Fréttir

Vopnamál lögreglu

16 des. 2015

 

Töluverð umræða hefur spunnist, undanfarnar vikur, um vopnabúnað lögreglu, geymslu vopnanna, aðgengi lögreglu að vopnum, þjálfun lögreglumanna á skotvopn o.fl. því viðvíkjandi.

 

Árið 2011 vann Landssamband lögreglumanna viðamikla könnun meðal félagsmanna sinna í hverri allmargar spurningar voru lagðar fyrir lögreglumenn um þjálfunarmál almennt, skotvopnaþjálfun, úthlutun lögregluembættanna á varnar- og hlífðarbúnaði til handa lögreglumönnum, aðgengi að valdbeitingarbúnaði o.fl.  Niðurstöður þessarar könnunar voru birtar í 1. tbl. Lögreglumannsins árið 2012 en hægt er að lesa blaðið hér á heimasíðu LL og þar með helstu niðurstöður könnunarinnar, sem sýndu það, í grófum dráttum, að talsvert skorti á þjálfun lögreglumanna, úthlutun embættanna á nauðsynlegum varnar- og hlífðarbúnaði sem og öðrum þeim búnaði sem lögreglumenn þurfa á að halda til framvæmd starfa sinna.

 

Þónokkur vinna hefur verið lögð í það undanfarin misseri að bæta úr ýmsu því sem bent var á, í tilvitnaðri könnun LL meðal félagsmanna sinna, en betur má ef duga skal í ljósi þeirrar manneklu sem er í lögreglu og þess fjársveltis sem lögreglan hefur búið við frá bankahruninu og reyndar löngu fyrir þann tíma.  Ljóst er að stjórnvöld þurfa að girða sig í brók í þessum efnum áður en verr fer en orðið er.

 

Vinnueftirlit ríkisins gagnrýndi stjórnvöld (innanríkisráðuneytið og yfirstjórnir lögreglu) harkalega í ársskýrslu sinni fyrir árið 2014 og birti LL frétt um þá gagnrýni þann 14. september s.l. hér á heimasíðu LL undir fyrirsögninni „Lögreglan undirmönnuð og fjársvelt – vinnuslys lögreglumanna“.  Gagnrýni Vinnueftirlitsins snéri að vinnuslysum lögreglumanna, sem því miður eru í hæstu hæðum, og skv. greiningum Vinnueftirlitsins er þar helst um að kenna undirmönnun í lögreglu.  Þá staðhæfði Vinnueftirlitið einnig að ábyrgðin á þessu ástandi lægi beint hjá stjórnvöldum – innanríkisráðuneytinu og yfirstjórnum lögreglu.

 

Þessi rökstudda gagnrýni Vinnueftirlitsins fær einnig stuðning í frétt sem birt var hér á heimasíðu LL þann 29. september s.l. undir fyrirsögninni „Staða lögreglunnar í stærra samhengi„.  Í þeirri frétt voru eftirfarandi tölulegar staðreyndir birtar fyrir árin 2000 – 2014:

 

Lögreglumönnum hefur fækkað um:                              10,79%

Lögreglubifreiðum hefur fækkað um:                             12,42%

Akstur lögreglubifreiða hefur dregist saman um:         35,32%

 

Íbúafjöldi á Íslandi hefur aukist um:                                16,71%

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um:                  229,34%

 

Ökutækjum á Íslandi hefur fjölgað um:                           49,30%

 

(heimildir sem notast var við eru tölulegar upplýsingar úr ársskýrslum Ríkislögreglustjórans sem og af vefjum Hagstofu Íslands, Ferðamálastofu og Samgöngustofu)

Til baka