Fréttir

Hærri laun og færri vinnustundir

8 nóv. 2020

Lögreglumenn samþykktu breytingar og framlengingu á kjarasamningi Landssambands lögreglumanna (LL) og ríkisins í atkvæðagreiðslu miðvikudaginn 23. september 2020 með 59% greiddra atkvæða.

Samningurinn er að fullu afturvirkur frá 1. apríl 2019 og gildir til 31. mars 2023. Með þeirri afturvirkni eru lögreglumönnum tryggðar þær launahækkanir sem kveðið er á um í lífskjarasamningnum svokallaða, sem margir aðrir hópar samfélagsins sömdu um vorið 2019.

Forsendur samningsins eru áþekkar umræddum lífskjarasamningum. Launaflokkar hækka um 17.000 krónur 1. apríl 2019 og 18.000 krónur 1. apríl 2020. Samtals kemur því 35 þúsund króna launahækkun hjá lögreglumönnum fram strax við gildistöku samningsins.

Þann 1. janúar næstkomandi tekur ný launatafla gildi, ásamt nýjum stofnanasamningi. Í þeirri breytingu felst að laun hækka að lágmarki um 4 prósent. Ári síðar, 1. janúar 2022, kemur svo síðasta hækkun samkomulagsins til framkvæmda en þá hækka laun um 3,5 prósent.

Launin hækka minnst um 68 þúsund

Heildarhækkun launa á samningstímanum er á bilinu 15,8 til 17,5 prósent. Þeir sem hafa lægstu launin hækka mest hlutfallslega. Minnsta hækkun launa á samningstímanum er rúmar 68 þúsund krónur en dæmi eru um meiri hækkanir. Þannig má nefna að lögreglumaður í launaflokki níu, í þrepi sex, með fimm ára starfsreynslu hefur 385.107 krónur í laun samkvæmt gamla samningnum. Eftir hækkanirnar tvær, sem þegar koma til framkvæmda, verða launin 404.657 krónur. Launin verða 442.371 króna á mánuði frá næstu áramótum og svo 457.854 krónur eftir hækkunina 1. janúar 2022. Laun hans hækka því samtals um 72.747 krónur á mánuði í launum á samningstímabilinu, eða um 17,69 prósent.

Í samningunum er líka kveðið á um „önnur laun“ sem fylgja starfinu. Heimilt er að greiða önnur laun með mánaðarlegri greiðslu, svo sem reglubundin yfirvinna og starfstengt álag, sem ekki verður mælt í tíma. Þessi laun geta komið í stað yfirvinnukaups. Jafnframt verður heimilt að greiða viðbótarlaun umfram reglubundin mánaðarlaun, en sú fjárhæð skal byggja á málefnalegum sjónarmiðum, eins og það er orðað. Greiða má viðbótarlaun í allt að sex mánuði en ef tilefni er til er heimilt að framlengja greiðslu þeirra um þrjá mánuði í senn en þó aldrei lengur en í tvö ár samfellt.

Orlofs- og desemberuppbætur

Í samningnum er kveðið á um hækkun orlofs- og desemberuppbóta. Desemberuppbót, sem miðar við full starf, hækkar um tvö þúsund krónur á ári á samningstímanum. Á þessu ári verða fullvinnandi launafólki greiddar 94 þúsund krónur.

Orlofsuppbót verður 52 þúsund krónur á næsta ári en 53 þúsund krónur árið 2022. Orlofsprósentan verður nú ein í stað þriggja, eða 13,04%. Allir sem eru í fullu starfi og vinna 40 stundir á viku fá hér eftir 240 stundir í orlof. Orlofstímabilið er frá 1. maí til 15. september og starfsmenn eiga rétt á allt að 30 dögum, þar af fimmtán samfelldum á sumarorlofstímabilinu, verði því komið við vegna starfa stofnunarinnar. „Yfirmaður ákveður, í samráði við starfsmann, hvenær orlof skuli veitt. Yfirmanni er skylt að verða við óskum starfsmanna um hvenær orlof skuli veitt enda verði því við komið vegna starfsemi stofnunar.“

Einnig kemur fram að ákvörðun um sumarorlof skuli liggja fyrir ekki síðar en 31. mars. Ýmsar frekari breytingar voru gerðar á kafla um orlofsmál, sem lögreglumenn eru hvattir til að kynna sér. Þar á meðal eru breytingar um tilfærslu á orlofsdögum á milli ára og ákvæði um veikindi í orlofi.

Skil milli vinnu og einkalífs skerpt

Nýja grein um vinnustaði er að finna í samningnum. Í henni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að starfsfólk geti sinnt reglubundnum störfum sínum innan hefðbundins vinnudags. Mikilvægt sé að stofnanir setji sér viðverustefnu þar sem skerpt sé á skilum milli vinnu og einkalífs. „Í þeim tilvikum sem starfsfólk þarf að sinna vinnu utan hefðbundins vinnutíma skal það koma fram í starfslýsingu og starfskjörum viðkomandi. Að öðrum kosti skal greiða sérstaklega fyrir vinnuframlag sem yfirmaður krefst af starfsmanni utan hefðbundins vinnutíma.“

Í bókun með kjarasamningnum er kveðið á um að stefnt skuli að upptöku launaþróunartryggingar á milli opinbers og almenns vinnumarkaðar. Þannig skuli tryggja að launaþróun sé að jafnaði svipuð hjá opinberum starfsmönnum og á almennum vinnumarkaði. Sérstaklega skuli horft til þeirra hópa sem ekki hafa verkfallsrétt, en slíkan rétt hafa lögreglumenn ekki. Meta skal hvort annað fyrirkomulag en hefðbundnir kjarasamningar henti betur fyrir þessa hópa.

Úr 40 stundum í 36

Lífskjarasamningarnir hverfast um tilteknar launahækkanir en ekki síður styttingu vinnuvikunnar. Í lífskjarasamningunum var samið um að styttingin hjá fólki í dagvinnu taki í síðasta lagi gildi 1. janúar 2021. Í tilviki vaktavinnufólks er miðað við næsta vor en vinnuvika vaktavinnufólks á að fara úr 40 tímum í 36, svo dæmi sé tekið.

Ítrekað hefur verið sýnt fram á að stytta megi vinnuvikuna þrátt fyrir að álagið á vinnustaðnum geti verið mikið. „Fyrir vaktavinnufólk sem vinnur utan dagvinnutíma, um helgar og á nóttunni, er möguleiki á að stytta vinnuvikuna enn frekar, eða allt niður í 32 stundir. Breytingarnar verða gerðar án launaskerðingar,“ segir í kynningu styttingu vinnuvikunnar á vef BSRB.

Styttingin verður útfærð hjá hverri stofnun eða á hverjum vinnustað fyrir sig en áður verður skipaður vinnutímahópur á vinnustaðnum.

Starfsfólk tekur þátt

BSRB hefur gefið út mikið efni sem ætlað er að skýra hvernig styttingu vinnuvikunnar, annars vegar hjá starfsfólki í dagvinnu og hins vegar hjá starfsfólki í vaktavinnu, verður háttað. Lögreglumenn eru hvattir sérstaklega til að kynna sér þessar útfærslur en starfsmenn hafa sjálfir ýmislegt um það að segja hvernig endanleg útfærsla verður. Því skiptir miklu máli að starfandi lögreglumenn hafi hugmynd um hvaða leiðir hægt er að fara.

Á vef BSRB er fjölmörgum spurningum sem brunnið geta á dagvinnu- eða vaktavinnufólki svarað, sem of langt væri að rekja hér. Á forsíðu vefjar BSRB má smella á „Kynningarefni fyrir kjarasamninga“ til að finna þær upplýsingar en þar má einnig finna myndbönd sem skýra hvaða leiðir eru færar til styttingar vinnuvikunnar.

Grein úr Lögreglumanninum / nóvember 2020.

Til baka