Fréttir

Nýr ríkislögreglustjóri í Noregi

18 ágú. 2012

Odd Reidar Humlegård, yfirmaður KRIPOS (Kriminalpolitisentralen [stofnsett 1. febrúar 1959]  – svipar til þess sem áður var Rannsóknarlögregla ríkisins hér á Íslandi) hefur verið skipaður ríkislögreglustjóri í Noregi í kjölfar þess að Öystein Mæland sagði af sér þann 17. ágúst, í kjölfar útkomu skýrslu 22. júlí nefndarinnar í upphafi vikunnar.

 

Ljóst er að gríðarmikið starf bíður Odd Reidar þar sem m.a. forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, hefur lýst því yfir að veigamiklar breytingar þurfi að gera á skipulagi og uppbygginu lögreglunnar í Noregi í kjölfar útkomu skýrslu 22. júlí nefndarinnar til þess m.a. að koma í veg fyrir að viðlíka voðaverk og Anders Behring Breivík framdi þann 22. júlí 2011 geti nokkurn tíma gerst aftur.

 

Athygli vekur, við yfirlestur skýrslu 22. júlí nefndarinnar, og yfirfærslu hennar yfir á Ísland að norsk stjórnvöld ráðgera að auka mjög valdsvið og hlutverk embættis ríkislögreglustjórans norska og auka all verulega miðstýringu lögreglunnar á meðan stjórnvöld hér á landi og einstaka þingmenn hafa lýst því yfir, undanfarin ár, að draga beri úr vægi embættis ríkislögreglustjórans á Íslandi og jafnvel leggja embættið niður!  Sama hefur verið uppi á teningunum í t.d. Danmörku, frá þeim skipulagsbreytingum sem þar voru gerðar á lögreglunni í upphafi árs 2007, þ.e.a.s. að verið að færa hluta breytinganna til baka og auka mjög vægi embættis danska ríkislögreglustjórans sem og miðstýringu lögreglunnar.

Til baka