsins í dag;

 

LL hefur lagt á það ríka áherslu að samhliða slíkum breytingum þurfi að gera eldri lögreglumönnum það kleyft að hætta á svokallaðri 95 ára reglu;

 

LL hefur hvatt til þess að farið verði í grunnskilgreiningar á eðli og umfangi lögreglustarfsins í heild sinni;

 

LL hefur, allt frá því að farið var í skipulagsbreytingarnar árið 2007, ekki getað talað einum rómi um það í hvaða átt ætti að fara með þessar skipulagsbreytingar það vill segja hvort á Íslandi ætti að vera einn eða fleiri lögreglustjórar.  Þetta helgast einfaldlega af þeirri einföldu staðreynd að sitt sýnist hverjum eftir því hvar á landinu þeir starfa.  Það er verðugt viðfangsefni allsherjarnefndar þingsins að taka þetta atriði til skoðunar.

 

Það er von mín að sú vinna sem farið verður í á vegum allsherjarnefndar þessa þings verði til þess að forysta LL geti opinberlega talað einum rómi um það hvað lögreglumönnum hugnist í þessum efnum.

 

Það er einnig von mín að þingfulltrúar nýti það tækifæri, sem gefst með innleggi Ögmundar Jónassonar hér á morgun, til skrafs og ráðagerða við ráðherrann.

 

Í áður tilvitnaðri þingslitaræðu minni við lok 29. þings LL árið 2008, kom ég inn á starfsumhverfi lögreglumanna, líkamstjón, hótanir o.fl.  Það er að bera í bakkafullann lækinn – í það minnsta gagnvart stjórnvöldum þessa lands – að endurtaka þá hluti hér.  Við vitum hvert ástandið er í lögreglunni.  Við höfum haldið því dyggilega á lofti.  Við vitum að hvert einasta lögreglulið á landinu er undirmannað.  Við vitum að lögreglan á Íslandi býr við fjársvelti og niðurskurð.  Við vitum að eftirlitsferðum okkar hefur fækkað gífurlega á síðustu árum.  Við vitum að það er alls ekki öruggt að okkur berist aðstoð í tíma þegar við þurfum á henni að halda í störfum okkar á vettvangi.  Við vitum að skipulögð glæpastarfsemi hefur skotið hér rótum og er enn að festa sig í sessi.  Við höfum bent á þetta allt saman og það margoft!

 

Við hljótum að gera þær einföldu kröfur og ítreka enn og aftur að þeir sem setja okkur starfsreglur, sem okkur ber að fara eftir við framkvæmd starfa okkar, beri þá virðingu fyrir okkur og störfum okkar að við getum sinnt þeim landi og þjóð til sóma.  Við eigum rétt á því að okkur séu búin þau starfsskilyrði að við þurfum ekki, á sama tíma og við erum að kljást við óþjóðalýð, að vera að kljást líka við handhafa löggjafarvaldsins.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið:  Lögregla verður að vera í stakk búin til að fást við hvert það ástand, sem skapast getur í þjóðfélaginu og brugðist við því, hvorutveggja, með nægum og vel þjálfuðum mannskap og ekki síst með réttum verkfærum hverju sinni, hvort sem það er það lagaumhverfi sem við þurfum að búa við eða þau tól og tæki sem við notum við störf okkar.  Þetta hefur Landssamband Lögreglumanna bent á árum saman.  Þetta komum við til með að halda áfram að benda á.  Að þessu sögðu er það hreint alveg með ólíkindum að við, sem falið hefur verið ákveðið hlutverk í þjóðfélaginu, þurfum að berjast fyrir því að fá verkfærin, hverju nafni sem þau nefnast, til að sinna vinnunni okkar!

Í ræðu sinni við útskrift lögregluskóla ríkisins þann 18. apríl 2008 sagði þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra m.a:

„Löggæslan er á réttri braut.  Krafta sérhvers lögreglumanns ber að nýta til virkrar þátttöku við að gæta laga og réttar.  Hver einstakur lögreglumaður hefur mikilvægu hlutverki að gegna.  Honum ber að auðvelda störfin með góðum búnaði, öflugri greiningu og áhættumati.  Öryggi lögreglumanna verður best tryggt með vitneskju um hættuna, sem að þeim kann að steðja, og réttum viðbrögðum við henni.”

Ég fullyrði að hver einasti lögreglumaður á Íslandi getur ekki annað en verið sammála þessum orðum þáverandi dómsmálaráðherra en spyr að sama skapi:  Hvar stöndum við í dag?  Því er sáraeinfalt að svara:  Við stöndum í nákvæmlega sömu sporum og þá!  Það hefur nefnilega lítið sem ekkert breyst annað en það að lögreglan hefur þurft að skera niður ár eftir ár frá árinu 2008!

 

Við erum sem sagt enn verr í stakk búin til að sinna störfum okkar nú en við vorum fyrir fjórum árum síðan!

 

Kæru félagar!

 

Ég ætla ekki að hafa þessi inngangsorð 31. þings LL lengri.  Ég vona heitt og innilega að hér fari fram, þá tvo daga sem þingið stendur, málefnaleg vinna og umræða þar sem einblýnt verður á aðalatriði og skýr stefna mörkuð.  Það er undir ykkur komið, sem komin eru til þessa þings, að sjá til þess að það megi verða.

 

Um leið og ég set 31. þing Landssambands Lögreglumanna geri ég það að tillögu minni að þingforseti verði kjörinn Jónas Magnússon.

Til baka