Fréttir

Ólög!!

10 okt. 2014

Lögreglumenn eru ekki óvanir því að þurfa að sækja á ríkisvaldið, í gegnum dómstóla, með laun sín og önnur kjör.  Skemmst er að minnast auglýsingaherferðar Landssambands lögreglumanna, fyrir þónokkrum árum síðan, undir fyrirsögninni „Hvernig er það í þínu fagi?“ en þar vakti landssambandið athygli almennings á stöðu lögreglumanna er kom að launakjörum og öðrum umsömdum réttindum.  Það virðist lítið eða ekkert hafa breyst í samskiptum lögreglumanna (reyndar á það einnig við um fleiri stéttir opinberra starfsmanna einnig) er kemur að umsömdum launakjörum, já og m.a.s. lögbundnum réttindum!

Það verður að segjast hreint alveg eins og það er að það er að æra óstöðugan að þylja upp öll þau skipti sem Landssamband lögreglumanna og einstakir lögreglumenn hafa þurft að leita atbeina dómstóla landsins og Umboðsmanns Alþingis til að fá skorið úr um ákvæði kjarasamninga og skýrra laga er varða starfsumhverfi lögreglumanna.  Sömu sögu er að segja af öðrum stéttarfélögum opinberra starfsmanna og félagsmönnum þeirra.  Slíkt ástand getur engan vegin talist eðlilegt í samskiptum launþega og vinnveitenda!  Slíkt ástand hlýtur að benda til stórkostlegs stjórnunarvanda hins opinbera sem ráðherrar viðkomandi málaflokka hljóta að þurfa að skoða og taka á hverju sinni.  Það gerist hinsvegar afar sjaldan eða nokkurn tíma að ráðherra stígi fram og áminni forstöðumann einhverrar stofnunar fyrir slaka stjórnun.  Það gerist einfaldlega ekki og það þrátt fyrir að í viðhorfskönnunum á meðal starfsmanna lendi sömu stofnanirnar í neðstu sætum ár eftir ár.

Nú nýverið réðist enn einn ríkisstofnunarforstjórinn í ólöglegan gjörning gagnvart starfsmönnum sínum þegar sérstakur saksóknari tilkynnti það – vegna skertra fjárheimilda til embættisins – að hann hyggðist veita átta (8) lögreglumönnum, sem starfa við embættið lausn frá störfum.  Þvert gegn ákvæðum laga um embætti sérstaks saksóknara og þvert gegn ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna!  Enn eina ferðina þarf Landssamband lögreglumanna sennilega að leita á náðir dómstóla landsins til að fá skorið úr um réttindi félagsmanna sinna.  Landssamband lögreglumanna er alls ekki óvant slíku en það er hinsvegar hinn dæmigerði launamaður hins opinbera hinsvegar, hvort svo sem sá hinn sami er skipaður embættismaður eða ráðinn starfsmaður!  Launamaðurinn trúir því, í lengstu lög, að launagreiðandinn fari að lögum og standi við gerða samninga.  Það er reyndar talsvert ríkari krafa launþega til slíks gagnvart hinu opinbera – þó ekki væri nema vegna fagurgala á prenti um það að ríkið leitist við að vera í fremstu röð atvinnurekenda er kemur að aðbúnaði starfsfólks, samkeppnishæfni um framúrskarandi starfsfólk o.fl. í þeim dúr er prýðir hinar fegurstu starfsmannastefnur hannaðar af hámenntuðum mannauðsstjórum úti um allt.  Flest virðist hinsvegar benda til þess, gagnvart hinu opinbera, að slíkar hámenntastefnuyfirlýsingar og fagurgalar, séu einmitt það og einfaldlega það – FAGURGALAR!!  Það getur í það minnsta engan vegin samræmst nútíma starfsmannastefnum að fara ekki að lögum gagnvart starfsmönnum sínum líkt og er að gerast hjá sérstökum saksóknara gagnvart starfsfólki sínu almennt og lögreglumönnum sérstaklega!

Til baka