Fréttir

Lögreglumenn í sóttkví fái greidd laun

6 júl. 2020

BSRB krefst þess að þeir lögreglumenn sem hafa þurft að fara í sóttkví fái greidd laun fyrir þann tíma og að vaktafrí frestist þar til þeir eru lausir úr sóttkví. Þetta kemur fram á vef BSRB.

Þar segir að upp hafi komið tvö tilvik þar sem lögreglumenn hafi þurft að fara í sóttkví eftir að hafa í starfi sínu þurft að hafa afskipti af einstaklingum sem grunur léki á að hafa verið með COVID-19 smit. Í báðum tilvikum hafi það verið afstaða yfirmanna þeirra að þeir eigi ekki rétt til greiðslna á meðan þeir dvelja í sóttkví, fjarri heimili sínu og fjölskyldum. Þá hafi yfirmennirnir talið að þeir fengju ekki aukinn frítökurétt vegna vaktafrídaga sem þeir eiga að fá á meðan þeir eru í sóttkvínni.

BSRB telur með öllu óásættanlegt að framlínufólki eins og lögrelgumönnum sé ekki bættur sá frítími sem þeir neyðast til að eyða í sóttkví vegna þess að þeir hafa orðið útsettir fyrir smiti af lífshættulegum sjúkdómi í störfum sínum. „„Lögreglumenn eru framlínufólk í öllum skilningi þess orðs. Þeir mæta almennt fyrstir á vettvang og hafa ekki val um það hvort þeir sinni útkalli þegar eftir þjónustu þeirra er leitað. Þeir eru oftar en ekki ómeðvitaðir um það hvað bíður þeirra og eru berskjaldaðir gagnvart utanaðkomandi ógn eins og smitsjúkdómum,“ segir meðal annars í bréfi BSRB til lögreglustjóranna.

BSRB gerir þá kröfu að lögreglumenn fái greiddar yfirvinnustundir fyrir þann tíma sem þeir verja í sóttkví utan skilgreindra vakta. Það sé eðlilegt endurgjald fyrir þá áhættu sem þeir taka í sínum störfum og þá staðreynd að þeir glata dýrmætum frítíma af þeim sökum.

Bréf réttindanefndar BSRB, til allra lögreglustjóra, er hér.

 

Til baka