Fréttir

Setningarræða formanns LL við upphaf Special Olympis“ 2016

10 maí. 2016

Kæru keppendur og aðrir gestir

Ísland er nú í sjötta skiptið að taka þátt í alþjóðlegu samstarfsverkefni lögreglunnar og Special Olympics.  Lögreglumenn og konur um allan heim hafa tekið þátt í því að hlaupa með logandi kyndil að keppnisstöðum þar sem eldur leikanna er kveiktur.

Markmið kyndilhlaupsins er að vekja athygli á leikum samtakanna.  Ísland leggur fyrst og fremst áherslu á að skapa jákvætt samstarf þar sem ávinningur samstarfs skilar sér til beggja aðila, Special Olympics á Íslandi og íslensku lögreglunnar.  Góð ímynd er mikilvæg í öllu starfi Special Olympics og sama gildir um starf lögreglumanna um allan heim.  Það er því vel við hæfi að tengja saman þessa ólíku hópa í verkefni sem sameinar og hvetur til þátttöku, jafnt í heimalandi sem á alþjóðavettvangi.

Á 33. þingi Landssambands lögreglumanna (LL), sem haldið var í liðinni viku, var tekin sú ákvörðun að LL tæki að sér það hlutverk að vera bakhjarl Kyndilhlaups lögreglumanna á Íslandi (Law Enforcement Torch Run).  Í því sambandi mun LL halda utan um fjárreiður tengdum Kyndilhlaupinu og mun í tengslum við það koma upp sérstökum reikningi þar sem m.a. verður hægt að leggja inn söfnunarfé.  Þá mun LL halda utan um bókhald tengdu Kyndilhlaupinu og til að halda utan um þennan þátt ákvað þingið að setja á laggirnar sérstaka nefnd „Kyndilhlaupsnefnd“ sem sjá mun um rekstrarlega þætti Kyndilhlaupsins.

Það er sérlega gaman frá því að segja að tillaga þessi var samþykkt einróma á þinginu.

Mér er það sönn ánægja að sinna því hlutverki sem mér er falið nú, sem er að kveikja eld Íslandsleikanna 2016 ásamt keppanda í Special Olympics.

Góða skemmtun og gangi ykkur öllum vel í keppninni í dag.

Íslandsleikar Special Olympics 2016 eru settir.

Til baka