Fréttir

Tyllidagar

23 des. 2015

Tyllidagar eru skemmtilegir dagar.  Það er á tyllidögum sem stjórnmálamenn standa á torgum og mæra, opinbera starfsmenn, fyrir fórnfúsa vinnu okkar í þágu samfélagsins.  Það er á tyllidögum sem forsætisráðherrar stíga á stokk og tala um mikilvægi almannaþjónustunnar.  Það er á tyllidögum sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar slá sér á brjóst og dást að öryggi landsmanna, heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða, menntakerfi sem á hvergi sinn líka, fínu og flottu hinu og þessu.  Tyllidagar eru skemmtilegir dagar.  Á tyllidögum finnst okkur, opinberum starfsmönnum, eins og við skiptum raunverulega einhverju máli fyrir það samfélag sem við höfum komið okkur upp og erum, sennilega að stærstum hluta til, sátt við að búa í.  Á tyllidögum finnst okkur Íslendingum við vera örugg, heilbrigð og með ákveðið öryggisnet sem grípur okkur ef við hrösum á vegferð okkar í gegnum lífið.

Erum við í raun og veru örugg.  Erum við í raun og veru heilbrigð.  Búum við í raun og veru við öryggisnet sem grípur okkur ef við föllum á vegferð okkar í gegnum lífið.

Sérhver skoði sjálfan sig, samfélagið og láti samvisku sína dæma í þessum efnum!

Vandinn við tyllidaga er hinsvegar sá að þeir eru ekki margir og því miður alltof langt á milli þeirra.  Á milli þeirra eru dagarnir þar sem við, opinberir starfsmenn, þurfum að eyða óratíma í það, að sannfæra alla þá sem mærðu okkur á tyllidögunum, um að sú þjónusta, sú vinna sem við innum af hendi, skipti raunverulega máli fyrir samfélagið. Vandinn við tyllidagana er m.a. sá að það skiptir engu máli það sem sagt er á þeim dögum.  Tyllidagar eru „stikk frí“ dagar!  Það einhvern vegin skiptir engu máli hvað sagt er eða gert á tyllidögum.  Tyllidagar eru dagar innantómra orða og loforða.

 

Brotin loforð

Það er svolítið skrýtin staðreynd, en staðreynd eigi að síður, að við skulum þurfa að standa í þeim sporum, opinberir starfsmenn, að reyna að sannfæra ráðamenn hverju sinni – þá sömu og mæra okkur og vinnu okkar á tyllidögum – um að sú vinna sem við innum af hendi skipti raunverulega máli fyrir samfélagið, öryggi okkar, heilbrigði, menntun o.fl.  Það er svolítið skrýtin staðreynd að við skulum þurfa að berjast fyrir og réttlæta þær stofnanir sem við vinnum hjá til að tryggja þeim rekstrarfé.  Hinar sömu stofnanir og tyllidagaloforðasnillingarnir komu á laggirnar.

Við, lögreglumenn, vorum t.d. taldir það mikilvægir samfélaginu – á tyllidögum, í kjölfar verkfallanna 1977 sem leiddu af sér „Sólstöðusamningana“ sem og verkfalls opinberra starfsmanna árið 1984 – að þáverandi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, með Jón Helgason sem dóms- og kirkjumálaráðherra (sem er reyndar sama ríkisstjórnarmynstur og er við lýði í dag) fannst það algerlega ótækt að lögreglumenn hefðu verkfallsrétt og afnam hann þess vegna með lögum árið 1986.  Með lögum og tyllidagaloforðum um að við myndum ekki bíða skarðan hlut frá borði er kæmi að launakjörum okkar!

Svo mikilvæg var lögreglan samfélaginu að það var talið óhugsandi, vegna öryggis ríkisins og alls almennings, að lögreglan gæti farið í verkfall.  Við fengum að vita það að störf okkar skiptu samfélagið það miklu máli, að hér á landi yrði nánast stjórnleysi ef við hefðum þau sjálfsögðu mannréttindi annarra launþega, að geta farið í verkfall.

Tyllidagar hafa þann eiginleika að geta, í ljósi sögunnar, breyst í sorgardaga. Ef hugur hefði fylgt máli árið 1986, þegar verkfallsrétturinn var afnuminn með lögum frá Alþingi, værum við lögreglumenn tæplega í þeim sporum sem við erum í í dag.  Að geta ekki lifað af grunnlaunum okkar nema með nánast ómældri yfirvinnu, vöktum, bakvöktum o.fl. sem n.b. er tilkomin vegna gríðarlegrar vöntunar á lögreglumönnum um allt land. Ef hugur hefði fylgt máli þegar við okkur var sagt að við hefðum yfir að ráða ákveðinni „launaþróunartryggingu“ þ.a. að þrátt fyrir verkfallsréttarleysið sætum við aldrei eftir við gerð kjarasamninga, þá værum við ekki staddir í þeim sporum sem við erum í í dag. Við værum ekki í þeim sporum að krefjast verkfallsréttarins aftur vegna vanefnda ríkisvaldsins gagnvart okkur.

Sá er þetta ritar væri ekki í þeim sporum að hafa horft framan í hæstvirtan þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, lofa því (innantómt) að það yrði skoðað af fullri alvöru að við fengjum verkfallsrétt okkar til baka í ljósi sögunnar og vanefnda ríkisvaldsins við gerð kjarasamninga okkar í kjölfar afnáms verkfallsréttarins. Sá er þetta ritar horfði með stjörnublik í augum til tyllidaganna og hreinlega neitaði að trúa því að svo háttsettur einstaklingur í ríkisstjórn Íslands væri ekki maður orða sinna.  Svo bregðast víst krosstré sem önnur tré segir einhversstaðar og hver þraut í lífinu skilar jú ákveðnum lærdómi.

Verða tyllidagarnir sorgardagar?

Það hafa fleiri ráðamenn og þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar, á hinu háa Alþingi, lofað því að taka upp þetta mál og tryggja að lögreglumenn fengju verkfallsrétt sinn aftur.  Það skaut því svolítið skökku við, þegar varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, lagði fram á þingi s.l. vetur lagabreytingatillögu þess efnis að lögreglumenn fengju verkfallsrétt sinn aftur, að málið yrði svæft í þingnefnd.  Svæft með þeim orðum að það væru ekki nægjanlega margir þingmenn né úr nógu mörgum flokkum að baki málinu, eða eitthvað álíka.  Svæft með þeim orðum að þetta væri jú bara þingmál einhvers varaþingmanns stjórnarandstöðunnar o.s.frv.  Hvað sem rétt er og satt í málinu er þó um það hægt að segja að það er dapurlegt.  Það er dapurlegt til þess að hugsa að á tyllidögum skiptum við samfélagið gríðarlega miklu máli í ræðu og riti.  Dagana þess á milli skiptum við, lögreglumenn, nákvæmlega engu máli líkt og aðrir ríkisstarfsmenn.  Erum álitnir afætur!

Á tyllidögum fara málpípurnar afar fögrum orðum um þá sem sinna almannaþjónustunni.  Alla hina dagana getum við hinsvegar etið það sem úti frýs!  Alla hina dagana erum við afætur.  Alla hina dagana finnst samtökum atvinnurekenda við hafa alltof mikil fríðindi á kostnað skattborgaranna (við erum víst ekki skattborgarar!).  Alla hina dagana þarf ekkert við okkur að tala um laun okkar og kjör að neinu leyti.  Alla hina dagana erum við í skuld við samfélagið sem af góðmennsku sinni leyfir okkur, allra náðarsamlegast, að vinna að öryggi, heill og hag landsmanna fyrir alltof há laun og alltof mikil fríðindi.  Alla hina dagana skiptir vinna lögreglunnar – reyndar allra annarra sem sinna almannaþjónustunni – litlu eða engu máli.  Við erum tyllidagafólk!  Við erum skrautfjaðrir tyllidaganna!  Þess á milli er réttast að einkavæða allt sem við gerum og færa „gróða“ samfélagsins í hendur einkavina.  Færa „virðisaukann“ úr heilbrigðisþjónustunni, lögreglunni, skólunum o.s.frv. í hendur fárra einstaklinga sem verða, fyrir vikið, ríkari og ríkari.  Þeir skipta jú öllu máli fyrir samfélagið!  Það eru þeir sem þora!  Það eru þeir sem drífa samfélagið áfram!  Þeir búa til peninga!  Þeir eru ekki í einhverri vitleysu við það að ala upp börnin okkar og kenna þeim muninn á tyllidögum og venjulegum dögum.  Þeir eru að búa til afleiður, vafninga, kúlur, sinna aflandsviðskiptum og hvað þetta nú heitir allt saman sem er svo frábært.

Ef við viljum ekki að tyllidagarnir reynist sorgardagar í ljósi sögunnar þarf að grípa til aðgerða og sýna að á þeim hafi ekki aðeins flogið orðin tóm. Tækifærið er núna!

Til baka