Fréttir

Kjarasamningar

8 nóv. 2020

Nú fyrir skömmu tókst að ljúka kjarasamningagerð fyrir lögreglumenn en kjarasamningar höfðu verið lausir frá 1. apríl 2019. Það má heita með algerum ólíkindum sá dráttur sem varð á því að hægt væri að undirrita og bera kjarasamning undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu.  Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem álíka dráttur hefur orðið á gerð kjarasamninga við stéttina og er það í raun frekar venja en hitt frá því verkfallsréttur stéttarinnar var afnuminn með lögum árið 1986. Frá þeim tíma hefur það ítrekað gerst að kjarasamningagerð hafi dregist á langinn svo mánuðum skipti.

Einn stærsti áfangasigur nýgerðs kjarasamnings er án efa sú staðreynd að um komandi áramót lítur dagsins ljós ný („rétt“) launatafla fyrir lögreglumenn en launatöflur undanfarinna ára hafa einfaldlega verið ónýtar vegna þeirrar vegferðar sem hafin var á haustmánuðum 2008 með krónutöluhækkunum í stað hefðbundinna prósentuhækkana. Þessari nýju launatöflu fylgir nýr stofnanasamningur sem, þegar þetta er skrifað, er í vinnslu á milli Landssambands lögreglumanna og Lögreglustjórafélags Íslands.

Grettistaki var lyft í launamálum og kjarasamningum bæði á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði með styttingu vinnuvikunnar en slíkum árangri hefur íslensk launþegahreyfing ekki náð í áratugi. Nú hins vegar blasir við umtalsverð vinna úti í fyrirtækjunum og stofnunum hins opinbera við innleiðingu vinnutímastyttingarinnar.

Þó nokkrum árangri, gagnvart launþegum á almennum vinnumarkaði, var náð á árinu 2016 þegar gengið var frá samkomulagi, sem þegar hefur tekið gildi, um samræmingu lífeyriskjara á milli markaða. Því samkomulagi fylgdi loforð stjórnvalda um jöfnun launa á milli markaða.  Það bólar lítið á efndum þess loforðs.

Hægt er að hefja þessa vinnu með góðum stofnanasamningi.

Á árunum fyrir bankahrunið margumrædda og -skrifaða, var allverulegur flótti úr stétt lögreglumanna í betur launuð störf á hinum almenna vinnumarkaði. Ástæða þessa var afar einföld. Launin einfaldlega endurspegluðu ekki þá ábyrgð, áhættu og kröfur sem gerðar eru til þeirra starfa að vera lögreglumaður.

Hægt er að koma í veg fyrir að ofangreint gerist með góðum stofnanasamningi.

Sá er þetta ritar hefur margítrekað bent stjórnvöldum, núverandi og fyrrverandi, á þá staðreynd að launakjör lögreglumanna eru í algjörum ógöngum. Þá hefur einnig verið bent á þá einföldu staðreynd að ríkisvaldið, ef það ætlar að halda á sínum starfsmannamálum á þann veg að einhver vilji vinna sem opinber starfsmaður, þá þarf eitthvað mikið að koma til.  Staðreynd mála er nefnilega sú að hrunástand og eftirmálar þess vara ekki að eilífu.  Staðreynd mála er nefnilega sú að innan raða lögreglumanna er gríðarlegur mannauður sem, þegar þetta er skrifað, bíður þess sem kemur. Bíður betri tíðar með blóm í haga og þess að geta jafnvel hafið störf á öðrum vettvangi en innan lögreglu.

Hægt er að koma í veg fyrir að ofangreint gerist með góðum stofnanasamningi.

Það kostar hið opinbera gríðarlega fjármuni að mennta og þjálfa einn lögreglumann þ.a. sá hinn sami geti unnið að störfum sínum í þágu lands og þjóðar.

Þessir fjármunir, sem þarf til að mennta, þjálfa og viðhalda þjálfun hvers einasta lögreglumanns eru fengnir úr vösum skattgreiðenda. Það segir sig því sjálft að það þarf að hlúa vel að þessari fjárfestingu hins opinbera. Það eru hins vegar og því miður mörg dæmi þess, innan hins opinbera, að ekki er hlúð að fjárfestingum í mannauði – heldur þvert á móti.

Hægt er að koma í veg fyrir að ofangreint gerist með góðum stofnanasamningi.

Fyrir allmörgum árum ákvað sá er þetta ritar að leita á önnur mið með atvinnu, að hluta til vegna arfaslakra launakjara hjá hinu opinbera. Það, eitt og sér, er í sjálfu sér ekki stórmál.  Það sem hins vegar kom á óvart var sú staðreynd að hið opinbera hafði engan áhuga á að vita hvers vegna verið væri að leita á önnur mið. Það var eins og það skipti nákvæmlega engu máli þó að einstaklingur, sem hið opinbera hafði eytt gífurlegum fjármunum í að þjálfa til starfa, hyrfi úr þjónustu hins opinbera. Viðhorfið virtist einhvern veginn vera: „Það kemur maður í manns stað.“

Það má vissulega færa til sanns vegar að það komi maður í manns stað en ég held að óhætt sé að segja að öll almenn fræði er varða starfsmannahald og mannauðsstjórnun segi það og skrifi að það borgi sig, til lengri tíma litið, að halda í reynt starfsfólk og umbuna því fyrir þá „hollustu“ sem það sýnir vinnuveitanda sínum. Því virðist hins vegar ekki vera til að dreifa hjá hinu opinbera sem vitandi, eða óafvitandi, sem atvinnurekandi hefur engan áhuga á því hvort starfsfólk þess vilji vinna hjá því eður ei. „Það kemur maður í manns stað.“

Hægt er að sporna við óhóflegri starfsmannaveltu með góðum stofnanasamningi.

Launakjör lögreglumanna hafa verið talsvert til umræðu undanfarin ár og misseri. Oftar en ekki hefur umfjöllunin snúist um þá staðreynd hversu léleg launakjörin eru. Þannig hafa einnig skoðanakannanir sýnt að þorri almennings er á þeirri skoðun að laun lögreglumanna séu skammarlega lág í ljósi þeirrar ábyrgðar, áhættu og krafna sem gerðar eru til starfans. Ríkisvaldið hins vegar kýs að láta þessar staðreyndir sem vind um eyru þjóta, heldur áfram að auka við ábyrgð og áhættu lögreglumanna í starfi.

Hægt er að snúa af þessari braut með góðum stofnanasamningi.

Einhver, sem þetta les, kynni að spyrja sig hvers vegna lögreglumenn, sem virðast vera svo óánægðir í starfi haldi áfram störfum fyrir svo skeytingarlausan vinnuveitanda. Svarið við þeirri spurningu er hins vegar afar einfalt. Starfið er afar fjölbreytt, gefandi, áhugavert, skemmtilegt og fræðandi, til að nefna einhver atriði. Það hins vegar er alls ekki nóg þegar til lengri tíma er litið. Einstaklingar brauðfæða hvorki sjálfa sig né fjölskyldur sínar á áhuga, fjölbreytileika og skemmtilegheitum. Launamenn þurfa laun fyrir vinnu sína. Mannsæmandi laun sem duga til framfærslu fjölskyldna.

Grein úr Lögreglumanninum / nóvember 2020.

Til baka