Fréttir

„Samstaðan mun skila okkur góðum kjarasamningi“

19 des. 2019

Fyrirsögn þessarar fréttar er fyrirsögn pistils Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB í nýjasta pistli hennar á heimasíðu BSRB.

Í pistlinum fer Sonja Ýr yfir ýmis þau mál sem BSRB hefur verið að vinna að undanfarin misseri auk yfirstandandi kjarasamningsviðræðna.  Um stöðuna í kjaraviðræðum segir Sonja Ýr m.a.:

„Hugað að aðgerðum í byrjun árs

Við erum að vinna að mestu breytingum á vinnutíma opinberra starfsmanna frá því lög um 40 stunda vinnuviku voru sett fyrir nærri hálfri öld síðan og það skiptir máli að vanda til verka. Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur verið krafa BSRB um langt árabil og þegar ekki sér til lands eftir níu mánaða viðræður er ljóst að við þurfum að endurskoða aðferðafræðina.

Í gegnum tíðina hafa opinberir starfsmenn þurft að standa í harðvítugri baráttu til að ná fram mikilvægum kjarabótum. Þar hefur skipt gríðarmiklu máli sú góða samstaða sem náðst hefur og sá þrýstingur sem sameinað afl rúmlega 22 þúsund félagsmanna í aðildarfélögum BSRB getur beitt.

Á nýju ári þurfum við á þessari samstöðu að halda enn á ný. Það er full samstaða innan BSRB um að ekki verði gengið til kjarasamninga nema fólk geti lifað af á launum sínum, vinnuvikan verði stytt hjá bæði dagvinnufólki og gengið enn lengra hjá vaktavinnufólki, tekið verið skref í átt að jöfnun launa á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og samið verði um bætt starfsumhverfi og launaþróunartryggingu.

Tíminn er runninn frá okkur. Við getum ekki beðið samningslaus, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Viðsemjendur geta ekki sýnt okkar félagsmönnum þá vanvirðingu að draga samningaviðræður von úr viti. Nú þurfum við að beita þeim vopnum sem við höfum til að tryggja þetta mikla hagsmunamál. Breytist viðhorf viðsemjenda okkar ekki snarlega á nýju ári má búast við að við förum að huga að aðgerðum snemma á næsta ári.“

 

Til baka