Fréttir

Kosningar

27 apr. 2013

Í dag ganga landsmenn til kosninga til Alþingis Íslendinga.  Kosninga sem sennilega munu ákvarða ákveðin þáttskil bæði í landslagi stjórnmálanna sem og í landslagi þjóðmálanna.  Í fyrsta sinn í sögu lands og þjóðar hefur hrein vinstri stjórn setið út heilt kjörtímabil.  Kjörtímabil umróts og ákveðinna átaka.  Kjörtímabil hreinsunar og tiltektar í kjölfar óheftrar frjálsræðis- og markaðshyggju sem skilaði þjóðinni að bjargbrúninni og að sumra áliti fram af henni.  

Hin „ósýnilega hönd“ markaðshyggjunnar hafði verið látin afskiptalaus árin sem leiddu að hruni með þeim afleiðingum sem það hafði í för með sér.  Hitt ber hinsvegar einnig að horfa á og líta til að þegar höftum er algerlega sleppt leiðir slík ákvörðun úr læðingi græðgi, yfirgang og frekju ákveðinna einstaklinga yfir hinum almenna borgara.  Fleiri orð þarf ekki að hafa um þessi mál enda ljós hverjum Íslendingi.  Hrunið hér á landi var hinsvegar alls ekki eitthvað einstakt fyrirbæri á Íslandi – vilji menn á annað borð kynna sér þau mál – hrunið var á heimsvísu og átti upptök sín í óheftri markaðshyggju Bandaríkja Norður Ameríku.  Hrunið er enn að marka sín spor innan Evrópu svo sem sjá má af fréttum fjölmiðla af því ástandi sem ríkir í einstaka ríkjum Evrópusambandsins.  Kollegar okkar íslenskra lögreglumanna, innan Evrópusambandsins, hafa margir hverjir orðið að þola, ekki einungis kaupmáttarrýrnun, heldur allmargir beinar skerðingar grunnlauna svo, í sumum tilvikum, nemur tugum prósenta!  Ísland var hinsvegar, vegna eðlis og aðstæðna bankakerfisins hér á landi það land sem fyrst, á eftir Bandaríkjunum, varð fyrir áfalli í kjölfar hruns markaðskerfisins enda hafði bankakerfið hér á landi blásið út langt umfram það sem „eðlilegt“ gæti talist.  Hrunið hér á landi, sem og í Bandaríkjunum, er á margan hátt líkt því hruni sem varð fyrir kreppuna miklu þegar Credit Anstalt bankinn í Austurríki hrundi árið 1931, sem aftur leiddi til uppgangs nasismans í Evrópu og þeirra hörmunga sem sú þróun leiddi af sér.

Landsmenn hafa nú í hendi sér ákvörðunarréttinn yfir því hverslags stjórnvöld þau vilja að leiði þjóðina áfram næstu fjögur árin.  Árin út úr kreppunni, sem sannarlega er alls ekki lokið svo vitnað sé í orð Guðmundar Ólafssonar hagfræðings, sem haldið hefur fram að fyrst núna sé kreppan að byrja að bíta á millistéttinni.  Langflestir lögreglumenn þessa lands teljast til millistéttar og því varðar það þá miklu hverskyns stjórnmál verða hér stunduð næstu árin.

Til baka