Fréttir

Kjarasamningar 2014

10 ágú. 2014

Nú eru farnar að birtast fréttir í tengslum við það sem við er að búast í kjaraviðræðum haustsins.  Forseti Alþýðusambands Íslands hefur komið fram á ritvöllinn og m.a. látið hafa eftir sér að við sé að búast hörku í viðræðunum sem framundan eru.  Þar hefur hann m.a. bent á – án þess að skilgreina þá fullyrðingu sína á einn eða neinn hátt – að opinberir starfsmenn hafi fengið meira í sinn hlut í kjölfar kjarasamninga s.l. vor.  Fjölmiðlamenn gleypa við fullyrðingunum, athugasemdalaust og algerlega án þess að krefja forsetann svara um það hvaða opinberu starfsmenn eða hópa opinberra starfsmanna hann á við með fullyrðingum sínum.  Það er spurning hvort þessi fréttaflutningur sé dæmi um eftiröpun innihaldslausra fullyrðinga eða hreinlega arfaslaka fréttamennsku?  Hvað með spurningar til forsetans eins og t.d.: Hvaða hópa opinberra starfsmanna átt þú við?  Hvaða stjórnendur og millistjórnendur ert þú tala um?

Með þessu er pistlahöfundur ekki að segja að forsetinn hafi rangt fyrir sér.  Reyndar er hann sammála forsetanum í fullyrðingum hans að ákveðnu leyti en rétt er – ALLTAF – að varast alhæfingar!  Þannig fengu t.d. lögreglumenn ekki krónu meira í síðustu kjarasamningum en þau 2,8% sem um var samið af hálfu ASÍ.  Lögreglumenn – án verkfallsrétttar – eru opinberir starfsmennn sem, vegna verkfallssréttarleysis, hafa orðið að sætta sig við það skiterí sem ASÍ hefur ákveðið hverju  sinni að séu nógar launahækkanir til handa lægst launuðu félagsmönnum sínum.  Fulllyrðingar forsetans eiga því einfaldlega ekki við í tilviki lögreglumanna án verkfallsréttar, sem n.b. eru opinberir starfsmenn.  Ábyrgð fjölmiðla er talsverð.  Það er þeirra að upplýsa almenning um það sem er að gerast í samfélaginu.  Það er þeirra að kryfja málin.  Það er þeirra að leita svara við spurningum í stað þess að birta, athugasemdalaust, yfirlýsingar hinna ýmsu áhrifamanna í þjóðfélaginu án þesss að sinna rannsóknarskyldu sinni.  Rannsóknarskyldu sem felst í afar einföldum spurningum:  Hvað?  Hvar?  Hvernig?  Hver/hverjir?  Hvers vegna?

Að þessu skrifuðu er ekki verið að deila á forsetann vegna lélegra launahækkana því það má hann eiga alveg skuldlaust að hann afrekaði það og hefur afrekað undanfarin ár að marka afar léleg spor er kemur að launahækkunum hins almenna launþega.  Launahækkunum sem lögreglumenn hafa orðið – vegna verkfallsréttarleysis – að kyngja með því óbragði sem þeim hefur fylgt.

Pistlahöfundur er sammála forsetanum þegar hann kveður að því að kjarasamningar haustsins gætu orðið erfiðir og að jafnvel gæti komið til átaka.

Pistlahöfundur vill jafnframt minna forsetann á þá einföldu staðreynd að hann og þau samtök sem hann er í forsvari fyrir eru sporgöngumenn er kemur að launahækkunum í landinu.  Það sem samið er um á vettvangi ASÍ og SA markar allt það sem á eftir kemur!  ASÍ þarf því að standa fast í ístöðunum á sama tíma og ASÍ þarf að fá fleiri samtök launþega að borðinu þegar t.d. verið er að semja um aðild stjórnvalda að launa- og skattaumhverfi landsmanna.

Enginn er eyland í þessum efnum!

Til baka