Fréttir

Stöðumat á lögreglunni

27 des. 2012

Grein þessi, eftir Pétur Berg Matthíasson, birtist í Morgunblaðinu (bls. 38) þann 24. desember 2012.  Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi hans.

 

Í nóvember síðastliðnum vakti skýrsla innanríkisráðherra um stöðu lögreglunnar þó nokkra athygli.  Í fjölmiðlum var því slegið upp að þetta væri svört skýrsla um stöðu lögreglunnar. Talað var um að lögreglan gæti ekki sinnt þeim verkefnum sem hún þarf að gera lögum samkvæmt vegna fjárskorts og manneklu. Í inngangi skýrslunnar segir að ástand lögreglunnar sé óásættanlegt og að brýnt sé að fjölga lögreglumönnum og auka fjárveitingar til hennar. 

 

Skýrslan er að mörgu leyti ágætis greining á stöðu lögreglunnar í dag.  Niðurstöður hennar koma hins vegar ekki á óvart og má segja að það sé fátt nýtt í henni sem ekki hefur þegar komið fram. Formaður Landssambands lögreglumanna hefur t.a.m. minnst á flest alla þá þætti sem fjallað er um í skýrslunni, bæði í greinum og viðtölum á undanförnum árum. Auk þess hafa stjórnendur innan lögreglunnar og forsvarsmenn lögreglufélaga um mest allt land rætt um manneklu, fjárskort, öryggi lögreglumanna og fleira á síðastliðnum árum.  Það sem er nýtt er að stjórnvöld eru með þessari skýrslu að viðurkenna og staðfesta tiltekið ástand innan lögreglunnar sem þau hafa ekki gert áður með viðlíka hætti.

 

Árangur lögreglunnar

Staða lögreglunnar í dag kemur ekki á óvart því búið er að skera niður hjá henni, eins og hjá mörgum öðrum opinberum stofnunum á síðastliðnum árum.  Fram kemur í skýrslunni að frá árinu 2008 til ársins 2011 hafa fjárveitingar til lögregluembætta miðað við vísitölu í september 2012 lækkað um 2,8 milljarða króna og er þá embætti sérstaks saksóknara ekki meðtalið.  Lögreglan hefur því fyllilega staðist væntingar stjórnvalda hvað varðar niðurskurð og aðhald í ríkisrekstrinum.  Sá árangur, ef svo má kalla, hefur hins vegar kostað miklar fórnir, t.a.m. hefur dregið verulega úr akstri lögreglubifreiða sem leiðir til minna umferðareftirlits auk þess sem lögreglan er orðin minna sýnileg.  Lögreglumönnum hefur fækkað, m.a. vegna uppsagna auk þess sem sjaldan er ráðið í stöður sem losna.  Fækkunin leiðir til þess að álagið verður meira meðal þeir sem eftir eru, mál kunna að taka lengri tíma í rannsókn, viðbragðstími lögreglu kann að lengjast, hætta er á að menn brenni fyrr út í starfi o.s.frv. 

 

Lögreglunni hefur verið gert að forgangsraða verkefnum í ljósi skertra fjárveitinga og hefur hún gert það mjög vel.  Það sýna árlegar mælingar á trausti til stofnana en lögreglan hefur verið með yfir 80% traust almennings sl. ár.  Lögreglunni hefur tekist hið ómögulega, að halda uppi lögum og reglu, sinna grunnþjónustunni og jafnvel gert ívíð meira þrátt fyrir skerðingu upp á rúma 2,8 milljarða kr. 

 

Rekstur lögreglunnar

Nú er svo komið að 14 lögregluembætti af 15 eru með rekstrarhalla.  Rekstrarafgangur sem einhver embætti áttu er uppurin auk þess sem fjármunir sem teknir voru úr yfirstjórnum embættanna til að kosta löggæsluverkefni eru ekki lengur fyrir hendi.  Fram kemur í skýrslunni að það vantar rúmar 300 m.kr. til þess að ná jöfnuði í rekstri lögregluembættanna.  Þessa fjármuni vantar til að viðhalda núverandi ástandi. Það vantar hins vegar mun meiri fjármuni ef ætlunin er að styrkja lögregluna og tryggja grunnþjónustu hennar.  Ljóst er að ef ekkert er gert, þá mun ástandið versna sbr. niðurstöður skýrslunnar. 

 

Alþingi hefur nú samþykkt að veita lögreglunni 200 m.kr. sem tímabundið framlag til að styrkja einstök lögregluembætti.  Það er gott að menn séu að átta sig á ástandinu en hafa ber í huga að það var fyrirséð.  Hvað halda menn að verði um starfsemi sem skorin er svona mikið niður?  Aftur á móti dugar þessi fjárveiting sem Alþingi hefur samþykkt skammt.  Hún er ekki nóg til að ná jöfnuði í núverandi rekstri lögregluembættanna sbr. skýrslu innanríkisráðherra.  Það þýðir að áfram munu einhver embætti verða rekin með halla.  Þessi fjárhæð kemur í veg fyrir, tímabundið, frekari fækkun lögreglumanna á einhverjum stöðum á landinu en gerir ekkert til að bæta núverandi ástand eins og því er lýst í skýrslunni. 

 

Verja grunnþjónustuna

Þó nokkuð var rætt um skilgreiningar á ýmis konar grunnþjónustu í þjóðfélaginu í kjölfar hrunsins.  Slíkar skilgreiningar voru m.a. taldar nauðsynlegar fyrir stjórnvöld svo að þau gætu tekið upplýstari ákvarðanir um forgangsmál og niðurskurð í ríkisrekstrinum. Árið 2009 var unnið að því hjá embætti ríkislögreglustjóra að skilgreina grunnþjónustu lögreglunnar að beiðni þáverandi dómsmálaráðherra.  Mikilvægt er fyrir stjórnvöld að vinna með skilgreiningu á grunnþjónustu lögreglunnar ef ætlunin er ekki að auka fjárveitingar til lögreglunnar.  Stjórnvöld þurfa að fara yfir verkefni lögreglunnar eins og þau eru sett fram í skýrslu um grunnþjónustuna og taka ákvörðun um framhald þeirra, þ.e. hvað má hætta að gera, hverju má sleppa tímabundið, hvað er hægt að fela öðrum stofnunum o.s.frv.  Ef þetta er ekki gert þá mun það koma niður á grunnþjónustu lögreglunnar til lengri tíma litið.

 

Pétur Berg Matthíasson er fyrrverandi sérfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra og einn af höfundum skýrslu um grunnþjónustu lögreglunnar

 

Til baka