Fréttir

Ræða formanns LL á Ingólfstorgi í Reykjavík 1. maí 2013

1 maí. 2013

Kæru félagar, góðir landsmenn!

Það er mér sannur heiður og um leið ánægjuefni að fá að ávarpa ykkur hér á þessum stað, því sem næst kortéri eftir kosningar til Alþingis Íslendinga.

Undanfarandi vikur – fram að kosningum – hafa verið, á stundum, nokkuð útópískur tími. Sennilega hafa aldrei fleiri valkostir legið fyrir íslenskum kjósendum til Alþingiskosninga og sennilega hafa sjaldan eða aldrei jafnmörg loforð birst um leiðréttingar, lagfæringar og betri tíð með blóm í haga frá framboðum til Alþingiskosninga.

Við, sem staðið höfum í framlínunni, í baráttu fyrir betri kjörum launafólks frá hruninu sem hér varð árið 2008, höfum séð og heyrt ýmis loforð í tengslum við þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið á umliðnum árum. Mörg hver, þessara loforða, hafa einfaldlega ekki verið uppfyllt og þegar litið er um öxl sér maður í raun að sennilega hafi enginn vilji verið til þess að efna þau. Þetta voru einfaldlega stað- og innihaldslausir stafir á blaði.

BSRB hefur, á undanförnum mánuðum, barist fyrir því og fengið í gegn að umhverfi kjaraviðræðna á Íslandi verði bætt. Allt of lengi höfum við horft upp á það að kjaraviðræður dragast von úr viti á meðan verið er að bíða eftir hinum eða þessum eða ákvörðunum ráðamanna þjóðarinnar um væntanleg útspil ríkisstjórna landsins í tengslum við kjarasamningsgerð. Þannig hefur sá sem hér stendur og sú stétt sem ég er í forsvari fyrir – lögreglumenn – þurft að beygja okkur undir það að bíða á hliðarlínunni þar til viðsemjendum okkar þóknast að tala við okkur um kaup og kjör. Vitandi vits að lögreglumenn búa ekki við þau sjálfsögðu mannréttindi að geta boðað til verkfalls.

Það er von okkar að sú vinna sem unnin hefur verið, í þeim tilgangi að bæta það kjarasamningaumhverfi sem við nú búum við, verði til þess að meiri virðing verði sýnd í þessum mikilvægu störfum – og að oft á tíðum gríðarlega langur „biðtími“ eftir gerð kjarasamninga, falli ekki niður því sem næst óbættur! Næstu vikur og mánuðir munu leiða í ljós hvort sú vinna sem unnin hefur verið leiði til þess bætta kjarasamningsumhverfis sem vonir standa til.

Íslenskir launþegar fylgjast grannt með því sem er að gerast á sviði stjórnmálanna.

Íslenskir launþegar fylgjast grannt með þeim stjórnmálamönnum sem koma til með að mynda hér nýja ríkisstjórn.

Íslenskir launþegar fylgjast grannt með efndum þeirra loforða sem haldið var á lofti í aðdraganda Alþingiskosninganna sem nú eru afstaðnar.

Íslenskir launþegar munu sækja fram um bætt kjör sín og ekki síður um efnahagslegan stöðugleika í þeim kjaraviðræðum sem fyrirsjáanlegar eru á komandi hausti og vetri.

Komandi kjaraviðræður þurfa ekki að verða erfiðar en það er því miður allt útlit fyrir það á þessari stundu að þær gætu orðið það og þegar hafa heyrst af því fréttir að einstaka stéttir búi sig jafnvel undir verkfallsátök.

Íslendingar eru ekki búnir að bíta úr nálinni með það ástand sem skapaðist í efnahagsmálum þjóðarinnar í kjölfar fjármálasukksins og að lokum hrunsins sem hér varð árið 2008 og við eigum sennilega enn nokkuð í land með að ná okkur eftir það áfall.

Nú, sem aldrei fyrr, er þörf á samstöðu þjóðar til sóknar fram á við til eflingar atvinnulífs, bættra kjara og uppbyggingu innviða samfélagsins sem margir hverjir hafa látið verulega á sjá eftir niðurskurð liðinna ára. Þessi leið er grýtt en við, sem þjóð, getum rutt úr vegi þeim hindrunum sem á vegi okkar verða. Það eina sem til þarf er samstaða!

Samstaða um leiðir!

Samstaða um jöfnuð!

Samstaða um velferð!

Samstaða um atvinnu!

Samstaða um Ísland!

Við bæði þorum, getum og viljum!

Það sem til þarf er samstaða þjóðar!

Ég þakka áheyrnina.

Til baka