Fréttir

Ræða formanns LL á baráttufundi LL, SFR og SLFÍ í Háskólabíó 15. september 2015

15 sep. 2015

Kæru félagar!

Ég ætla að fara með ykkur í smá ferðalag um kjarasamningssögu lögreglumanna.

Árið er 1960 og fyrr.  Löggæslan er rekin af sveitarfélögunum.  Lögreglumenn eru á pari við hjúkrunarfræðinga, kennara o.fl. í launum.

Árið er 1968.  Landssamband lögreglumanna er stofnað.   Tilgangur stofnunar landssambands er m.a. sá að ná samstöðu meðal lögreglumanna í atriðum er vörðuðu alla stéttina.  Þar undir voru líka kjaramál.

Það lá í loftinu að ríkið myndi taka yfir löggæslu í landinu og hér yrði stofnuð ríkislögregla.

Samstaða allra lögreglumanna um landið var því nauðsynleg.

Árið er 1986.  Lögreglumenn standa frammi fyrir því að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ætlaði sér að afnema verkfallsrétt stéttarinnar.

Árið 1977 hafði staðið yfir mikil deila á vinnumarkaði og verkföll allra vinnandi stétta.  Hið sama hafði átt sér stað árið 1984.

Þá voru lögreglumenn í verkfalli, líkt og aðrir opinberir starfsmenn.  Ríkisvaldið sá að þetta gat ekki gengið og hótaði lögreglumönnum afnámi verkfallsréttarins.  Það gat ekki gengið að varðmennirnir gerðu verkfall og leggðu niður vinnu.

Góð ráð voru dýr en við vissum sem var að okkur vantaði sennilega skóreimar í handónýta úthlutaða lögregluskó okkar eða eitthvað álíka glingur og ákváðum því að semja burt verkfallsréttinn þ.a. hann færi í það minnsta ekki óbættur í burtu.

Lögreglumenn höfðu sagt stöðum sínum lausum í stórum hópum.  Samstaða hafði náðst meðal stéttarinnar um aðgerðir til að knýja ríkisvaldið til samninga.

Samningar náðust og þvert gegn betri ráðleggingum m.a. Björns heitins Arnórssonar, hagfræðings BSRB, sömdu lögreglumenn verkfallsréttinn burt.

Samstaða stéttarinnar hafði riðlast!

Samstaða stéttarinnar, með öðrum stéttum hafði riðlast!

Samtakamátturinn var enginn orðinn!

Samningarnir voru samþykktir – líkt og flestallir aðrir samningar lögreglumanna – með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða

Við höfðum selt helgasta vopn stéttarinnar – verkfallsréttinn fyrir glerperlur – líkt og indíánar Norður Ameríku gerðu með Manhattan eyjuna.

Við höfðum í blindni trú á orðum stjórnmálamanna og tókum við perlunum.  Við fengum nýjar skóreimar!

Í samningnum fólst viðmiðun við tiltekna hópa opinberra starfsmanna og skyldum við fá meðaltalshækkanir þeirra hópa í launaumslög okkar.  Hagstofa Íslands skyldi sjá um útreikninga.  Hljómaði ágætlega og þarna var komin ákveðin og sanngjörn leið til að tryggja okkur – verkfallsréttarlausum og vopnlausum að öðru leyti í kjarabaráttu – sanngjarnar launabætur.

Blekið var ekki þornað á samningspappírunum þegar perlusölumennirnir settu upp sitt rétta andlit og sviku gefin loforð.  Þeir höfðu enda brotið á bak samstöðuna og unnið baráttuna.

Sigurinn var þeirra!

Árið er 2001.  Lögreglumenn hvaðanæva að af landinu ákváðu að fá sér göngutúr niður Laugaveginn og að Alþingi Íslendinga.

Það fór um ráðamenn.  Varðmennirnir voru óánægðir og sýndu óánægju sína með mjög stórri samstöðugöngu.  Ráðamennirnir fóru aftur að velta fyrir sér hvernig færi ef enginn væri til að gæta varðmannanna.

Samningar tókust um að semja burt það sem flestir álitu handónýtt viðmiðunarákvæði og þess í stað að sett inn ákvæði um gerðardómsleið sem hægt yrði að fara ef tannlaus og vopnlaus stéttin sætti sig ekki við fyrirliggjandi tilboð perlusölumannanna.

Samstaðan hafði skilað samningum sem samþykktir voru, enn og aftur, með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Árið er 2008.  Hér varð hrun.  Nú skyldu allir sameinast í þeim góða ásetningi að bjarga útrásarvíkingum við að endurheimta góssið.  Samningar skyldu markast af því að hækka lægstu launin og riðla þannig öllu samhengi launasetningar.

Samningar voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða enda allir sammála um að hjálpa Fálkaorðuhöfunum við endurheimt góssins.

Árið er 2011.  Lögreglumönnum er lofaður aftur verkfallsrétturinn af ekki ómerkari manni en sjálfum fjármálaráðherra landsins.

  • Hann viðurkenndi það að vísu í ræðustól Alþingis að honum hafi ekki unnist tími til að klára verkið áður en hann neyddist til að taka að sér annað ráðuneyti.

Árið er 2015.  Rykið er sest.  Fálkaorðuhafarnir eru farnir að stunda líkamsrækt á Kvíabryggju á kostnað okkar.

Nú ríður á samstöðu.

Það verður að halda aftur af launahækkunum, segja perlusölumennirnir, því annars fer allt hér í fyrra horf.

Voðinn er vís.

Það má að sjálfsögðu ekki horfa til gerðra samninga perlusölumannanna við þá sem hærri hafa launin.  Það gengur einfaldlega ekki að smælingjarnir fái það sama því það sér hver heilvita maður, að þá fer hér allt á hliðina.

Við verðum að sýna samstöðu við að halda launahækkunum okkar í lágmarki þ.a. Fálkaorðuhafarnir geti greitt sjálfum sér arðgreiðslur, bónusa, vildarpunkta o.fl. í samræmi við alla þá ábyrgð sem á þeim hvílir við að hlúa að peningunum.

Árið er enn 2015.  Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks setur forgangsmálin á oddinn.

Við skulum selja áfengið við hliðina á mjólkinni fyrir börnin okkar.  Það eru málin sem skipta máli.

Við skulum vega enn frekar að réttaröryggi ríkisstarfsmanna því það gengur jú ekki að forstöðumaður geti ekki rekið leiðinlega embættismanninn sem er sífellt að benda á einhverjar misfellur.

Það segir sig jú sjálft að það gengur ekki að ekki sé hægt að reka umsvifalaust lögreglumanninn sem vogar sér að hafa afskipti af ölvunarakstri, eða mögulegum öðrum lögbrotum, einhvers í efri lögum samfélagsins.

Við skulum vega að lífeyriskerfi þessara annars ónytjunga sem starfa hjá okkur og ofan í skítalaunin sem þeir fá skulum við reyna að minnka lífeyrisréttindin þeirra.

Ég á mér þann draum að við höfum þá greind að átta okkur á því að samstaða okkar ALLRA skiptir máli!

Ég á mér þann draum að við getum sent frá okkur þau sameiginlegu skilaboð héðan að við látum ekki bjóða okkur kjaftæði endalaust.

Ég á mér þann draum að við getum sent héðan þau skilaboð til perlusölumannanna að við höfum ekki áhuga á glerperlunum sem þeir vilja selja okkur.

Kæru félagar!

Samstaða er það eina sem dugar til að ná árangri!

Samstaða er það eina sem dugar til að brjóta á bak aftur óréttlæti!

Samstaða er það eina sem dugar til að ná fram sanngjörnum launaleiðréttingum!

Samstaða stétta er nauðsynleg!

Samstaða okkar skiptir máli og samstaða okkar er nauðsynleg!

Án samstöðu okkar allra munum við standa í stað eða fara aftur!

Kæru félagar!

Sýnum samstöðu!

Sýnum samtakamátt og stöndum saman öll sem eitt!

Til baka