Fréttir

Lögreglan undirmönnuð og fjársvelt – vinnuslys lögreglumanna

14 sep. 2015

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum lögreglumanni umfjöllun fjölmiðla undir lok liðinnar viku þar sem annarsvegar var fjallað um nýútkomna árskýrslu Vinnueftirlitsins en umfjöllun um hana var birt á visir.is undir fyrirsögninni „Ríkið dregur lappirnar í vinnuvernd“.  Í skýrslunni er sérstaklega vikið að vinnuslysum lögreglumanna og kemur Kristinn Tómasson, yfirlæknir vinnueftirlitsins sérstaklega inn á að mikinn fjölda vinnuslysa lögreglumanna megi beinlínis rekja til langvarandi undirmönnunar lögreglunnar.  Í fréttinni segir m.a.:

 

„Hann [Kristinn Tómasson] segir að stærsti hópurinn sem um ræðir sé lögreglan – en einnig slökkvilið sveitarfélaganna svo og margir aðrir í fjölþættum störfum á vegum hins opinbera. Vandi lögreglunnar er varðar vinnuvernd sé mikill og viðvarandi undirmönnun rót þess vanda.“

 

Og nokkru síðar í fréttinni:

 

„Kristinn bætir við að ábyrgðin liggi hjá yfirmönnum viðkomandi stofnana og fyrirtækja hins opinbera en það breyti ekki því að skilaboðin þurfi að koma úr efsta stóli ráðuneytanna og frá ráðherra.“

 

Það voru sömuleiðis athyglisverðar fréttir sem bárust af útkomu nýrrar skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjórans „Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri brotastarfsemi“ en frétt um útkomu skýrslunnar birtist á mbl.is undir fyrirsögninni „Lögreglan undirmönnuð og fjársvelt“.  Í þessari frétt segir m.a.:

 

„Lög­regl­an á Íslandi er ekki fær um að halda uppi ásætt­an­legri frum­kvæðis­lög­gæslu vegna fjár­skorts og mann­eklu, Þetta kem­ur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra þar sem fjallað er um mat á skipu­lagðri brot­a­starf­semi, en vísað er til þess að þetta sé al­mennt mat lög­regl­unn­ar hér á landi.“

 

 Og nokkru síðar í sömu frétt:

 

„„Al­mennt tel­ur lög­regl­an á lands­byggðinni sig ekki færa um að halda uppi ásætt­an­legu ör­ygg­is­stigi sök­um fjár­skorts. Ljóst er að þetta ástand mála er einkum að rekja til niður­skurðar á fjár­veit­ing­um til lög­regl­unn­ar á síðustu árum,“ seg­ir í skýrsl­unni.“

 

Augljóst er að þessar tvær skýrslur, annarsvegar ársskýrsla vinnueftirlitsins og hinsvegar skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjórans kallast á um þann vanda sem blasir við lögreglunni á Íslandi.  Að sama skapi eru augljóst að ríkisvaldið, sem vinnuveitandi lögreglumanna, er beinlínis að stefna starfsmönnum sínum í voða með þeim gríðarlega niðurskurði sem orðið hefur á fjárveitingum til löggæslumála og þeirri staðreynd sem birtist í sífellt fækkandi fjölda starfandi lögreglumanna um allt land.

 

Það er vel að loksins sjáist þessar staðreyndir svart á hvítu í opinberum skýrslum en Landssamband lögreglumanna hefur verið að benda á þær um áraraðir – reyndar áratugaraðir – í umfjöllun um málefni stéttarinnar.  Viðbrögð ráðandi stjórnvalda á hverjum tíma hafa hinsvegar verið þau að hlaupa jafnharðan í fjölmiðla og draga úr trúverðugleika forsvarsmanna lögreglumanna.  Það er vonandi að stjórnvöld átti sig nú loksins á hinum raunverulega vanda sem Landssamband lögreglumanna hefur verið að benda á og geri gangskör í því að raunverulega efla lögregluna í landinu og tryggja þeim sem þar starfa mannsæmandi grunnlaun fyrir vinnu sína.

Til baka