Fréttir

2014

25 feb. 2014

ÞESSI SÍÐA ER Í STÖÐUGRI VINNSLU OG MUN TAKA BREYTINGUM EFTIR ÞVÍ SEM UMRÆÐA UM SKIPULAGSBREYTINGAR Í LÖGREGLU ÞRÓAST HVERJU SINNI.

 

Þann 20. desember 2013 lagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, fram frumvarp um breytingar á lögreglulögum nr. 90/1996.

 

Frumvarpið fór til allsherjar- og menntamálanefndar eftir fyrstu umræðu þann 16. janúar 2014.  Nefndin sendi frá sér, með umsagnarfrest til 7. febrúar 2014.

 

Umsögn LL vegna frumvarpsins er hægt að lesa hér.

 

Umsagnir annarra umsagnaraðila er hægt að lesa hér.

 

Frumvarpið var afgreitt út úr nefnd, til annarrar umræðu, með breytingatillögu nefndarinnar og nefndarálits þann 24. febrúar 2014.  Nefndin hélt samtals sex (6) fundi þar sem frumvarpið var tekið til umræðu og ýmsir umsagnaraðilar kallaðir til fyrir nefndina.  Önnur umræða um frumvarpið, með breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar, var sett á dagskrá þingsins þann 25. febrúar 2014.

 

Ljóst er, af lestri breytingatillögu allsherjar- og menntamálanefndar þingsins að nefndin hefur einungis að afar litlu leyti tekið tillit til athugasemda LL við frumvarp innanríkisráðherra.  Ein helsta breytingin, sem sjá má að nefndin leggur til, er sú að lagt er til að starfandi verði sérstakur lögreglustjóri í Vestmannaeyjum þ.a. lögreglustjórar landsins verði níu (9) í stað átta (8) eins og frumvarp innanríkisráðherra hafði gert ráð fyrir.

 

Uppfært 25. mars 2014:

 

Frumvarpið um breytingu á lögreglulögum, sem gerð er grein fyrir hér að ofan og sett hafði verið á dagskrá Alþingis til annarrar umræðu þriðjudaginn 25. febrúar s.l., hefur enn ekki fengið afgreiðslu þingsins.  Þá hefur málið ekki verið á dagskrá þingfunda frá 76. þingfundi, sem haldinn var þriðjudaginn 18. mars s.l.  

Umræður þingsins hafa að mestu snúist um Evrópumál, frá því að frumvarpið var sett á dagskrá til annarrar umræðu og lítið sem ekkert annað rætt á þingfundum síðan.

Alls óvíst er hvort og hvenær málið verður sett aftur á dagskrá þingsins en skv. upphaflegri dagskrá eru einungis eftir fimmtán (15) þingfundadagar.

 

Uppfært 10. apríl 2014:

 

Enn hefur frumvarp innanríkisráðherra ekki fengið 2. umræðu á Alþingi frá því að það kom út úr allsherjar- og menntamálanefnd þann 25. febrúar s.l.

Málið var síðast inn á dagskrá 86. þingfundar sem haldinn var þann 01. apríl s.l. en hefur ekki verið á dagskrá þingfunda eftir það.  Þá er málið ekki að sjá á dagskrá þess þingfundar sem stendur yfir í dag.

Þegar þetta er skrifað eru átta (8) þingfundir eftir skv. dagskrá þingsins fram að þingfrestun þann 06. maí n.k.

 

Uppfært 3. júní 2014:

 

Frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögreglulögum sem miðaði að fækkun umdæma lögreglu var samþykkt sem lög nr. 51/2014 frá Alþingi 14. maí 2014.

 

Með því fækkaði lögregluembættum niður í níu (9) þ.e.:

 

  1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
  2. Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
  3. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum.
  4. Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra.
  5. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
  6. Lögreglustjórinn á Austurlandi.
  7. Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
  8. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
  9. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum.

Að auki eru áfram starfræki embætti Ríkislögreglustjórans og Lögregluskóli ríkisins.  Rétt er í þessu sambandi að hafa í huga að í skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar frá 11. nóvember 2013 kemur fram í 43. tölulið að gert er ráð fyrir því að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður í núverandi mynd og sameinaður embætti Ríkislögreglustjórans.

 

Umdæmabreytingarnar, sem fyrir er mælt um í samþykktri lagabreytingu, taka gildi þann 1. janúar 2015 og gert er ráð fyrir því að á þeim tíma taki ný embætti til starfa og jafnframt taki þau yfir réttindi og skyldur þeirra embætta sem sameinast skv. lögunum.  Engar breytingar eru ráðgerðar, í þessum efnum, gagnvar embættum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Til baka