Fréttir

Enn frekari niðurskurður!!

14 júl. 2012

Nú nýverið birtist í fjölmiðlum viðal við Oddnýju G. Harðardóttur, núverandi fjármálaráðherra, í hverju hún lýsti því yfir að áfram yrði skorið niður í ríkisútgjöldum sem samsvaraði einu prósenti (1%) m.v. næsta fjárlagaár.  Þessar upplýsingar koma í sjálfu sér ekkert á óvart þeim sem eitthvað fylgjast með þjóðmálunum en þær eru hinsvegar grafalvarlegar þegar kemur að grunnstoðum þjóðfélagsins s.s. heilbrigðisþjónustu, lög- og tollgæslu og svo mætti lengi alllengi telja.

Það liggur í sjálfu sér ekki á hreinu hver niðurskurðurinn hefur verið til löggæslumála frá bankahruninu en sennilega lætur nærri að hann nemi eitthvað á bilinu tuttugu- til þrjátíu prósentum (20% – 30%).  Á þessum árum hefur lögreglumönnum fækkað um sextíu (60) sem lætur nærri að sé um sex til átta prósent (6% – 8%) allra starfandi og fullmenntaðra lögreglumanna í landinu.  Þjónustan hefur hinsvegar ekki verið skert svo neinu nemur sem þýðir í raun það eitt að álag á hvern starfandi lögreglumann hefur aukist um, að lágmarki, sex til átta prósent (6% – 8%) sem ég tel reyndar að sé gróflega vanreiknuð stærð.
Nær væri lægi að til þess bærir yfirmenn lögreglunnar, – líkt forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss hefur gert, – gerðu yfirvöldum ljósa þessa staðreynd og þar kæmi fram að lögreglan myndi skera niður sína þjónustu og að almenningur þyrfti einfaldlega að bíta í það súra epli að fá ekki almennt þá þjónustu sem lögreglu er ætlað að sinna hverju sinni.
Hvernig má það annars vera að einstaklingur, sem mætir á bráðamóttöku Landsspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi, með brotið bein í líkama sínum þurfi að bíða allt upp að átta klukkustundum (8 klst) eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu – og sættir sig við þessa bið – en á sama tíma geti hinn sami á sama tíma gengið inn á nærliggjandi lögreglustöð, til að tilkynna stuld á farsíma sínum – sem kannski kostaði í kringum fimmtíu- til eitthundrað þúsund krónur (50.000,- – 100.000,-) og fái tafarlaust þjónustu lögreglu til að taka niður upplýsingar um hinn stolna síma.  Af hverju segja lögreglustjórar þessa lands ekki „Hingað og ekki lengra!!!!“.  „Við getum hreinlega ekki boðið sömu þjónustu og boðið var upp á fyrir hrun, vegna niðurskurðar til löggæslumála.“.  Af hverju skyldi viðkomandi einstaklingi ekki einfaldlega tjáð það að hann / hún gæti komið aftur að viku liðinni, eftir að vera búinn að panta tíma til skýrslutökunnar líkt og sá hinn sami þyrfti að gera til að fá nauðsynlega læknisþjónustu á sinni heilsugæslustöð?
Það er að sjálfsögðu ljómandi gott og í senn algerlega frábært að lögreglan geti boðið upp á frábæra þjónustu og alls ekki verið að gagnrýna það með neinum hætti hér.  Staðreynd mála er hinsvegar sú að það að halda uppi óbreyttu þjónustustigi lögreglu á Íslandi í dag og á borð við það sem var „fyrir hrun“ nær ekki nokkurri átt.  Þessi staðreynd hefur það einfaldlega í för með sér að starfandi lögreglumenn þurfa að taka á sig gríðarlega auknar byrðar til að halda úti óbreyttu þjónustustigi lögreglu.  Þetta aukna álag kemur niður bæði á andlegri og líkamlegri heilsu og atgervi lögreglumanna auk þess að auka gríðarlega það álag sem alla jafna hvílir á fjölskyldum lögreglumanna.
Komið er nóg!  Íslensk löggæsla getur ekki – og hefur reyndar ekki getið um langa hríð – tekið á sig auknar byrðar til að halda úti þjónustu hins opinbera gagnvart þegnum þessa lands.
Það er aldrei auðvelt að vera spámaður í eigin landi.  Það er aldrei auðvelt að vera sá einstaklingur sem stígur á stokk og segir stundarhátt – „VIÐ GETUM EKKI MEIR!“.  Staðreynd málsins er hinsvegar afar einöld og hún er einfaldlega sú að við getum einfaldlega ekki meir og það álag sem á okkur hvílir er farið að taka verulegan toll af fjölskyldum okkar, börnum og öðrum ættingjum.  Það þarf, og hefði í raun þurft fyrir löngu síðan verið búið að draga úr álagi á lögreglumenn þó ekki væri nema fyrir það eitt að lögreglumenn geti samþættað einkalíf sitt og vinnu.
NÓG ER KOMIÐ AF NIÐURSKURÐI TIL LÖGGÆSLU á Íslandi!  Það verður og er í raun orðið löngu tímabært að koma í veg fyrir frekari niðurskurð fjárheimilda til reksturs lögreglu á Íslandi.
ÞETTA ÁSTAND GENGUR EINFALDLEGA EKKI LENGUR!  ÞAÐ ER NÓG KOMIÐ!

Til baka