Fréttir

Óttast fjölgun hryðjuverka á komandi árum

8 nóv. 2020

Hundrað og nítján hryðjuverkaárásir voru tilkynntar í þrettán aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 2019. Talan endurspeglar árásir sem heppnuðust, misheppnuðust og árásir sem voru stöðvaðar. Frá þessu er greint í skýrslu Europol fyrir Evrópusambandið um hryðjuverk, sem birt var í sumar. Þar kemur fram að mesta hryðjuverkaógnin innan Evrópusambandsins stafi af jihadistum og hryðjuverkamönnum sem aðhyllast öfga-hægristefnu.

Skýrsluhöfundar óttast að tíðni hryðjuverka kunni að aukast í Evrópu þegar Evrópubúar í Írak og Sýrlandi, með tengsl við Íslamska ríkið, halda heim á leið. Fram kemur að hundruð evrópskra ríkisborgara séu enn í þessum löndum. Dæmi séu um að aðstæður hafi myndast innan evrópskra fangelsa þar sem jihadistar hafa náð að smita samfanga sína af rótækum hugmyndum, sem skapað geta vandamál þegar þeir losna úr haldi.

Þá óttast skýrsluhöfundar að efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins geti kynt undir rótækni einstaklinga og hópa, og aukið hættu á hryðjuverkaárásum, óháð hugmyndafræðilegum bakgrunni.

Ungir menn á sakaskrá oftast gerendur

Heildarfjöldi árása í fyrra dróst saman frá árunum á undan. Það er rakið til þess að árásum tengdum þjóðernis- eða aðskilnaðarhreyfingum fækkaði, meðal annars á Spáni og í Frakklandi. Þrátt fyrir þá fækkun var stærsta hlutfall tilkynntra árása tengt slíkum hreyfingum. Af 119 hryðjuverkaárásum í fyrra voru 57 úr þeim ranni. Athugið að þrátt fyrir þann fjölda er ógnin talin meiri af jihadistum og öfga-hærihópum, eins og fram kemur hér að framan.

Aukning varð á árásum frá lýðveldissinnum á Norður-Írlandi og öðrum jaðarhreyfingum víða um álfuna. Í skýrslunni segir að flestar árásirnar 2019 hafi verið framdar af mönnum á aldrinum 16 til 28 ára, af mönnum á sakaskrá, sem fæddir eru innan Evrópusambandsins.

Tíu féllu

Í þessum 119 hryðjuverkaárásum voru tíu manns drepnir. Tuttugu og sjö slösuðust. Ríflega þúsund einstaklingar voru handteknir vegna gruns um aðild að hryðjuverkum, flestir í Belgíu, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi. Flestir voru handteknir á Bretlandseyjum, 281 en 224 voru handteknir í Frakklandi.

 

Eins og áður segir fjölgaði öfga-hægrihryðjuverkum á milli áránna 2018 og 2019. Öfga-hægrihryðjuverk voru sex árið 2019 en eitt árið á undan. Í skýrslunni segir að auk þessara tilvika hafi verið framdar öfga-hægriárásir á Nýja-Sjálandi, í Bandaríkjunum, í Noregi og í Þýskalandi þar sem gerendur voru hluti af alþjóðlegum samfélögum á netinu, og hafi sótt innblástur hver til annars. Öfga-vinstriárásum fjölgaði einnig árið 2019 og voru þær bundnar við Grikkland, Ítalíu og Spán. Þær árásir voru 26 talsins samanborið við 19 árið á undan. Árásirnar voru yfirleitt tengdar ofbeldisfullum mótmælum og átökum við lögreglu.

Í skýrslunni segir að öll dauðsföllin (10) og meiðslin (27) í hryðjuverkaárásunum 2019 hafi orðið fyrir tilstuðlan jihadista. Þegar litið er á atvik utan Evrópusambandsins kemur í ljós að 17 ríkisborgarar ríkja í Evrópusambandinu létust í hryðjuverkaárásum. Það var í árásunum á Sri Lanka að morgni Páskadags, 21. apríl 2019, þar sem fjölmargir týndu lífi.

Hryðjuverkaárásir síðustu þriggja ára

Árásir sem heppnuðust, misheppnuðust eða komið var í veg fyrir
2019 2018 2017
Jihadistar 21 24 33
Hægri-öfgasinnar 6 1 5
Vinstri-öfgasinnar 26 19 24
Þjóðernis- og aðskilnaðarhreyfingar 57 83 137
Stök tilfelli 3 1 0
Ótilgreint 6 1 6
Samtals 119 129 205
Heimild: Europol

 

Hvað er Europol?

Evrópska lögregluskrifstofan (e. European Police Office, EUROPOL) er löggæsla Evrópusambandsins. Hlutverk hennar er að aðstoða aðildarríkin við að uppræta alþjóðlega glæpastarfsemi. Lögregluskrifstofan vinnur einnig náið með löggæsluyfirvöldum í ríkjum sem ekki eru aðildarríki Evrópusambandsins, svo sem Kanada, Ástralíu, Bandaríkjunum og Íslandi.

Evrópska lögregluskrifstofan hefur ekki handtökuvald en aðstoðar ríkin við að afla, greina og miðla upplýsingum sem tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Innan evrópsku lögregluskrifstofunnar starfa 145 tengiliðir (e. Europol Liasion Officers, ELOs) frá öllum samstarfsríkjum hennar. Eru þeir fulltrúar sinna löggæsluyfirvalda og starfa innan lagaramma síns heimaríkis. Tengiliðirnir sjá um samskipti lögregluskrifstofunnar við samstarfsríkin.

Þann 1. janúar 2010 varð evrópska lögregluskrifstofan fullgild stofnun en hún hafði þá starfað frá árinu 1995. Núverandi forstjóri er Catherine De Bolle frá Belgíu. Höfuðstöðvar lögregluskrifstofunnar eru í Haag í Hollandi.

Byggt á grein á Evrópuvefnum.

Grein úr Lögreglumanninum / nóvember 2020.

Til baka