Fréttir

Opnunarræða formanns LL við setningu 33. þings LL 2016

25 apr. 2016

Kæru þingfulltrúar!

 

Kæru félagar!

 

Ég vil í upphafi byrja á því að biðja ykkur um að rísa úr sætum og votta látnum félögum okkar virðingu með einnar mínútu þögn.

 

Þakka ykkur fyrir!

 

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til 33. þings Landssambands lögreglumanna.

 

Þetta þing okkar er haldið í skugga fráfalls félaga okkar og stjórnarmanns í stjórn LL, Ríkharðs Arnar Steingrímssonar.  Sviplegt fráfall hans s.l. fimmtudag setur okkur öll hljóð.  Það sýnir okkur að lífið er hverfult.  Veröldin er ekki öll þar sem hún er séð.  Lífið er ekki sjálfgefið.  Heilsa er ekki sjálfgefin.  Morgundagurinn er ekki sjálfgefinn.  Amstur hversdagsins er hjómið eitt í stóra samhengi hlutanna.

Ríkharður Örn var fylginn sjálfum sér.  Hann kom oft með nýja og öðruvísi sýn á hlutina á stjórnarfundum LL.  Hann fór ótroðnar slóðir í nálgun sinni á þeim viðfangsefnum sem stjórn LL hefur verið að fást við undanfarin misseri.  Hann var maður orða sinna.  Hann var kær vinur.  Hann var góður félagi.  Hans verður sárt saknað.

Við vottum eftirlifandi eiginkonu hans og börnum okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

 

Undanfarin tvö ár hafa í sjálfu sér, verið lítið frábrugðin öðrum þeim árum sem liðin eru frá bankahruninum árið 2008.

Öll árin, frá hruni, hafa einkennst af niðurskurði, skipulagsbreytingum og fækkun lögreglumanna.

Öll árin hafa einkennst af afneitun stjórnvalda hvers tíma fyrir raunverulegri stöðu löggæslu- og öryggismálum þjóðarinnar.

 

Það var ekki fyrr en með aðkomu Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi formanns BSRB, í ráðherrastól innanríkisráðuneytisins að viðurkennt var, árið 2012, að niðurskurður hafði átt sér stað til löggæslumála.  Niðurskurður sem nam, á verðlagi þess tíma, um þremur milljörðum króna.  Niðurskurður sem nam um helmingi alls þess fjár sem varið var til löggæslu á árinu 2012.  Niðurskurður sem nam nánast öllu rekstrarfé stærsta lögregluliðs landsins.

 

Margur hefur kveinkað sér undan minna!

 

Lögreglan hefur, í gegnum tíðina, lítið eða ekkert kveinkað sér.  Við lögreglumenn höfum í gegnum tíðina lítið kveinkað okkur.  Við höfum staðið okkar plikt.  Við höfum staðið vaktina, sama á hverju hefur dunið.  Við höfum tekið við saurnum, þvaginu, eggjunum, skyrinu, rotnu tómötunum, hávaðanum, skoteldunum, gangstéttarhellunum, svívirðingunum, ópunum, köllunum, öskrunum og örðu því sem fleygt hefur verið að okkur en ætlað í raun öðrum.

 

Við höfum staðið frammi fyrir kalli þjóðar eftir breytingum.  Kalli þjóðar eftir gegnsæi.  Kalli þjóðar eftir heiðarleika.  Kalli þjóðar eftir sanngirni.  Kalli þjóðar eftir samtali.  Kalli þjóðar eftir jöfnuði.  Kalli þjóðar eftir upplýsingum.  Kalli þjóðar eftir trúverðugleika.

 

Lögreglan hefur staðið vaktina!

 

Við höfum tekið á okkur þær byrðar sem lagðar hafa verið á okkur.  Við höfum verið sómi Íslands, sverð þess og skjöldur.

 

Við höfum þrengt í sultarólinni.  Við höfum sýnt þeim byrðum skilning, sem á okkur hafa verið lagðar.  Við höfum staðið okkar vakt!

 

Það sama er því miður ekki hægt að segja um stjórnvöld undanfarinna ára.  Að undanskyldum fyrrverandi formanni BSRB, Ögmundi Jónassyni, sem hafði kjark, þor og þrek til að segja hlutina eins og þeir voru árið 2012.  Nokkuð sem LL var margítrekað búið að benda á bæði í ræðu og riti.  Hann hafði kjark, þor og þrek til að segja það sem við öll vissum.  Að skorið hafði verið verulega niður við öryggi þegna þessa lands.  Hann hafði kjark, þor og þrek til að segja að sú ríkisstjórn, sem hann tilheyrði, var ekki að standa sig í stykkinu gagnvart löggæslu þessa lands.  Var ekki að standa sína plikt í því að gæta að öryggi borgaranna.  Hafði kjark, þor og þrek til að segja að fyrri ríkisstjórnir höfðu staðið sig álíka illa í þessum efnum.

 

Því miður virðist staðan samt vera sú að fyrri ríkisstjórnir, sem og sú sem nú starfar, hafa lítinn eða engan áhuga haft á því að skipta um gír í þessum efnum.

 

Árið 2012 fékkst samþykkt á Alþingi Íslendinga þingsályktunartillaga um gerð löggæsluáætlunar fyrir Íslands.  Áætlunar sem miðar að því að skilgreina öryggisstig á Íslandi, þjónustustig lögreglu, mannaflaþörf lögreglu og það hversu mikið það í raun kostar að halda úti löggæslu á Íslandi.  Hvað það í raun kostar að viðhalda öryggi lands og þjóðar.  Þessi vinna er og hefur verið í gangi undanfarin ár og mánuði.  Það sér fyrir lok þessarar vinnu á næstu mánuðum og vonandi ber stjórnvöldum gæfa til að nýta sér hana til að snúa við blaðinu í löggæslumálum þjóðarinnar.  Það er í öllu falli ljóst að það verður ekki öllu lengur unað við óbreytta stöðu í þessum efnum.

 

Menntunarmál lögreglumanna hafa verið talsvert í deiglunni undanfarin ár og allt útlit er fyrir nú, að menntun íslenskra lögreglumanna verði á pari við þá menntun sem best gerist á hinum Norðurlöndunum.  Það er að segja ef áform núverandi ríkisstjórnar ganga eftir að færa menntun lögreglumanna upp á háskólastig.  Þessi áform eru í fullu samræmi við stefnu Lögregluskóla ríkisins eins og þau birtast í skýrslu skólans um nýtt menntunarkerfi fyrir lögregluna frá árinu 2004.  Þau eru einnig í fullu samræmi við stefnu LL í þessum efnum frá því árið 2008 og reyndar löngu fyrir þann tíma.

 

Það eru að vísu ákveðin óveðursský á lofti þessa dagana í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram úr svokölluðum Panamaskjölum og óvíst hvort núverandi ríkisstjórn endist aldur til að klára þau mál sem hún ætlar sér að klára fyrir boðaðar þingkosningar í haust.  Að sama skapi hafa þessi óveðursský möguleg áhrif er kemur að þeim kjarasamningum sem gengið var frá á vinnumarkaði s.l. haust.  Hluti þeirrar vinnu snéri að þingmáli um húsnæðismál, sem allt útlit er fyrir núna að sé í ákveðnu uppnámi.  Við getum því mögulega verið að horfa upp á það í byrjun nýs árs að kjarasamningum verði sagt upp en á þessari stundu er að vísu aðeins of snemmt að segja til um niðurstöðu í þeim efnum.

 

Það er von mín að þetta þing nái að starfa saman í sátt og samlyndi að því sem því er ætlað þ.e.a.s. að vinna að stefnumörkun í þeim málum er snerta lögreglumenn til næstu ára  Það er von mín að horft verði til aðalatriða í þeim efnum og minni tíma eytt í óþarfa karp um smá- og aukaatriði.

 

Þing okkar, sem haldið var að Hótel Geysi í Haukadal árið 2014, var óvenjulegt fyrir margar sakir en þær helstar þó að strax upp úr hádegi fyrsta þingdaginn var hægt að hefja nefndastörf þingsins.  Það er hvorutveggja til fyrirmyndar og eftirbreytni.

 

Það er undir ykkur komið, sem hingað eru kosin í umboði félaga ykkar um allt land, að hér fari fram málefnaleg umræða og vinna þar sem einblýnt verður á aðalatriði og skýr stefna mörkuð til næstu ára.  Það er undir ykkur komið að sjá til þess að það megi verða!

 

Að þessum orðum sögðum lýsi ég 33. þing Landssambands lögreglumanna sett og á sama tíma geri ég það að tillögu minni að þingforseti verði kjörinn Jónas S. Magnússon.

Til baka