Fréttir

Fjármálaráðherra hótar Landssambandi lögreglumanna lögsókn

8 okt. 2015

Landssamband lögreglumanna hefur móttekið í dag, boðsent bréf frá fjármálaráðuneytinu, hvers efni er að upplýsa LL um að ráðuneytið hafi undir höndum upplýsingar þess efnis að lögreglumenn hyggist grípa til ólöglegra vinnustöðvana dagana 9. og 10. október, 16. október sem og aftur dagana 27. og 28. október n.k.

 

Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið líti svo á að hér sé um að ræða ólöglegar aðgerðir og vinnustöðvanir af hálfu félagsmanna LL og jafnframt lýsir ráðuneytið fullri ábyrgð á þessum aðgerðum á hendur LL.  Þá kemur og fram í bréfinu að ráðuneytið muni, verði af þessum aðgerðum, leita allra lögmætra leiða, þ.m.t. að höfða mál á hendur LL til að koma í veg fyrir aðgerðirnar og / eða takmarka það tjón sem þessar ólögmætu aðgerðir kynnu að valda kæmu þær til framkvæmda.


Athygli lögreglumanna er hér með vakin á tilvitnuðu bréfi ráðuneytisins sem og þeirri staðreynd að þær aðgerðir, sem ráðuneytið vitnar til í bréfi sínu til formanns LL, eru ekki á neinn hátt undirbúnar af eða á ábyrgð LL.


Þá hvetur LL félagsmenn sína, af augljósum ástæðum, til að fara að lögum í hvívetna í tengslum við þá kjaradeilu sem LL á í um þessar mundir við ríkisvaldið.


Bréf ráðuneytisins í heild sinni er hægt að lesa hér.

Svar LL til ráðuneytisins er hægt að lesa hér í heild sinni

Til baka