Fréttir

Stílbragð!

30 apr. 2012

Mikill er máttur Ögmundar, vinar míns, Jónassonar, ef hann telur sig vita það að nýleg ályktun 31. þings Landssambands lögreglumanna (LL), sem fram kom undir liðnum „Önnur mál“ á þinginu, og samþykkt einróma og með dynjandi lófaklappi allra þingfulltrúa á þinginu, hafi verið „Stílbragð“. 

Sjálfur sat hann hluta þingsins þann sama dag og þessi ályktun var samþykkt þar sem hann fékk ótal margar lýsingar á því hvað í því felst að vera lögreglumaður á Íslandi í dag.  Honum hefði því alls ekki átt að koma neitt á óvart að ályktun sem þessi kæmi frá þinginu.  Hún var reyndar sérstaklega orðuð af einum þeirra lögreglumanna sem sté í pontu eftir erindi innanríkisráðherra á þinginu.
Stílbragð var hún svo sannarlega ekki, nema að því eina leiti að hún var ákaflega vel orðuð!  Í henni kemur ekkert nýtt fram – NÁKVÆMLEGA EKKERT NÝTT!!  Ekkert sem Landssamband lögreglumanna hefur ekki þegar bent á í ræðu og riti mörg undanfarin misseri.  Það sem felst í rauninni í þessari ályktun er í stuttu máli eftirfarandi:
  1. Öryggismál lögreglumanna eru í ólestri.  Lögreglumenn þurfa æ oftar að vera einir við störf sín á vettvangi vegna þess mikla niðurskurðar sem orðið hefur á fjárframlögum til löggæslu.  Það aftur hefur haft það í för með sér, eins og fram kom í nýlegri grein í Fréttablaðinu að lögreglumönnum hefur fækkað um ríflega eitt hundrað (100) á undanförnum fjórum til fimm árum.  LL hefur reyndar haldið tölunni sextíu (60) á lofti en þar er eingöngu verið að horfa til faglærðra lögreglumanna og hvorki héraðslögreglumenn né lögreglunemar eða afleysingamenn í lögreglu teknir með inn í myndina.
  2. Öryggi landsmanna er að sama skapi ógnað með þeirri miklu fækkun sem orðið hefur í lögregluliðinu á Íslandi en það segir sig sjálft að færri lögreglumenn komast einfaldlega ekki yfir það að sinna öllum þeim verkefnum sem lenda inni á borðum lögreglu.  Þá hefur minnkandi akstur lögreglubifreiða það einnig í för með sér að eftirlit lögreglu minnkar sem og frumkvæðisvinnu en þar inni í er t.d. eftirlit með hraðakstri, ölvunar- og vímuefnaakstri, réttindaleysi við akstur og hverskyns önnur umferðarlagabrot sem sjaldnast eru kærð beint til lögreglu nema þá í kjölfar slysa.  Búa þeir landsmenn, sem þurfa jafnvel daglega eða oft á dag að fara yfir Holtavörðuheiði, Þorskafjarðarheiði, Öxnadalsheiði eða Möðrudalsöræfi, svo eitthvað sé nefnt, við aukið öryggi þegar það getur tekið lögreglu og björgunaraðila allt upp í einhverja klukkutíma að koma þeim til hjálpar ef svo illa vill til að þeir lendi þar í slysum.  Þjónusta lögreglu, sem tekur einhverjar mínútur að veita á höfuðborgarsvæðinu.  Er hægt að sætta sig við slíka þjónustu eða öllu heldur þjónustuleysi af hálfu stjórnvalda?  Ofan í þetta hafa sólarhringsvaktir lögreglu verið lagðar af m.a. á Akranesi og í Vestmannaeyjum svo dæmi séu tekin.  Slíkar ákvarðanir, sem teknar eru af fjárhagslegum ástæðum, auka AUGLJÓSLEGA EKKI á öryggi landsmanna.
  3. Fjárveitingar til löggæslu hafa verið skornar niður um margra ára skeið en beinar afleiðingar af slíkum niðurskurði er einmitt stórfelld fækkun lögreglumanna, minnkandi akstur lögreglubifreiða o.fl. í þeim dúr.  Stjórnvöld benda eflaust á tölur þess efnis að fjárveitingar til málaflokksins hafi haldist í stað en þar gleymist að horfa til þess að komið var á fót glænýju embætti Sérstaks saksóknara, í kjölfar hrunsins, en það embætti hefur enga aðkomu að þeirri löggæslu er lýtur að öryggismálum, sýnilegu eftirliti lögreglu e.þ.u.l.  Þá er ekkert tillit tekið til hækkandi verðlags og uppbótarþátta verðlagshækkana, launahækkana og þar fram eftir götunum þegar þessar tölur eru lagðar fram.  Það vill segja að bara við það eitt að reyna að halda í horfinu krónutölulega séð hefði þurft að stórauka fjárútlát, í krónum, til málaflokksins.  Niðurskurðurinn var hafinn löngu fyrir hrun og sem dæmi má nefna þá staðreynd að tillögur lágu fyrir um fækkun lögreglumanna um nálægt tuttugu (20) og „sparnað“ upp á ríflega eitthundrað og fimmtíu milljónir króna (150.000.000,-) hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar fyrrihluta árs 2007 – nálægt tveimur árum fyrir hrun!  Þar átti m.a. að leggja af (var síðar gert) svokallað fimm vakta kerfi lögreglunnar, sem komið var á árið 1998 til þess, eins og þá var sagt, að mæta tilskipunum Evrópusambandsins um vinnutíma!
  4. Skipulagsbreytingar hafa staðið yfir nánast linnulaust frá árinu 2007 og enn sér ekki fyrir endan á þeim breytingum.  Það má reyndar með nokkrum sanni segja að þessar breytingar hafi í raun hafist á árunum 1996 – 1997 með niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins og stofnun embættis Ríkislögreglustjóra.  Engar óháðar úttektir hafa verið gerðar á því hvort þessar skipulagsbreytingar hafi skilað boðuðum og eða tilætluðum árangri hvorki er lýtur að betri og öflugri löggæslu né fjárhagslega.  Lögreglumenn eru orðnir langþreyttir, -leiðir og -reiðir yfir þessum sífelldu breytingum sem fyrst og fremst stafa af stefnuleysi stjórnvalda í málefnum lögreglunnar um áratugaskeið.  Sú staðreynd hefur nákvæmlega ekkert að gera með hrunið né þau stjórnvöld sem nú eru við völd.  Í þessum efnum ráða oftar en ekki pólitískir hagsmunir og sveitarstjórnarpólitík fremur en fagleg sjónarmið út frá löggæslu- og öryggismarkmiðum.  Annað getur reyndar ekki orðið í stöðunni þar sem staða og hlutverk lögreglu í þjóðfélaginu hefur í raun aldrei verið skilgreind í ríflega tvö hundruð ára sögu löggæslu á Íslandi.
  5. Búnaðarmál lögreglunnar hafa verið í ólestri um áratugaskeið og er staðan sú að verið er að kaupa búnað til handa lögreglu nánast eingöngu byggt á kostnaðarmatstölum og að stærstum hluta til horft fram hjá eða lítið á gæðamat búnaðarins.  Þá er lögreglustjórunum, vítt og breitt um landið falið það vandasama verk að kaupa í eigin fátæka reikning þann búnað sem lögreglumönnum er ætlaður hverju sinni án þess að samræmis sé gætt í innkaupum búnaðarins í hvívetna.  Þannig hefur sú staða komið upp að lögreglumenn sem starfa hjá einu embætti og ákveð að flytjast búferlum til að starfa hjá einhverju öðru embætti þurfa að skila inn búnaði sínum til að taka við öðrum og jafnvel verri búnaði hjá „nýja“ embættinu.  Ökutæki lögreglunnar eru undir sömu sök seld enda er verið að kaupa inn venjulega fólksbíla, þá sömu og Jón og Gunna kaupa sér til að komast í vinnu, út í búð o.s.frv.
  6. Menntunarmál, endur- og símenntun eru og hafa verið í fjársvelti um áraraðir og jafnmikið skortir á stefnumörkun, af hálfu stjórnvalda, í þeim efnum og öðrum innan löggæslugeirans.  Þannig hefur t.d. þurft að rokka fram og til baka með starfsþjálfunarhluta lögreglunámsins oftar en einu sinni, vegna peningalegrar stöðu ríkissjóðs.  Það gerir það aftur að verkum að lögreglumannsefni hljóta mismikla o.þ.a.l. misgóða starfsþjálfun fyrir þetta annars vandasama starf þar sem m.a. er verið að sýsla með grundvallarmannréttindi almennings.
  7. Launa- og kjaramál lögreglumanna hafa verið í ólestri um margra ára skeið og er það nokkuð sem hófst löngu fyrir hrun.  Það er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um þann þátt hér m.v. fréttir af kjaradeilum LL við ríkisvaldið undanfarin ár.
Heilmargt annað væri hægt að tína til í þessa upptalningu en ég læt hér staðar numið, a.m.k. í bili enda upp með það lagt að upptalningin yrði, í stuttu máli!!!
Ef hægt væri að kalla það „Stílbragð“ sem fram kemur í ályktun LL, um að löggæsla á Íslandi yrði lögð niður í núverandi mynd, og m.a. byggir á því sem upp er talið í tl. 1 – 7 hér að ofan, þá væri það eingöngu vegna þeirrar snilldar að koma öllum þessum texta fyrir í einni jafn hnitmiðaðri og stuttri setningu og raun ber vitni.  Sá „Stílisti“ ætti skilið dágóð verðlaun fyrir textasmíði sína!  Nei „Stílbragð“ var þessi ályktun svo sannarlega ekki!!
Ráðherrann hefði hinsvegar getað snúið þessu upp í það „Stílbragð“ að lögreglumenn væru í raun hlynntir frekari skipulagsbreytingum í lögreglu og það væri það sem verið væri að fjalla um í þessari ályktun!  Til að taka af allan vafa strax þá felst það „Stílbragð“ ekki í ályktun LL.
Er ekki málið bara einfaldlega það að ef ekki er hægt að reka þjónustu hins opinbera á sómasamlegan hátt þá sé bara einfaldlega best að hætta að veita þá þjónustu?
Rétt í lokin og svo allrar sanngirni sé nú gætt í hvívetna þá er alls ekki og eingöngu við núverandi stjórnvöld að sakast en málin hafa hinsvegar ekki – reyndar ALLS EKKI – þróast til betri vegar frá árinu 2008, svo mikið er víst.

Til baka