Fréttir

Búsáhaldabyltingin

15 mar. 2013

Í gær kom í verslanir bókin „Búsáhaldabyltingin – sjálfsprottin eða skipulögð“ eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing en í henni er fjallað um hina svokölluðu „Búsáhaldabyltingu“ sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur í ársbyrjun 2009.  Útgáfa bókarinnar hefur, kannski að vonum, vakið ýmis viðbrögð enda er í henni fjallað um meintan þátt einstakra þingmanna í því ástandi sem skapaðist í Reykjavík á þessum dögum og vikum sem þessi svokallaða bylting stóð yfir.  

Ástandið sem skapaðist þessa daga og vikur um og upp úr áramótunum 2008 og 2009 minnir um margt á það ástand sem skapaðist í Gúttóslagnum sem átti sér stað árið 1932.  Ástæða þess að ástandið minnir um margt á hvort annað er sú einfalda staðreynd að í báðum þessum atburðum lágu lögreglumenn eftir særðir.  Særðir bæði á líkama og sál.  Í Gúttóslagnum, eins og fram hefur komið í ótal ritum og bókum um þennan atburð, lágu nánast allir lögreglumenn Reykjavíkur eftir sárir og sumir hverjir biðu sára sinna aldrei bætur.  Allmargir urðu frá að hverfa frá störfum sínum í lögreglunni vegna áverka sem þeir hlutu vegna starfa sinna.  Starfa sem fólust í því þá, líkt og í búsáhaldabyltingunni og líkt og væntanlega um aldur og ævi eða svo lengi sem þjóðfélög vilja á annað borð viðhafa löggæslu, að viðhalda lögum og reglum í samfélaginu, að tryggja vinnufrið réttkjörinna stjórnvalda Íslands.  Það er dapurleg staðreynd að einhverjir einstaklingar, hvort sem sú staðreynd er söguleg, í fortíðinni, á vorum dögum eða í framtíðinni, skuli finna hjá sér köllun til þess að láta heift sína, reiði, ofbeldi, angist eða hvaðeina bitna á þeim þjónum hins opinbera sem uppálagt er það einfalda verkefni að tryggja almannafrið og reglu.  Þeim þjónum hins opinbera, sem að lögum er uppálagt að tryggja friðhelgi hinnar helgustu og elstu stofnunar landsins og jafnvel veraldar!  Það er enn dapurlegra og nöturlegra að hugsa til þess að, eins og fram kemur í umræddri bók, og margítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum landsins, margítrekað hefur verið vitnað til með tilvísun í þingmenn þjóðarinnar, lögreglumenn o.fl. að einhverjir þjóðkjörnir fulltrúar hinnar íslensku þjóðar hafi með orðum sínum og athöfnum orðið til þess að lögreglumenn hafi hlotið líkamlegan og andlegan skaða af því að sinna skylduverkum sínum.  Skylduverkum sem hið sama Alþingi og þeir voru að verja fól þeim að sinna.  Skylduverkum sem þjóðkjörnir þingmenn þjóðarinnar ákváðu, með lagasetningu frá hinu háa Alþingi að þeir skyldu sinna.  „Et tu brute!“.

Það vekur einnig eftirtekt eftir lestur og við útkomu ofannefndrar bókar, að ákveðnir einstaklingar kjósa að stökkva ofan í skotgrafir sínar og „verjast“, því sem fram kemur í bókinni og stutt er ótal heimildum, með ómerkilegum klisjum á borð við þær að höfundur bókarinnar tilheyri þessum stjórnmálaflokknum eða hinum.  Burtséð frá öllum flokkadráttum í þessum efnum þá hefur höfundar bókarinnar haft fyrir því að taka viðtöl við fjölda manna, fjölda lögreglumanna, sem voru staddir í og við Alþingi Íslendinga þessa örlagaríku daga í upphafi árs 2009, fjölda þingmanna, ráðherra og annarra Íslendinga.  Þessir „ákveðnu einstaklingar“ leyfa sér m.a.s. að sverta minningu látins lögreglumanns, sem trúði sínum nánustu fyrir upplifun sinni af störfum sínum þessa daga!  Hversu lágt er hægt að leggjast?  Hve dapurleg geta hlutskipti fólks orðið?  Enn og aftur ákveðin og afar sterk samlíking við hinn „fornfræga“ Gúttóslag.

Til baka