Fréttir

Erfitt að horfa upp á lögreglumenn smitast

19 mar. 2021

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að sér hafi verið brugðið þegar hann frétti af því að þrír lögreglumenn hefðu smitast í vinnunni. 

„Við lærðum það af þessu að maður getur ekki tekið neinu sem gefnu,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn almennrar deildar á Suðurlandi, um útkallið í júní sem varð til þess að þrír lögreglumenn smituðust af COVID-19. Hann segir að yfirmönnum embættisins hafi verið brugðið þegar í ljós kom að lögreglumennirnir væru smitaðir. Erfitt hafi verið að horfa upp á fólkinu sínu kippt út úr daglegu lífi. „Það sem hitti okkur verst var þessi skerðing á lífsgæðum sem þau urðu fyrir á meðan þau voru í einangrun.“ 

Eins og fram kemur í viðtali hér í blaðinu, við tvo af þeim þremur lögreglumönnum sem veiktust, þurftu ellefu lögreglumenn í umdæminu að fara í sóttkví í tengslum við útkallið 12. júní. „Það var erfitt að missa þetta fólk út,“ segir Sveinn Kristján þegar hann fer yfir málið en bætir við að allir hafi verið boðnir og búnir að leysa málin. Sumarafleysingafólk hafi auk þess sumt verið komið til starfa svo lögreglan hafi verið þokkalega mönnuð. Vel hafi gengið að manna vaktirnar. „Samt er alltaf erfitt að missa svona kjarna úr,“ bætir hann við. Þarna hafi heil vakt af fjórum dottið út á einu bretti. Lögreglumennirnir ellefu voru í sóttkví í 14 daga en þau þrjú sem veiktust voru frá í um og yfir 20 daga.

Færðu þeim vistir í bústaðinn

Þeir lögreglumenn sem þurftu aðeins að fara í sóttkví dvöldu á hóteli á meðan sá tími leið. Þremenningarnir dvöldu hins vegar saman í sumarbústað, eftir að hafa sýkst, í samráði við sóttvarnayfirvöld. Spurður hvernig embættið hafi staðið að málum gagnvart þeim svarar Sveinn Kristján því til að allt kapp hafi verið lagt á að þeim yrði veitt öll sú þjónusta sem þau þurftu. „Við sáum um að koma til þeirra mat og öðrum vistum og vorum með einn starfsmann í að færa þeim það sem þau þurftu í bústaðinn. Við sáum um það allt.“

Eins og hér í blaðinu kemur fram smitaðist einn lögreglumaður í útkalli þar sem hann hafði afskipti af Rúmenum sem grunaðir voru um búðarþjófnað á Selfossi. Tveir rannsóknarlögreglumenn smituðust svo af sama fólki þegar skýrslutökur fóru fram. Einn lögreglumaðurinn missti af fæðingu dóttur sinnar vegna veikindanna.

Breytt verklag vegna COVID-19

Sveinn Kristján segir að ekkert hafi bent til þess að fólkið væri nýkomið frá útlöndum. Um hafi verið að ræða einstakling með íslenska kennitölu og bíl skráðan hér. Ekki hafi hins vegar verið allt sem sýndist og af því geti lögreglan dregið lærdóm. 

„Við hertum á kröfum innanhúss hjá okkur,“ útskýrir Sveinn, spurður hvaða áhrif COVID-19 og þetta atvik hafi haft á dagleg störf innan embættisins. Í dag sé fólk ekki tekið inn í lögreglubíla að óþörfu og snertingu sé haldið í lágmarki. Ráðstafanir hafi verið gerðar sem miða að því að færri lögreglumenn noti hvern bíl. Vel sé gætt að persónubundnum smitvörnum og lögreglumenn beri hanska og grímur ef handtaka þurfi fólk. Vinnustaðnum hafi auk þess verið skipt upp í vor, þegar faraldurinn stóð sem hæst, til að minnka hættuna á stórum hópsýkingum innan lögreglunnar. „Við erum mjög meðvituð um hættuna og megum ekki við því að missa stóra hópa út í veikindi.“ Hann segir að viðbrögðin við þessu máli sem upp kom og breytt vinnubrögð með tilkomu COVID-19 sýni hversu samtakamátturinn innan lögreglunnar sé mikill.

Birtist fyrst í Lögreglumanninum, í nóvember 2020.

Til baka