Fréttir

Bakvarðasveit lögreglu sett á fót

27 mar. 2020

Á meðal þeirra aðgerða sem ríkislögreglustjóri mun grípa til vegna Covid-19 er að stofna bakvarðasveit lögreglunnar. Þetta kom fram í máli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, nýráðins ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þar ræddi Sigríður þær áskoranir sem blasa við lögreglunni á tímum kórónuveirunnar. Fram kom í máli hennar að lögreglu hafi borist ýmsar ábendingar um brot á því samkomubanni sem hefur verið í gildi á Íslandi en að fæstar þeirra hafi átt við rök að styðjast. Hún sagði að lögreglan myndi gjarnan vilja nýta krafta sína í annað.

Sigríður kynnti nýsamin fyrirmæli um viðmiðunarfjárhæðir sekta fyrir brot á sóttvarnarlögum og samkomubanni. Brot gegn skyldu til að vera í sóttkví geta varðað 50 til 250 þúsund krónur sektum en brot gegn reglum um einangrun á bilinu 150 til 500 þúsund krónur. Brot gegn reglum samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu getur varðað sekt á bilinu 100 til 500 þúsund krónur.

Um bakvarðasveitina, sem sett verður á fót í dag, kom fram að Sigríður Björk vonaðist til þess að til hennar þyrfti ekki að grípa. Um væri að ræða hóp menntaðra lögreglumanna sem gegndi öðrum störfum en gætu komið til aðstoðar ef á þyrfti að halda. „Það eru margir að bjóða fram krafta sína og það er verið að koma strúktúr á þetta og nýta þá auðlind sem við höfum,“ sagði Sigríður.

Til baka