Kjarasamningar 2013
13 sep. 2013
Nú styttist óðum í gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, bæði þeim almenna og hinum opinbera. Fulltrúar launþega og atvinnurekenda hittu fulltrúa ríkisstjórnar Íslands á fundi miðvikudaginn 11. september s.l. í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík. Að þeim fundi loknum má segja að orð fjármálaráðherra – sem reyndar hafa heyrst nokkrum sinnum áður, reyndar í mismunandi útgáfum, frá því að núverandi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum – „Menn verða að stilla kröfum í hóf og í samræmi við þá stöðu sem uppi er hverju sinni.“ hafi verið það sem staðið hafi upp úr frá fundinum.
Kröfum skal stillt í hóf, því það er einfaldlega lítið eða ekkert til skiptanna til að hækka laun á vinnumarkaði! Þetta helst reyndar afar vel líka í hendur við einar fyrstu yfirlýsingar sama fjármálaráðherra þegar hann boðaði frekari niðurskurð á fjárlögum. Í kjölfarið fylgdu svo ýmsar aðgerðir, sem sitt sýnist hverjum um, sem flestar miða að því að létta álögum af þeim sem best standa í þjóðfélaginu. Aðgerðir sem, eftir því sem margur sérfræðingurinn hefur haldið fram, kosta ríkissjóð milljarða í skatttekjur á komandi árum. Undarleg forgangsröðun, svo ekki sé meira sagt!
Enginn hefur farið varhluta af því ófremdarástandi sem virðist vera uppi á sjúkrahúsi allra landsmanna – Landspítalanum háskólasjúkrahúsi. Ljóst er að þar vantar hundruði milljóna ef ekki milljarða til að hægt sé að reka stofnunina sómasamlega þannig að hún standi undir nafni. Þannig er reyndar ástatt um margar aðrar ríkisstofnanir t.d. lögregluna , menntakerfið o.fl. og ljóst, á sama tíma, að þessar grunnstoðir samfélagsins verða ekki reknar nema inn komi skatttekjur.
Á sama tíma berast fréttir sem bera það með sér að skattaundanskot séu að aukast verulega. Hvernig skyldi það nú eiginlega vera með þessi skattaundanskot? Ætli þeir, sem það á annað borð stunda, geri sér almennilega grein fyrir því að á sama tíma og þeir taka meðvitaða ákvörðun um að greiða ekki skatt til hins opinbera eru þeir að gera rekstur þeirrar þjónustu – sjúkrahúsa, leik-, grunn- og háskóla, löggæslu, þjónustu við aldraða, fatlaða o.fl. sem reiða sig á aðstoð hins opinbera vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þeir geta ekki stundað vinnu eins og við hin sem búum við þann lúxus að halda fullri heilsu – ógerlega. Þjónustu sem þessir sömu „skattsvikarar“ óhikað vilja njóta og reyndar eflaust, sumir hverjir a.m.k. krefjast mjög háum röddum að reidd sé fram.
Við búum í samfélagi. Samfélagi manna. Samfélagi þar sem samneyslan og þjónusta hins opinbera er kostuð af okkur – engum öðrum en okkur í gegnum skattkerfi landsmanna. Það að stunda skattsvik og undanskot er í raun ekkert annað en að segja sig úr því samfélagi sem við viljum, treystum og trúum að sé til staðar þegar okkur skrikar fótur á lífsleiðinni.
Hófstilltar kröfur, biður fjármálaráðherra landsins um. Á sama tíma hafa verið vaktar væntingar um bjarta tíð og blóm í haga til handa heimilum landsins. Væntingar sem, skv. nýlegri grein í Fréttablaðinu, geta talist lögvarðar skv. eignaréttarákvæði stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu! Launþegar þessa lands gera alla jafna mjög hótstilltar kröfur í kjarasamningum. Mjög einfaldar grunnkröfur sem snúast um það eitt og einfaldlega að þeir geti lifað af launum sínum fyrir eðli- og venjulegan átta stunda vinnudag – fjörtíu stunda vinnuviku. Það eru ekki afarkröfur. Það eru ekki kröfur úr hófi fram. Það eru einfaldlega hófstilltar kröfur „í samræmi við þá stöðu sem uppi er hverju sinni.“