Fréttir

Þurfa rýmri heimildir til rannsókna á skipulögðum glæpum

18 feb. 2021

Lögreglan þyrfti að hafa auknar heimildir til að geta rannsakað afbrot sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta sagði Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn í greiningardeild Ríkislögreglustjóra, í Morgunútvarpi Rásar 2.

Í máli hans kom fram að gæsluvarðhaldsúrskurðir væru jafnan of stuttir auk þess sem ekki hefði gengið að fjölga lögreglumönnum að ráði. „Við höfum verulegar áhyggjur af þessari þróun sem hefur verið hér undanfarin ár. Þetta er fíkniefnaframleiðsla, sala á fíkniefnum, vændi, mansal,“ segir Runólfur.

Runólfur sagði að lögreglumenn að landinu væru rúmlega 700. Það væri svipað og 2007. Fyrir tæpum áratug hafi verið unnin skýrsla sem sýndi að fjölga þyrfti lögreglumönnum um 200. Það hefði ekki gengið eftir.

Lagabreytingar þarf til að veita lögreglu aukið svigrúm til að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi að sögn Runólfs. „Ég er að tala um aðrar hefðbundnar rannsóknarheimildir. Þá eru ýmsar hömlur sem draga úr gæðum rannsókna. Það afmarkaður stuttur tími, hámarkstími, á gæsluvarðhaldi sem hefur áhrif í svona flóknum stórum rannsóknum. Það þarf að afhenda gögn. Það getur verið varhugavert þegar stutt er komið í rannsókn að þurfa að afhenda gögn,“ sagði Runólfur.

Til baka