Fréttir

Staða mála er varða mannfjöldastjórnunarhópa

27 apr. 2013

Nokkuð hefur verið spurt um stöðuna í málum er varða svokallaða mannfjöldastjórnunarhópa lögreglunnar sem komið var á fót fyrir nokkrum árum.

 

Landssamband lögreglumanna (LL) hefur, undanfarin ár, reynt að ná samkomulagi annarsvegar við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs (vegna kjarasamningsins) og hinsvegar lögreglustjórafélagið (vegna stofnanasamningsins) um eðli, umfang og greiðslur til handa lögreglumönnum vegna þessarar vinnu en hingað til ekki náð neinum árangri.  Vísar hver á annan í þessum efnum.  Það vill segja að aldrei hefur verið samið við Landssamband lögreglumanna um þessa vinnu og hvernig, hvort og með hvaða hætti skuli greiða fyrir hana!  Hér er kláralega um að ræða svokölluð „aukastörf“ sem lögreglumenn inna af hendi og um slík störf ber að semja sérstaklega!

 

Staða mála, í þessum efnum, er sú að lögreglumenn gefa kost á sér til þessara aukastarfa innan lögreglu og að sama skapi er staðan einnig sú að ekki er hægt að „neyða“ lögreglumenn til þessarar starfa líkt og fram kemur í samkomulagi LL við ríkissjóð vegna vopnaburðar en þar kemur m.a. fram að ekki er hægt að skikka lögreglumenn til að bera vopn, gegn vilja þeirra, nema brýna nauðsyn beri til.  Sú nauðsyn verður þá að sama skapi að vera afar brýn!

 

Á hitt ber svo einnig að líta að ef upp koma tilvik þar sem notast þarf við þá þekkingu, reynslu og þjálfun sem þeir lögreglumenn hljóta sem í þessum hópum starfa (hér er nærtækast að horfa til svokallaðrar búsáhaldabyltingar) er ljóst að betra hlýtur að vera að fara af stað í verkefnið með þeim tólum, tækjum, þjálfun og reynslu sem af því hlýst að starfa í þessum hópum, en óæfður og án nauðsynlegs búnaðar.

 

Á sama tíma er alveg ljóst að engan lögreglumann er hægt að skikka til þessara starfa og það er þeim í sjálfsvald sett að bjóða sig fram til vinnunnar á sama tíma og það er þeim frjálst að segja sig frá þessari „aukavinnu“.

 

Ríkisvaldinu er ljós afstaða LL í þessum efnum og boltinn er hjá því til samninga um þessi verkefni en hingað til hefur ekki verið sérstakur vilji til þess af hálfu ríkisvaldsins.

 

Til baka