Fréttir

Samkomubann tekur gildi á mánudag

13 mar. 2020

Heilbrigðisráðherra tilkynnti í morgun þá ákvörðun að virkja heimildir sóttvarnarlaga til að takmarka samkomur vegna COVID-19. Samkomubannið tekur gildi á miðnætti, aðfararnótt mánudags, og gildir til og með mánudeginum 13. apríl, eða í fjórar vikur.

Bannið gildir um viðburði þar sem fleiri en hundrað manns koma saman og ná takmarkanirnar til alls landsins. Tryggja þarf að meira en tveir metrar skilji fólk að á öllum viðburðum.

Háskólum og framhaldsskólum hefur verið lokað en kennsla mun fara fram með rafrænum hætti. Grunn- og leikskólar munu áfram verða opnir en með breyttu sniði. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gefið út að allir leik- og grunnskólar verði lokaðir á mánudag, svo unnt sé að skipuleggja framhaldið.

Skipulagðir viðburðir sem bannið nær til eru til dæmis:

Ráðstefnur, málþing, fundir og hliðstæðir viðburðir.

Skemmtanir, s.s. tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi.

Kirkjuathafnir hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.

Nánari leiðbeiningar er að finna á vef stjórnvalda, www.covid.is.

Landssamband lögreglumanna hvetur félagsmenn sem og almenning að kynna sér leiðbeiningar stjórnvalda gaumgæfilega.

Til baka