Fréttir

Leiðbeiningar stýrihóps um meginreglur hvíldartíma – Stytting vinnuvikunnar

12 mar. 2021

Á heimasíðunni Betri vinnutími er nú búið að setja fram upplýsingar um meginreglur hvíldartímalöggjafarinnar í tengslum við verkefnið um styttingu vinnuvikunnar.  Upplýsingarnar sem þarna er að finna byggja á grunnreglunni um það að hverjum starfsmanni ber daglegur hvíldartími í 11 klst. á hverju 24 klst. tímabili.  Þá byggja reglurnar einnig á vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, sem er í fullu gildi á Íslandi, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem og ýmsum samkomulögum sem gerð hafa verið við launþegasamtök á Íslandi um skipulag vinnutíma, frí o.fl.  Helst ber þar að nefna, auk vinnutímatilskipunarinnar, leiðbeiningar samráðsnefndar um skipulag vinnutíma sem undirritað var þann 16. febrúar 2001.

Inntak allra þessara leiðbeininga er eftirfarandi:

  • Stjórnandi ber ábyrgð á því að skipuleggja vinnutíma þannig að hvíldartímareglur séu virtar og gæta þess að frávik frá meginreglunni um lágmarkshvíldartíma verði eingöngu í undantekningartilvikum.
  • Starfsmenn óski ekki eftir vöktum sem leiða til brota á hvíldartímareglum.
  • Við skipulag vinnutíma þarf fyrst að huga að þörfum starfseminnar, þar á eftir að jafnræðis sé gætt í starfsmannahópnum m.t.t. vaktahvata og vægi vinnuskyldustunda og þar á eftir til þarfa einstakra starfsmanna.
  • Með hliðsjón af gildandi lögum og leiðarljósum betri vinnutíma í vaktavinnu um öryggi og heilsu leggur stýrihópur áherslu á að vaktir verði skipulagðar með hliðsjón af meginreglunni um 11 klukkustunda daglega lágmarkshvíld og einungis verði vikið frá þeirri meginreglu þegar nauðsyn krefur.
  • Þegar betri vinnutími í vaktavinnu tekur gildi og vinnuvika vaktavinnustarfsfólks í fullu starfi styttist úr 40 klukkustundum í 36 á viku skapast svigrúm til að skipuleggja vaktir innan þess ramma sem hvíldartímareglur setja.

Þegar samið var um betri vinnutíma í vaktavinnu voru samningsaðilar sammála um að draga úr notkun frávika frá daglegri lágmarkshvíld eins mikið og kostur er.  Sérstaklega þarf að huga að því að breyta venjum sem ganga gegn leiðarljósum betri vinnutíma.

Hér má sjá frekara efni:

Fræðslumyndband um meginreglur hvíldartímalöggjafar (myndband)

Leiðbeiningar stýrihóps um lengd vakta (PDF)

Til baka