Fréttir

Sérstakur saksóknari – starfsmannamál

28 nóv. 2013

Málefni embættis Sérstaks saksóknara (ESS) hafa talsvert verið í umræðunni undanfarnar vikur vegna frétta af niðurskurði fjárveitinga til embættisins og einnig því að starfandi lögreglumenn þar hafa verið að fá upplýsingar um að þeirra starfskrafta verði ekki óskað á komandi vikum og mánuðum.  

Samkvæmt lögum um embætti Sérstaks saksóknara, með síðari breytingum, sbr. einnig frumvarp til laga um embættið, sem og umræðu á Alþingi á þeim tíma þegar embættið var stofnað þá hefur það legið fyrir frá upphafi að embættið væri tímabundin ráðstöfun, vegna efnahagshrunsins hér á landi og að það yrði lagt niður í núverandi mynd á árinu 2014.  

 

Lagaákvæðið sem um þetta fjallar, eftir að efnahagsbrotadeild RLS var færð til ESS gerir reyndar ráð fyrir því að ráðherra gæti, eftir 1. janúar 2013 lagt til að embættið verði lagt niður, sjá bls. 5 í skýrslu nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum en skýrslan var gerð opinber föstudaginn 15. nóvember s.l. (https://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28767):

 

„Í 7. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara er kveðið á um að ráðherra geti eftir 1. janúar 2013 lagt til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að embættið verði lagt niður og skal hann þá leggja fyrir Alþingi frumvarp þess efnis. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að verkefni embættisins hverfi þá til lögreglu eða ákærenda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála. Í lögum nr. 82/2011, sem tóku gildi 23. júní 2011 er að finna svofellt ákvæði til bráðabirgða:  

Innanríkisráðherra skal skipa nefnd sérfróðra manna að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti til þess að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Skal nefndin í störfum sínum hafa hliðsjón af skipan efnahagsbrotarannsókna annars staðar á Norðurlöndum. Skal nefndin skila ráðherra tillögum ásamt greinargerð eigi síðar en einu ári frá gildistöku laga þessara.“

 

Nefnd sú, sem um ræðir hér að ofan, sem Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík, veitti forstöðu lagði til tvær leiðir um framtíðarskipan þessara mála hér á landi en þær eru (sjá bls. 10 og 11 í skýrslunni):

 

„Fyrri leiðin:

Sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun til að taka við verkefnum embættis sérstaks saksóknara. Peningaþvættisskrifstofa verði færð frá ríkislögreglustjóra til nýrrar stofnunar. Sett verði upp sérstök deild er sinni endurheimtu ólögmæts ávinnings af brotum.

 

Stofnunin verði byggð upp á grunni embættis sérstaks saksóknara sem annist rannsóknir alvarlegra efnahagsbrota og fari jafnframt með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi (eða eftir atvikum milliákæruvaldsstigi) í þeim málaflokkum sem þar eru rannsökuð. Þetta embætti fari að lágmarki með rannsókn efnahagsbrotamála og ákæruvald í skattalaga- og efnahagsbrotamálum.“

 

„Síðari leiðin:

Sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun til að taka við verkefnum embættis sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra og eftir atvikum verkefnum er varða málshöfðanir ríkissaksóknara. Peningaþvættisskrifstofa verði færð frá ríkislögreglustjóra til nýrrar stofnunar. Sett verði upp sérstök deild er sinni endurheimtu ólögmæts ávinnings af brotum.

 

Um yrði að ræða tveggja eða eftir atvikum þriggja stoða stofnun sem fari með rannsóknir og ákæruvald í öllum skattalaga- og efnahagsbrotamálum. Undir þriðju stoð þessarar stofnunar myndu eftir atvikum heyra málshöfðun í sakamálum sem ríkissaksóknari annast nú. Þessi stofnun færi með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi (skilgreint sem lögreglustofnun) eða á milliákæruvaldsstigi (héraðssaksóknari) eftir því hvaða ákvörðun verður tekin um fyrirkomulag ákæruvalds.“

 

LL hefur ítrekað kallað á eftir svörum frá innanríkisráðuneytinu vegna þessara mála því það liggur fyrir að um fjörtíu (40) félagsmenn LL starfa hjá embættinu í dag en engin svör hafa fengist hingað til.  Eins og lagaáskilnaðurinn um ESS er í dag er staða þessara lögreglumanna algerlega í lausu lofti og ljóst, skv. lögum nr. 135/2008 um ESS, sbr. lög nr. 82/2011 um breytingu á lögum nr. 135/2008 að ákvæði lögreglulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til starfsmanna ESS:

 

Lög nr. 135/2008:

„2. gr.

     Dómsmálaráðherra skipar sérstakan saksóknara og skal hann veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. 1. gr. Skal hinn sérstaki saksóknari fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga. Hinn sérstaki saksóknari ræður annað starfsfólk embættisins.
     Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til hins sérstaka saksóknara. Skipun hans fellur niður þegar embættið verður lagt niður eða það sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr. Hinn sérstaki saksóknari heldur þá óbreyttum launum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Nú velst dómari til starfans og skal þá dómsmálaráðherra veita honum leyfi frá störfum á skipunartímanum.“

 

Lög nr. 82/2011 (um breytingu á lögum nr. 135/2011):

„2. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Sérstakur saksóknari ræður aðra starfsmenn embættisins en saksóknara. Heimilt er að skipa lögreglumenn sem hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins til starfa við embættið, en ákvæði lögreglulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til þessara starfsmanna. Skipun þeirra fellur niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr., en þeir skulu þá halda óbreyttum launakjörum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir ekki um ráðningu eða skipun samkvæmt þessu ákvæði.“

 

Þetta vill segja að ákvæði starfsmannalaganna og lögreglulaganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögreglumanna sérstaklega – m.t.t. lögreglulaganna – eiga einfaldlega ekki við og þeir lögreglumenn, sem starfa hjá ESS, halda launakjörum sínum einungis óbreyttum í þrjá mánuði frá þeim tíma að embættið er lagt niður eða sameinað annarri stofnun.  Þetta á líka átt við í þeim tilvikum, sem nú eru að koma upp, þar sem einstaka lögreglumönnum hefur verið gert það ljóst að vegna niðurskurðar á fjárveitingum til embættisins verði embættið að „láta þá fara“ enda er niðurskurður fjárveitinga til embættisins klárlega liður í niðurlagningu þess.

 

Samkvæmt tilvitnuðum lögum um ESS, eiga þeir lögreglumenn, sem ráðnir eru beint til ESS (þ.e.a.s. eru ekki á „lánssamningi“ frá fyrri“ embættum sínum) ekki endurkomu aftur til sinna fyrri starfa (né staða) hjá þeim embættum sem þeir störfuðu hjá áður en þeir hófu störf sín hjá ESS nema til komi eitthvað samkomulag á milli ESS og viðkomandi embættis og einnig að því gefnu að laus staða og fjárheimildir séu hjá fyrra embættinu.  Þá er einnig alveg ljóst, sbr. ofanritað, að þeir lögreglumenn sem starfa hjá ESS, eiga ekki rétt á flutningi á milli embætta í þeim stöðum og launakjörum sem þeir njóta hjá ESS.

 

Einhverjar misvísandi upplýsingar hafa verið á sveimi um ofangreint og raddir hafa heyrst, innan raða lögreglumanna, að sumir eða jafnvel allir starfsmenn ESS væru á leið til starfa hjá öðrum embættum og héldu stöðum sínum (lögreglufulltrúar eða þaðan af hærra) og launakjörum við flutninginn.  Það er ekkert hæft í þessum orðum eða orðrómi, enda lagaáskilnaðurinn um framkvæmdina við niðurlagningu ESS eða einstakra staða þar, alveg skýr sbr. ofanritað.  Starfsmenn ESS – lögreglumenn sem og aðrir – verða einfaldlega að sækja um lausar stöður innan lögreglu líkt og aðrir sem vilja fá störf í lögreglu.

Til baka