Fréttir

Styttri

19 mar. 2021

Snorri Magnússon skrifar:

Í kjölfar kjarasamninga LL, sem undirritaðir voru í september á liðnu ári, var strax hafist handa við að ganga frá nýjum stofnanasamningi og lauk vinnu við vörpun í nýja launatöflu á fyrstu vikum þessa árs. Þar birtist sú hækkun sem er að finna í bókun 5 með áðurnefndum kjarasamningi eða 4% að lágmarki.

Enn er nokkur vinna eftir – sem er í gangi – er lýtur að svokallaðri starfagreiningu þar sem farið er yfir hvert einasta starf innan lögreglunnar og þau metin m.a. og að hluta til með hliðsjón af ÍSSTARF-starfaflokkunarkerfinu.  Þá á einnig eftir að taka saman og yfirfara menntunarstig stéttarinnar en ein af grunnforsendum viðbótarflokks og/eða þrepa til aukinnar hækkunar í stofnanasamningi er m.a. sú menntun sem og sí- og endurmenntun sem lögreglumenn hafa aflað sér.

Eitt alstærsta atriði sem samið hefur verið um á launamarkaði á Íslandi og hefur verið eitt helsta baráttumál BSRB í áraraðir náðist í gegn við liðna samningagerð en það er stytting vinnuvikunnar. Þetta eitt hljóðar upp á raunvirðishækkun grunnlauna um á bilinu 11% – 25% en eins og flestir vita er vinnutímastyttingin frá fjórum (4) klst. og allt upp í átta (8) klst. á viku hjá vaktavinnufólki.  

Þrátt fyrir gríðarlega kynningu á þessu máli, a.m.k. frá árinu 2012 og með síauknum þunga sl. tvö ár, virðist enn bera á talsverðum misskilningi hjá launamönnum almennt vegna vinnutímastyttingarinnar. Það er ljóst að ekki er unnt, í svo stuttum pistli sem þessi er, að fara ítarlega yfir málefnið né kynna það til hlítar og er því rétt að benda þeim sem áhuga hafa á að kynna sér það fræðsluefni sem er um þetta að finna á eftirtöldum vefslóðum:

www.betrivinnutimi.is

www.styttri.is og síðast en ekki síst á heimasíðu LL:

www.logreglumenn.is  

Þeim, sem svo aftur hafa sérstakan áhuga á að kynna sér hugmyndafræðina á bak við styttri vinnutíma, aukinn frítíma með fjölskyldum sínum og hvernig styttri vinnutími hefur betri áhrif á heilsu og líðan almennt, er einnig bent á áhugaverðar upplýsingar sem hægt er að finna á heimasíðunni:

www.alda.is/stytting-vinnutimans/ 

Rétt er, þrátt fyrir ofanritað, að taka af öll tvímæli um örfá atriði er lúta að vinnutímastyttingunni en það er m.a. sú staðreynd að enginn á að lækka í launum við vinnutímabreytingarnar. Mönnunargat það sem mun myndast vegna vinnutímastyttingarinnar og kostnaður þess vegna er tryggt af hinu opinbera og hér ber sérstaklega að horfa til þess einnig að möguleg undirmönnun í einhverjum stofnunum er allt annað og aðskilið mál frá vinnutímastyttingunni. Þetta eru einnig atriði sem almennur launamaður á ekki að vera að velta fyrir sér enda er hvort tveggja, rétt mönnun og fjármögnun stofnana hins opinbera, á ábyrgð stjórnenda þeirra og fjárveitingavaldsins og ábyrgð á verkefninu er kemur að vinnutímastyttingunni liggur hjá forstöðumönnum opinberra stofnana.

Þetta er síðasti pistill sem ég rita í þetta blað sem formaður LL og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka lögreglumönnum þann trúnað og traust sem þeir hafa lagt á mínar herðar í gegnum undanfarin ár. Margar brekkur hafa verið á þessari leið sem reyndar hófst í einni stærstu og erfiðustu brekku sem nokkurt stéttarfélag eða forysta þess hefur nokkurn tímann klifið á Íslandi en það var kjarasamningagerð í miðju bankahruni í október 2008. Þrátt fyrir þær aðstæður sem þá voru á vinnumarkaði tókst að halda í við storminn sem stóð í fangið og m.a.s. að færast örlítið fram á við. Framsóknin hefur síðan verið nokkuð stöðug en erfið þar sem flestar launahækkanir áranna í kjölfar bankahrunsins fólust í krónutöluhækkunum, sem ollu algerri eyðileggingu á launatöflu lögreglumanna. Það vandamál hefur nú verið lagfært og standa vonir mínar til þess að sá mikli ávinningur, sem náðist með nýrri launatöflu í byrjun þessa árs, sem og nýjum stofnanasamningi, muni, þegar fram líða stundir, skila sér í enn betri kjörum þar sem hver og einn getur haft meiri og gegnsærri áhrif á samspil sí- og endurmenntunar sinnar í starfinu og launasetningu.

Hvað framtíðin síðan ber í skauti sér og hvort við nokkurn tímann rekumst hvert á annað aftur í leik eða starfi á eftir að koma í ljós. 

Birtist fyrst í Lögreglumanninum, í mars 2021.

Til baka