Fréttir

Ótrúlegt útspil SA vegna kjarasamninga!

22 nóv. 2013

Nýlegar sjónvarpsauglýsingar Samtaka Atvinnulífsins (SA) „Auglýsing SA og frétt DV“ verða að teljast heldur undarlegt – svo ekki sé meira sagt – útspil inn í þá vinnu sem nú er í gangi við gerð kjarasamninga.  Í auglýsingunni er því haldið fram að launakröfur þær sem verkalýðshreyfingin á Íslandi og þær launahækkanir, sem samið hefur verið um, undanfarin ár séu í raun rót þess vanda sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.

 

Landssamband lögreglumanna hvetur félagsmenn sína til að skoða vel þessa auglýsingu og lesa fréttina sem opnast með því að fylgja hlekknum hér að ofan.  Einnig eru félagsmenn hvattir til að lesa pistil Ingimars Karls Helgasonar, sem vísað er inn á úr frétt DV og aðra þá hlekki sem þar fylgja með.  Sú lesning, auk auglýsingarinnar, skýra sig sjálf.

 

Um leið og Landssamband lögreglumanna er sammála SA um að hér á landi þurfi eitthvað sem kalla mætti „Þjóðarsátt um betri lífskjör“ til þess að tryggja mannsæmandi afkomu launafólks, þá harmar það þær aðdróttanir, sem eru undirtónninn í auglýsingu samtakanna um að rót vandans, verðbólgunnar, slakra lífskjara, hárra vaxta o.s.frv., sé vegna óhóflegra launa og launakrafna launþega í landinu.

 

Vinnubrögð, á borð við það sem SA leggur upp með í þessari auglýsingu sinni, eru síst til þess fallin að skapa sátt á vinnumarkaði og/eða þjóðfélaginu!

Til baka