Fréttir

Hvað svo?

17 nóv. 2012

Þann 15. nóvember 2012 var almenn umræða, á Alþingi Íslendinga, um skipulagða glæpastarfsemi og stöðu lögreglunnar.  Málshefjandi var Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.  Fyrir svörum var innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson.  Aðrir þátttakaendur í umræðunni voru þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir. 

Undir umræðunum kom fram að fjárframlög til löggæslu á Íslandi hefðu dregist saman um sem nemur 2,8 milljörðum króna og fækkun lögreglumanna hefði verið um áttatíu (80) stöðugildi frá því um og fyrir hið svokallaða „bankahrun“.

Við umræðurnar fékkst það loksins staðfest að fjárveitingar til löggæslu á Íslandi hefðu dregist saman um milljarða króna og lögreglumönnum hefði fækkað svo tugum skipti.  Þetta er nokkuð sem Landssamband lögreglumanna hefur verið að benda á mörg undanfarin ár, án undirtektar stjórnvalda.

Megininntak umræðunnar á Alþingi var það að auka bæri fjárveitingar til löggæslu á Íslandi og var þar horft til þess að setja fjármuni í einhverslags pott, undir forræði innanríkisráðherra, sem ætlað væri það hlutverk að útdeila peningum til illa staddra löggæsluembætta.

Landssamband lögreglumanna hefur talað fyrir því allt frá því árið 2008 og jafnvel fyrr að farið verði í það að skilgreina hlutverk lögreglu í samfélagi okkar.  Þar hefur LL talað fyrir því að ríkisvaldið skilgreini: 1) Öryggisstig á Íslandi; 2) Þjónustustig lögreglu; 3) Mannaflaþörf lögreglu, útfrá skilgreindum öryggis- og þjónustustigum og í framhaldinu ákvarði, 4) fjárveitingar til lögreglu.  Ekkert af þessu hefur enn gengið eftir þrátt fyrir að þann 19. júní s.l. hafi verið samþykkt á Alþingi Íslendinga þingsályktunartillaga sem miðar að ofangreindum skilgreiningum.

Ástand löggæslumála á Íslandi er orðið þannig, vegna gengdarlauss niðurskurðar undanfarin ár, að lögreglan er enganvegin í stakk búin til að sinna lögbundnum hlutverkum sínum eins og þau eru framsett í lögreglulögunum.

Ábyrgð á því ástandi sem ríkir innan lögreglunnar er alfarið í höndum stjórnvalda þ.e.a.s. Aþingis!

Til baka